Miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda
Reglur um matvælaupplýsingar sem koma fram á umbúðum matvæla, eru settar með það að meginmarkmiði að vernda neytendur. Neytendur eiga rétt á greinargóðum upplýsingum um þau matvæli sem boðin eru til sölu, auglýst eða kynnt með öðrum hætti. Merkingar mega ekki vera blekkjandi, þær verða að vera vel læsilegar og skýrar. Merkingar eiga að vera á íslensku, ensku eða norðurlandamáli, öðru en finnsku.
Merkingar
Eftirfarandi upplýsingar er almennt skylt að merkja á umbúðum matvæla, þó með ákveðnum undantekningum og/eða sérákvæðum:
Heiti matvæla
Heiti matvæla á að gefa til kynna um hvers konar vöru er að ræða. Sum heiti eru vernduð vöruheiti (þ.e. lögheiti) sem dæmi má nefna mjólk, súkkulaði og skinka. Slíkar vörur verða að uppfylla ákveðin skilyrði til að mega kallast þessum nöfnum og eru þessi skilyrði tilgreind í reglugerðum. Ef lögheiti er ekki fyrir hendi skal heiti matvæla vera venjubundið heiti, þ.e. heiti sem er viðtekið sem heiti matvælanna á meðal neytenda án þess að það heiti þurfi frekari skýringa við. Ef ekkert venjubundið heiti er notað verður heiti matvæla að vera lýsandi fyrir matvælið.
Listi yfir innihaldsefni
Listi yfir innihaldsefni skal veita greinargóðar upplýsingar um samsetningu vörunnar. Öll innihaldsefni skal tilgreina eftir minnkandi magni eins og þau eru notuð við framleiðslu vörunnar. Lista yfir innihaldsefni þarf ekki fyrir allar vörur t.d. þegar matvæli samanstendur af einu innihaldsefni og heiti þess er það sama og heiti innihaldsefnisins.
Aukefni
Aukefni (E-númer) sem notuð eru við framleiðslu matvæla eru tilgreind í lista yfir innihaldsefni en þau eru notuð til að hafa áhrif á lit, lykt, bragð, útlit, geymsluþol eða aðra eiginleika. Efnin eru ýmist auðkennd með efnaheitum eða E-númerum.
Þegar aukefni eru notuð í vörur þarf einnig að greina frá tilganginum með notkun efnisins. Það er gert með því að setja flokksheiti á undan efnaheitinu eða E-númerinu. Dæmi: Rotvarnarefni: E 202, litarefni: E 110.
Ofnæmis- og óþolsvaldandi efni
Öll innihaldsefni eða hjálparefni við vinnslu sem eru á lista yfir ofnæmis- og óþolsvaldandi efni þarf að merkja með skýrum hætti, jafnvel þó það sé í örlitlu magni og þrátt fyrir að efnin séu í breyttu formi. Skýr tilvísun í heiti efnisins eða afurðarinnar eins og það er skráð á listanum yfir ofnæmis- og óþolsvaldandi efni (viðauki 2 (EB) reglugerð nr. 1169/2011). Heiti ofnæmis- eða óþolsvalda þarf að aðgreina með skýrum hætti frá öðrum heitum í listanum yfir innihaldsefni með t.d. feitletrun, skáletrun eða öðrum lit. Þau efni sem eru á listanum yfir ofnæmis- og óþolsvaldandi efni eru: korn sem inniheldur glúten (hveiti, rúgur, bygg, hafrar, spelt, taumhveiti), krabbadýr, egg, fiskur, jarðhnetur, sojabaunir, mjólk (þ.m.t. laktósi), hnetur (möndlur, heslihnetur, valhnetur, kasjúhnetur, pekanhnetur, parahnetur, pistasíuhnetur, macadamia hnetur), sellerí, sinnep, sesamfræ, brennisteinsdíoxíð og súlfít, lúpína og lindýr.
Magnmerking
Ef merking matvæla gefur til kynna magn eða undirstrikar mikilvægi eins eða fleiri innihaldsefna, eða ef ákveðin innihaldsefni eru venjulega tengd heiti matvæla eða eru nauðsynleg til að einkenna matvælin og greina þau frá vörum sem þau kunna að vera tekin í misgripum fyrir, á magn þeirra að koma fram í tengslum við heiti vörunnar eða í innihaldslýsingu.
Þyngd
Upplýsingar um nettóþyngd eða rúmmál vöru eru gefnar upp í kílóum, grömmum, lítrum, sentílítrum eða millilítrum. Þegar um er að ræða vörur sem seldar eru í legi, t.d. niðursoðnar grænar baunir, þarf bæði að gefa upp heildarþyngd vörunnar og þyngd baunanna án vökva. Glassering á að vera fyrir utan uppgefna nettóþyngd.
Geymsluskilyrði
Oft þarf að gefa upplýsingar um hvernig á að geyma vörur. Þetta er sérlega mikilvægt þegar um er að ræða kæli- eða frystivörur. Hitastig kælivöru á að vera á bilinu 0-4°C og frystivöru a.m.k. -18°C. Sumar vörur sem óopnaðar eru geymdar við stofuhita, þarf að geyma í kæli eftir að búið er að opna þær og á það að vera merkt á umbúðum vörunnar. Mikilvægt er að fara eftir leiðbeiningum um geymsluaðferðir.
