No translated content text
Borgarhátíðasjóður
Reykjavíkurborg styður við menningarhátíðir í borginni með Borgarhátíðasjóði í formi samstarfssamnings til þriggja ára.
Næsti umsóknarfrestur er vor 2025.
Um Borgarhátíðasjóð
Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkurborgar auglýsir á þriggja ára frestir eftir umsóknum frá forsvarsfólki hátíða sem vilja verða Borgarhátíðir Reykjavíkur. Um er að ræða samstarfssamning sem ein af Borgarhátíðum Reykjavíkur. Þær hátíðir sem valdar eru úr umsóknum fá fjárframlag og þriggja ára samstarfssamning.
Markmið Borgarhátíðasjóðs
Að styðja samfellu, framþróun og rekstrarlegan grundvöll hátíða í Reykjavík sem þegar hafa sannað ótvírætt gildi sitt hvað varðar þýðingu fyrir menningarlífið í borginni, alþjóðleg tengsl, jákvæð áhrif á ferðamennsku og ímynd Reykjavíkur auk efnahagslegs umfangs.
Hátíðir sem uppfylla eftirtalin skilyrði eiga möguleika á að vera valdar borgarhátíðir Reykjavíkur:
- vera til eflingar menningar og mannlífs í Reykjavík
- vera opin almenningi, aðgengileg og sýnileg
- hafa verið haldin að lágmarki þrisvar sinnum
- vera haldin árlega
- vera með alþjóðlega tengingu
- standa yfir í þrjá daga eða lengur
- vera með faglega stjórn
- viðhafa góða stjórnarhætti og rekstrarlegt gegnsæi
- fullnægja kröfum um fagmennsku og gæði
- styðja við menningarstarf í hverfum borgarinnar
- stuðla að atvinnusköpun
Jafnframt er litið til atriða eins og nýsköpunar, barnamenningar, aðsóknar, stöðugleika, þróunarmöguleika, tímasetningar innan ársins, möguleika hátíðanna á eigin tekjuöflun, umhverfismála, samstarfs við borgarstofnanir og þess að þær endurspegli fjölbreytileika samfélagsins bæði varðandi gesti og þátttakendur.
Umsókn
Umsækjendur eru beðnir um að svara eftirfarandi spurningum í gegnum Mínar síður hjá Reykjavíkurborg
- Almennar upplýsingar um umsækjanda
- Almennar upplýsingar um ábyrgðaraðila hátíðarinnar
- Heiti hátíðar
- Stutt lýsing á hátíð
- Dagsetning hátíðar
- Stjórnendur hátíðar (Nafn, kt. og hlutverk)
- Stjórn hátíðar (Nafn, kt. og staða innan stjórnar)
- Hve oft hefur hátíðin verið haldin
- Lýsing og markmið næstu þriggja hátíða
- Alþjóðleg tenging við hátíðina
- Hvernig eflir hátíðin menningu og mannlíf í borginni
- Hvernig styður hátíðin við menningarstarf í hverfum borgarinnar
- Hvernig er hátíðin aðgengileg almenningi? T.d. fríir viðburðir, miðasala, streymi o.fl.
- Hvernig sinnir hátíðin barnamenningu?
- Er hátíðin með markmið er varða sjálfbærni og umhverfismál?
Einnig þarf að hlaða upp eftirfarandi fylgigögnum:
- Ársreikningur síðastliðinna 3ja ára
- Áætlun ársins 2022 ásamt kynningar- og fjárhagsáætlun
Umsækjendum er bent á að kynna sér Menningarstefnu Reykjavíkurborgar 2021 - 2030.
Nánari upplýsingar veitir skrifstofa menningarborgar á netfanginu menning@reykjavik.is.