Útfararstyrkur

Aðstandandi getur sótt um styrk þegar dánarbú getur ekki staðið undir útför hins látna. Styrkur er greiddur til útfararstofu og getur að hámarki verið 250.000 kr.

Hver á rétt á útfararstyrk?

Almennt er réttur til staðar ef dánarbú hins látna getur ekki greitt kostnað vegna útfarar þar sem það er eignalaust.

Tekjulágir makar geta fengið lán eða styrk vegna útfararkostnaðar ef dánarbúið getur ekki greitt fyrir útför hins látna og eignir maka eru ekki aðrar en íbúðarhúsnæði sem hann býr í.

Tekjulágir foreldrar geta fengið lán eða styrk vegna útfararkostnaðar barns ef foreldrar geta ekki greitt fyrir útför barns og eignir þeirra eru ekki aðrar en íbúðarhúsnæði sem þeir búa í.

Hvernig er sótt um útfararstyrk?

Þú getur sótt um útfararstyrk á Mínum síðum ef þú ert með umboð fyrir hönd dánarbús. Þú skráir þig inn á þínum rafrænu skilríkjum en skráir upplýsingar um hinn látna í umsókninni.

Einnig er hægt að fylla út umsókn á PDF-formi og senda á VELumsokn@reykjavik.is eða skila á þjónustumiðstöð í þínu hverfi.

Hvaða gögn þurfa að fylgja umsókninni?

Til að umsóknin geti verið afgreidd þarf að skila inn eftirfarandi gögnum

  • Staðfesting frá stéttarfélagi um hvort réttur til útfararstyrks sé til staðar
  • Yfirlýsing frá sýslumanni um eignarleysi dánarbúsins og skiptalok
  • Staðfest skattframtal
  • Umboð fyrir hönd dánarbús frá sýslumanni

Hvað gerist ef umsókn er synjað?

Ef umsókn er synjað og þú telur sérstakar málefnalegar ástæður liggja fyrir því að veita skuli þér undanþágu frá reglum getur þú sent inn beiðni um áfrýjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs.

Hve lengi gildir útfararstyrkur?

Útfararstyrkur gildir í 3 mánuði eftir að hann er samþykktur. Það þýðir að reikningur vegna útfararkostnaðar skal berast innan þriggja mánaða frá samþykki umsóknar. Reikningi skal skila á netfangið VELumsokn@reykjavik.is.

Þú getur óskað eftir því að útfararstofan sendi reikninginn beint á netfangið.