Húsnæðisátak
Markmiðið með íbúðaruppbyggingu í grónum hverfum borgarinnar er að vinna hratt og vel við að deiliskipuleggja og úthluta byggingarhæfum íbúðalóðum til að mæta þörf á húsnæðismarkaði. Lögð er áhersla á að uppbyggingin taki mið af anda og aðstæðum á hverjum stað.
Myndir fyrir Breiðholt
Forsagan
Borgarstjóri setti í byrjun árs 2024 af stað verkefnishóp um húsnæðismál. Meðal áherslna er að skoða möguleika á þróun á litlum og meðalstórum lóðum í úthverfum. Byrjað var á því að skoða Grafarvog en árið 2025 hófst samskonar þróun í Breiðholti.
Reykjavíkurborg hefur á síðastliðnum árum unnið markvisst að því að vakta þróun uppbyggingar til að mæta þörf á húsnæðismarkaði á grundvelli húsnæðisáætlana, markmiða Aðalskipulags Reykjavíkur 2040 og með gerð hverfisskipulags fyrir gróin hverfi borgarinnar.
Hverfin skoðuð heildstætt
Mikilvægt er að skoða hvert hverfi heildstætt. Í Grafarvogi er um að ræða fjölgun um tæplega 350 íbúðir en lögð er sérstök áhersla í þeirri uppbyggingu að öll ný byggð passi vel inn í það umhverfi sem fyrir er. Þar eiga eftir að bætast við lítil fjölbýli, einbýli og parhús hér og þar í hverfinu sem taka mið af anda og aðstæðum á hverjum stað.
Í Breiðholti er samskonar skoðun í vinnslu sem eru í samhengi við tillögur sem komu fram í hverfisskipulagi sem var samþykkt fyrir skömmu. Áhersla er lögð á svæði með rými í skólum.
Betri nýting innviða
Markmiðið með uppbyggingu í grónum hverfum er að efla hverfin og nýta innviði, svo sem vegakerfi og veitur, sem og verslunar- og þjónustukjarna. Einnig styður uppbyggingin við leikskóla og skóla í þessum hverfum sem hafa svigrúm til þess að taka á móti fleiri nemendum.
Hagkvæmt og fjölbreytt
Sérstök áhersla er lögð á hagkvæma og vistvæna uppbyggingu með því að stuðla að fjölbreyttu framboði íbúða , sem mætir húsnæðisþörfum ólíkra hópa samfélagsins eftir fjölskyldumynstri og aldri. Þar sem mögulegt er á að tryggja lóðir fyrir smærri húsnæðisfélög sem ekki eru rekin í ágóðaskyni. Einnig á að finna lóðir fyrir smærri uppbyggingaraðila, skapa sjálfbærari hverfisheildir og styðja almennt betur við megin markmið aðalskipulags um sjálfbæra borgarþróun.
Græn svæði
Unnið verður að því að uppbyggingin styðji við líffræðilega fjölbreytni og græn svæði, bæði innan og utan uppbyggingarsvæða. Áhersla verður lögð á vistvæna hönnun og byggingarmáta með lágmörkun kolefnisspors, blágrænum ofanvatnslausnum og fjölbreyttri gróðurþekju.
Hvað gerist næst?
Grafarvogur
Verið er að vinna að þróun Aðalskipulagsbreytingar eftir að athugasemdir bárust í skipulaglagsgátt vegna vinnslutillögu Aðalskipulagsbreytingar. Einnig er verið að þróa deiliskipulagstillögur lóðanna áfram. Gert er ráð fyrir að leggja inn Aðalskipulagsbreytinguna í lok sumars eða byrjun hausts.
Breiðholt
Lóðir við Krummahóla, Austurberg/Hraunberg og Suðurhóla sem samþykktar voru í Umhverfis- og skipulagsráði þann 25.06.2025 fara í formlegt auglýsingarferli sem tekur 6 vikur. Kynning tillagna fer fram á skipulagsgátt þar sem íbúum og hagaðilum gefst kostur á að gera athugasemdir við tillögur á meðan á auglýsingu stendur. Kynning tillagna er einnig auglýst í Lögbirtingablaði og dagblaði.
Eftir að auglýsingarferli lýkur verður farið yfir athugasemdir sem bárust, þeim svarað og grein gerð fyrir þeim og afstöðu borgarinnar til þeirra. Gera má ráð fyrir að þetta taki um 2-4 vikur eftir að auglýsingarferli líkur.