Hljóðvistarstyrkur

""

Reykjavíkurborg veitir íbúðaeigendum við umferðargötur styrki, til að bæta hljóðeinangrun íbúðarhúsnæðis með því að skipta út venjulegu gleri fyrir einangrandi gler.  

Á ég rétt á styrk?

Ef að þú átt íbúðarhúsnæði við umferðargötur, þar sem hljóðstig vegna umferðar mælist að minnsta kosti 65 dB(A), utan við vegg eða glugga íbúðar, átt þú rétt á hljóðvistarstyrk.  

Ferli umsóknar

Umsóknir sem uppfylla skilyrði eru teknar til afgreiðslu af skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. Umsóknir eru flokkaðar og þeim forgangsraðað eftir umferðarhávaða. Fagaðili á vegum Reykjavíkurborgar metur umfang glerskipta og hávaða og þegar úttektarskýrsla liggur fyrir getur eigandi hafið framkvæmdir. Styrkir eru greiddir út að lokinni úttekt byggingarfulltrúa á framkvæmdinni.  

Fjárhæð styrks

Fjárhæð hljóðvistarstyrks ræðst af því hversu mikill hávaði mælist utan við vegg eða glugga íbúðar sem og þeim fjölda fermetra af gleri sem skipta þarf út. Styrkur nemur að jafnaði 50 – 70% af kostnaði við úrbætur.