Miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda

Reglur um matvælaupplýsingar sem koma fram á umbúðum matvæla, eru settar með það að meginmarkmiði að vernda neytendur. Neytendur eiga rétt á greinargóðum upplýsingum um þau matvæli sem boðin eru til sölu, auglýst eða kynnt með öðrum hætti. Merkingar mega ekki vera blekkjandi, þær verða að vera vel læsilegar og skýrar. Merkingar eiga að vera á íslensku, ensku eða norðurlandamáli, öðru en finnsku.

Merkingar

Eftirfarandi upplýsingar er almennt skylt að merkja á umbúðum matvæla, þó með ákveðnum undantekningum og/eða sérákvæðum:

Heiti matvæla

Heiti matvæla á að gefa til ­kynna um hvers kon­ar vöru er að ræða. Sum heiti eru vernduð vöruheiti (þ.e. lögheiti) sem dæmi má nefna mjólk, súkkulaði og skinka. Slík­ar vör­ur ­verða að upp­fylla á­kveð­in skil­yrði til að mega kall­ast þess­um nöfn­um og eru þessi skilyrði tilgreind í reglugerðum. Ef lögheiti er ekki fyrir hendi skal heiti matvæla vera venjubundið heiti, þ.e. heiti sem er viðtekið sem heiti matvælanna á meðal neytenda án þess að það heiti þurfi frekari skýringa við. Ef ekkert venjubundið heiti er notað verður heiti matvæla að vera lýsandi fyrir matvælið.

Listi yfir innihaldsefni

Listi yfir innihaldsefni skal ­veita grein­ar­góð­ar upp­lýs­ing­ar um sam­setn­ingu vör­unn­ar. Öll inni­halds­efni skal til­greina eftir minnkandi ­magni eins og þau eru notuð við fram­leiðslu vörunnar. Lista yfir innihaldsefni þarf ekki fyrir allar vörur t.d. þegar matvæli samanstendur af einu innihaldsefni og heiti þess er það sama og heiti innihaldsefnisins.

­Aukefni

Aukefni (E-númer) sem notuð eru við fram­leiðslu mat­væla eru tilgreind í lista yfir innihaldsefni en þau eru notuð til að hafa á­hrif á lit, lykt, bragð, út­lit, geymslu­þol eða aðra eig­in­leika. Efn­in eru ým­ist auð­kennd með efna­heit­um eða E-núm­er­um.

Þeg­ar ­aukefni eru not­uð í vör­ur þarf ­einnig að ­greina frá til­gang­in­um með notk­un efn­is­ins. Það er gert með því að ­setja flokks­heiti á und­an efna­heit­inu eða E-núm­er­inu. Dæmi: Rot­varn­ar­efni: E 202, lit­ar­efni: E 110.

Ofnæmis- og óþolsvaldandi efni

Öll innihaldsefni eða hjálparefni við vinnslu sem eru á lista yfir ofnæmis- og óþolsvaldandi efni þarf að merkja með skýrum hætti, jafnvel þó það sé í örlitlu magni og þrátt fyrir að efnin séu í breyttu formi. Skýr tilvísun í heiti efnisins eða afurðarinnar eins og það er skráð á listanum yfir ofnæmis- og óþolsvaldandi efni (viðauki 2 (EB) reglugerð nr. 1169/2011). Heiti ofnæmis- eða óþolsvalda þarf að aðgreina með skýrum hætti frá öðrum heitum í listanum yfir innihaldsefni með t.d. feitletrun, skáletrun eða öðrum lit.  Þau efni sem eru á listanum yfir ofnæmis- og óþolsvaldandi efni eru: korn sem inniheldur glúten (hveiti, rúgur, bygg, hafrar, spelt, taumhveiti), krabbadýr, egg, fiskur, jarðhnetur, sojabaunir, mjólk (þ.m.t. laktósi), hnetur (möndlur, heslihnetur, valhnetur, kasjúhnetur, pekanhnetur, parahnetur, pistasíuhnetur, macadamia hnetur), sellerí, sinnep, sesamfræ, brennisteinsdíoxíð og súlfít, lúpína og lindýr.

Magn­merk­ing

Ef merk­ing mat­væla gef­ur til ­kynna magn eða und­ir­strik­ar mik­il­vægi eins eða ­fleiri inni­halds­efna, eða ef á­kveð­in inni­halds­efni eru venju­lega tengd ­heiti mat­væla eða eru nauð­syn­leg til að ein­kenna matvæl­in og ­greina þau frá vör­um sem þau ­kunna að vera tek­in í mis­grip­um fyr­ir, á magn ­þeirra að koma fram í tengsl­um við ­heiti vör­unn­ar eða í inni­halds­lýs­ingu.

Þyngd

Upp­lýs­ing­ar um nettó­þyngd eða rúm­mál vöru eru gefn­ar upp í kíló­um, grömm­um, lítr­um, sentílítrum eða milli­lítr­um. Þeg­ar um er að ræða vör­ur sem seld­ar eru í legi, t.d. nið­ur­soðn­ar græn­ar baun­ir, þarf bæði að gefa upp heild­ar­þyngd vör­unn­ar og þyngd baunanna án ­vökva. Glassering á að vera fyrir utan uppgefna nettóþyngd.

Geymslu­skil­yrði

Oft þarf að gefa upp­lýs­ing­ar um hvern­ig á að ­geyma vör­ur. ­Þetta er sér­lega mik­il­vægt þeg­ar um er að ræða kæli- eða frysti­vör­ur. Hita­stig kæli­vöru á að vera á bil­inu 0-4°C og frysti­vöru a.m.k. -18°C. Sum­ar vör­ur sem ó­opn­að­ar eru geymd­ar við stofu­hita, þarf að ­geyma í kæli eft­ir að búið er að opna þær og á það að vera merkt á umbúðum vörunnar. Mikil­vægt er að fara eft­ir leið­bein­ing­um um geymslu­að­ferð­ir.