Geymsluþol
Matvæli þarf yfirleitt að merkja með upplýsingum um hvað þau geymast lengi. Geymsluþol matvæla er hægt að merkja á tvennskonar hátt.
1. Lágmarksgeymsluþol og þá er merkt á undan dagsetningunni:
- „Best fyrir“ ef geymsluþol á við ákveðinn dag og gildir þá til loka þess dags
- „Best fyrir lok“ ef geymsluþol miðast við mánuð eða ár
2. Síðasti notkunardagur og er þá merkt á undan dagsetningunni:
- „Síðasti notkunardagur“
- „Notist eigi síðar en“
Framleiðandi vöru ber ábyrgð á að meta geymsluþol vöru og merkja hana rétt. Reglugerðir um geymsluþolsmerkingu matvæla í dag, bæði á Íslandi og í Evrópu miða að því að draga úr matarsóun. Þess vegna er leyfð sala á vörum sem merktar eru með lágmarksgeymsluþoli, og sannanlega eiga að vera merktar með þessum hætti, eftir að því líkur. Þær þurfa þó að vera söluhæfar, líta eðlilega út, lykta og bragðast eðlilega. Einnig þarf að aðgreina þær frá öðrum vörum sem til sölu eru. Þetta má hins vegar ekki með vörur sem merktar eru með „síðasta notkunardegi“, þær geta verið hættulegar til neyslu þrátt fyrir að líta eðlilega út.
Framsetning á geymsluþoli matvæla fer eftir hversu langt geymsluþol vörunnar er, en geymsluþol á að gefa upp í eftirfarandi röð: Dagur – Mánuður – Ár. Framsetning er eftirfarandi eftir lengd á geymsluþoli:
- Matvæli með geymsluþol < 3 mánuðir Dagur – Mánuður
- Matvæli með geymsluþol 3–18 mánuðir Mánuður – Ár
- Matvæli með geymsluþol > 18 mánuðir Ár
Sum matvæli þarf ekki að merkja með upplýsingum um geymsluþol, má þar nefna ferska ávexti, ferskt grænmeti, vín, edik, sykur og matarsalt.
Ábyrgur aðili
Merkja þarf heiti eða fyrirtækjaheiti og heimilisfang framleiðanda, pökkunaraðila eða seljanda með aðsetur á Evrópska efnahagssvæðinu.
Uppruni matvæla
Gefa þarf upp upplýsingar um uppruna eða framleiðsluland ef skortur á slíkum upplýsingum gæti villt um fyrir neytandanum hvað varðar réttan uppruna matvælanna. Þó er skylt að merkja uppruna á hunangi, kældu og frystu nautgripakjöti, kjöt af svínum, sauðfé, geitum og alifuglum. Á umbúðum ákveðinna tegunda ferskra matjurta er einnig skylt að gefa upplýsingar um upprunaland. Dæmi um matjurtir eru kartöflur, tómatar, laukur, hvítlaukur, blómkál, grænkál, gulrætur, sveppir, paprikur, spínat og rabarbari.
Notkunarleiðbeiningar
Notkunarleiðbeiningar þarf að hafa í merkingum matvæla ef ekki er unnt að nýta matvælin á réttan hátt án slíkra leiðbeininga.
Næringaryfirlýsing
Skylt er að gefa upp næringaryfirlýsingu þar sem fram kemur orkugildi og magn fitu, mettaðrar fitu, kolvetnis, sykurtegunda, próteins og salts. Orkugildið og magn næringarefna eru gefin upp í 100 g eða 100 ml. Næringaryfirlýsingu þarf ekki að merkja á allar vörur, til dæmis má nefna óunnar afurðir sem samanstanda af einu innihaldsefni, ger, tyggigúmí, gelatín, salt, krydd, kryddjurtir og hlaupmyndandi efni fyrir sultu.
Drykkjarvörur sem innihalda mikið af koffíni eða matvæli með viðbættu koffíni
Fyrir matvæli sem innihalda mikið koffín eða innihalda viðbætt koffín eru sérstakar kröfur um merkingar. Þær kröfur koma fram í III viðauka EB reglugerð nr. 1169/2011 (innleidd hér á landi í reglugerð nr. 1294/2014) Þessar merkingar er skylt að hafa á íslensku skv. 3. gr. reglugerðar nr. 1294/2014.
Tegund matvæla | Merking |
---|---|
Drykkir sem innihalda 150 mg/L af koffíni eða meira (að undanskildum te- og kaffidrykkjum þegar heiti þeirra inniheldur hugtakið „kaffi“ eða „te“). | „Inniheldur mikið af koffíni. Ekki æskilegt fyrir börn eða barnshafandi konur eða konur með barn á brjósti“ og þar á eftir upplýsingar um magn koffíns í mg/100 mL |
Matvæli (þ.m.t. fæðubótarefni) (önnur en drykkjarvörur) sem innihalda íblandað koffín í lífeðlisfræðilegum tilgangi. | „Inniheldur koffín. Ekki æskilegt fyrir börn eða barnshafandi konur eða konur með barn á brjósti“ og þar á eftir upplýsingar um magn koffíns í mg/100 g eða mL. Ef um fæðubótarefni er að ræða skal magn koffíns gefið upp í einum ráðlögðum dagskammti |