Áður en sótt er um afnotaleyfi

Hvenær skal sækja um afnotaleyfi?

Ef fyrirhuguð framkvæmd, viðburður eða önnur afnot eru á borgarlandi skal sækja um afnotaleyfi. Ef afnotin eru innan einkalóðar þarf að fá samþykki eiganda lóðar. Það athugist að sækja skal um leyfi til Vegagerðar vegna afnota af þjóðvegum í þéttbýli og til Faxaflóahafna vegna afnota innan hafnarmarka. Í borgarvefsjá má sjá afmörkun borgarlandsins, þjóðvegi í þéttbýli og hafnarmörk.  

Hvað telst til rofs á yfirborði borgarlands? 

Hér er átt við allt rof og aðra jarðvinnu í borgarlandinu þar sem síðan þarf að endurgera yfirborð gatna, gangstétta, stíga, grænna svæða o.s.frv.  Þarna undir falla einnig byggingaframkvæmdir og önnur mannvirkjagerð þar sem nýta þarf borgarland. Það athugist að einnig þarf að sækja um afnotaleyfi fyrir stærri byggingarreiti og framkvæmdir sem eru að öllu leyti innan lóðar þar sem slík verk hafa áhrif á aðgengi og flæði umferðar á borgarlandi. Sótt er um leyfi í rafræna umsóknarkerfinu Rosy.   

Hvað fellur undir viðburði og önnur afnot? 

Hér getur verið um að ræða kvikmyndatöku, útitónleika, útifundi, fjöldagöngur, íþróttakeppnir og aðra viðburði af ýmsu tagi. Önnur afnot af borgarlandi eru t.a.m. gámar vegna búslóðaflutninga, vinnupallar, vinnulyftur, kranar, önnur vinnutæki o.s.frv.  

Götu og- torgsala

Götu- og torgsala fellur undir samþykkt þar um og skal beina fyrirspurnum á netfangið torgsala@reykjavik.is.  

Útiveitingar og veitingaborð á gangstétt

Átt þú veitingastað og viltu bjóða viðskiptavinum þínum „út“ að borða? Útiveitingar á borgarlandi eru háðar samþykki borgarinnar. Undantekningarlaust þarf rekstrarleyfi með útiveitingum til að veita út. 

Skilmálar afnotaleyfis

Helstu skilmálar afnotaleyfis tengjast skyldum leyfishafa varðandi

  • Aðgengi og aðkomu allra vegfarenda framhjá framkvæmdasvæði  

  • Verðmæti og frágang á yfirborði borgarlands 

  • Öryggi og vinnusvæðamerkingar 

  • Upplýsingaskyldu við vegfarendur, íbúa og aðra hagaðila í nærumhverfi