Geymslu­þol

Mat­væli þarf yf­ir­leitt að ­merkja með upp­lýs­ing­um um hvað þau geym­ast ­lengi. Geymsluþol matvæla er hægt að merkja á tvennskonar hátt. 

1. Lágmarksgeymsluþol og þá er merkt á undan dagsetningunni:

  • „Best fyrir“ ef geymsluþol á við ákveðinn dag og gildir þá til loka þess dags
  • „Best fyrir lok“ ef geymsluþol miðast við mánuð eða ár

2. Síðasti notkunardagur og er þá merkt á undan dagsetningunni:

  • „Síðasti notkunardagur“
  • „Notist eigi síðar en“

Framleiðandi vöru ber ábyrgð á að meta geymsluþol vöru og merkja hana rétt. Reglugerðir um geymsluþolsmerkingu matvæla í dag, bæði á Íslandi og í Evrópu miða að því að draga úr matarsóun. Þess vegna er leyfð sala á vörum sem merktar eru með lágmarksgeymsluþoli, og sannanlega eiga að vera merktar með þessum hætti, eftir að því líkur. Þær þurfa þó að vera söluhæfar, líta eðlilega út, lykta og bragðast eðlilega. Einnig þarf að aðgreina þær frá öðrum vörum sem til sölu eru. Þetta má hins vegar ekki með vörur sem merktar eru með „síðasta notkunardegi“, þær geta verið hættulegar til neyslu þrátt fyrir að líta eðlilega út.

Framsetning á geymsluþoli matvæla fer eftir hversu langt geymsluþol vörunnar er, en geymsluþol á að gefa upp í eftirfarandi röð: Dagur – Mánuður – Ár. Framsetning er eftirfarandi eftir lengd á geymsluþoli:

  • Matvæli með geymsluþol < 3 mánuðir        Dagur – Mánuður
  • Matvæli með geymsluþol 3–18 mánuðir     Mánuður – Ár
  • Matvæli með geymsluþol > 18 mánuðir      Ár

Sum mat­væli þarf ekki að ­merkja með upp­lýs­ing­um um geymslu­þol, má þar ­nefna ­ferska ávexti, ferskt grænmeti, vín, edik, sykur og mat­ar­salt.

Á­byrg­ur að­ili

­Merkja þarf ­heiti eða fyr­ir­tækja­heiti og heim­il­is­fang fram­leið­anda, pökk­un­ar­að­ila eða selj­anda með að­set­ur á Evr­ópska efna­hags­svæð­inu.

Upp­runi mat­væla

Gefa þarf upp upp­lýs­ing­ar um upp­runa eða fram­leiðslu­land ef skort­ur á slík­um upp­lýs­ing­um gæti villt um fyr­ir neyt­and­an­um hvað varð­ar rétt­an upp­runa mat­væl­anna. Þó er skylt að merkja uppruna á hunangi, kældu og frystu nautgripakjöti, kjöt af svínum, sauðfé, geitum og alifuglum. Á umbúðum ákveðinna tegunda ferskra matjurta er einnig skylt að gefa upplýsingar um upprunaland. Dæmi um matjurtir eru kartöflur, tómatar, laukur, hvítlaukur, blómkál, grænkál, gulrætur, sveppir, paprikur, spínat og rabarbari.

Notk­un­ar­leið­bein­ing­ar

Notk­un­ar­leið­bein­ing­ar þarf að hafa í merk­ing­um mat­væla ef ekki er unnt að nýta mat­væl­in á rétt­an hátt án ­slíkra leið­bein­inga.

Nær­ing­ar­yfirlýsing

Skylt er að gefa upp næringaryfirlýsingu þar sem fram kemur orkugildi og magn fitu, mettaðrar fitu, kolvetnis, sykurtegunda, próteins og salts. Orkugildið og magn næringarefna eru gefin upp í 100 g eða 100 ml. Næringaryfirlýsingu þarf ekki að merkja á allar vörur, til dæmis má nefna óunnar afurðir sem samanstanda af einu innihaldsefni, ger, tyggigúmí, gelatín, salt, krydd, kryddjurtir og hlaupmyndandi efni fyrir sultu.

Drykkjarvörur sem innihalda mikið af koffíni eða matvæli með viðbættu koffíni

Fyrir matvæli sem innihalda mikið koffín eða innihalda viðbætt koffín eru sérstakar kröfur um merkingar. Þær kröfur koma fram í III viðauka EB reglugerð nr. 1169/2011 (innleidd hér á landi í reglugerð nr. 1294/2014) Þessar merkingar er skylt að hafa á íslensku skv. 3. gr. reglugerðar nr. 1294/2014.

Tegund matvæla Merking
Drykkir sem innihalda 150 mg/L af koffíni eða meira (að undanskildum te- og kaffidrykkjum þegar heiti þeirra inniheldur hugtakið „kaffi“ eða „te“). „Inniheldur mikið af koffíni.  Ekki æskilegt fyrir börn eða barnshafandi konur eða konur með barn á brjósti“ og þar á eftir upplýsingar um magn koffíns í mg/100 mL
Matvæli (þ.m.t. fæðubótarefni) (önnur en drykkjarvörur) sem innihalda íblandað koffín í lífeðlisfræðilegum tilgangi. „Inniheldur koffín. Ekki æskilegt fyrir börn eða barnshafandi konur eða konur með barn á brjósti“ og þar á eftir upplýsingar um magn koffíns í mg/100 g eða mL.  Ef um fæðubótarefni er að ræða skal magn koffíns gefið upp í einum ráðlögðum dagskammti