Gufunes

Heildstæð framtíðarsýn fyrir Gufunes er í mótun í gegnum vinnu við gerð rammaskipulags. Markmiðið er að skapa hverfi fyrir íbúðir og atvinnustarfsemi skapandi greina, í áhrifaríku samspili við náttúru og rótgróin mannvirki staðarins.

Fríríki tækifæranna

Hugmyndasamkeppni um Gufunes var haldin árið 2016 en verðlaunahafar voru jvantspijker + Felixx. Í greinargerð tillögunnar komu fram veigamikil markmið sem enn er unnið eftir við rammaskipulag í dag. Þar kom fram að vegna staðaranda og legu hafi Gufunes alla burði til þess að verða borgarhluti sem sker sig úr fjöldanum og geti orðið einskonar fríríki þar sem tækifæri og upplifun verða í forgunni.

Mannvænt, fjölbreytt og skemmtilegt

Allar götur síðan verðlaunatillaga jvantspijker + Felixx leit dagsins ljós hefur verið leitast eftir að fylgja markmiðum Aðalskipulags Reykjavíkur. Þar er í fyrirrúmi hvernig megi þróa skapandi borg fyrir alla í nánum tengslum við Sundin með grænar áherslur að leiðarljósi. 

 

Áhersla er á vistvænar lausnir eins og blágrænar ofanvatnslausnir og græna ásýnd í sterkri tengingu við þétta og fjölbreytilega byggð. Umfram allt er manneskjan sett í öndvegi með áherslu á góð almenningsrými sem er aðgengilegt öllum.

 

Með þessar áherslur að leiðarljósi verða markmið samkeppnistillögunnar verða að veruleika. Þar segir að þessi náttúru- og iðnaðarperla muni skera sig úr fjöldanum og þjóna þeim sem kunna að meta óhefluð séreinkenni svæðisins og kjósa að búa í suðupotti borgarbragsins.

Teikning af fólki við störf í skapandi þorpi í Gufunesi

Lifandi hverfi frá morgni til kvölds

Gert er ráð fyrir mikilli íbúðauppbyggingu á Gufunesi en samhliða verður öflug uppbygging atvinnu komið á fót, svo skapa megi hverfi með blómlegu mannlífi frá morgni til kvölds. Hverfinu er í þessu samhengi skipt upp í fimm ása sem hver hefur sína sérstöðu.

 

  • Sjávargarðar til norðurs gefa kost á íbúðum með stórbrotnu útsýni og manneskjuvænum íverurýmum á milli húsanna.
  • Við hinn Skapandi ás eru staðsett hin gömlu mannvirki áburðarverksmiðjunnar sem með stærð sinni bjóða upp á kynngimagnaða rýmisupplifun og hrífandi orku sem laðar til sín skapandi atvinnugreinar og mannlíf.
  • Græna vinin inniheldur uppbyggingu fjölbýlishúsa sem munu tengjast manngerðri náttúru sterkum böndum og verða þannig hluti af líffræðilegum fjölbreytileika þessa svæðis.
  • Smiðjumiðja mun bjóða upp á öfluga atvinnustarfsemi í nánum tengslum við manneskjuvæn almenningsrými.
  • Sjávarsamlagið til suðurs gefur kost á íbúðarkjörnum, á viðráðanlegu verði fyrir alla, í sterkum tengslum við sjávarsíðuna með áherslu á samlífi íbúa og deilihagkerfi.

Saga og staðarandi

Um miðja síðustu öld var reist áburðarverksmiðja á Gufunesi sem taldist til stóriðju á þessum tíma. Með tilkomu verksmiðjunnar urðu til tignarleg og svipsterk mannvirki sem mörg hver voru sýnileg frá borginni og settu þau sterkan svip á landslag staðarins. Nokkur þessara mannvirkja hafa fengið nýtt hlutverk í skapandi anda en gott dæmi þar um er kvikmyndaver.

 

Gufunes er að sama skapi í sterkri tengingu við hafflötinn en strandlengja umvefur svæðið með áhrifríkum hætti og liðast í allar áttir en þar má finna fjörur, hvíta sanda og kletta, auk bryggjunnar með sínu víðáttumikla útsýni.

Yfirlitsmynd af Gufunesi

Skemmtileg þemasvæði

Með útgangspunkt í verðlaunatillögu frá árinu 2016 hafa verið þróuð gegnumgangandi stef fyrir svæðið í heild sinni.

  • Strandlengjan verður áfram í hávegum höfð og styrkt þannig að hún verði áhrifaríkt almenningsrými fyrir alla.
  • Garðurinn mun gegna veigamiklu hlutverki við að stuðla að líffræðilegum fjölbreytileika, skjólmyndun og grænu yfirbragði.
  • Hringleiðin er kjölfesta fyrir umferð um hverfið og verður eins konar borgargata þar sem umferð gangandi, hjólandi og akandi vegfarenda mynda eina heild.
  • Miðjurnar verða staðir fyrir fólk til að hittast og eyða tíma saman og verða staðsettar í sterku samspili við hið rótgróna umhverfi Gufuness, það er dramatíska strúktúra og líka dulúðlegan kirkjugarðinn.

Tengingar hverfisins til framtíðar

Byggð Gufuness vex ekki lengra til austurs en ráðgert er nú en áætlað er að Sundabraut liggi austan við hverfið og tengi það með sterkum hætti við þungamiðju höfuðborgarsvæðisins þegar fram líða stundir. Þangað til mun hverfið þó fá tíma til að vaxa og þroskast með útgangspunkt í hið marbreytilega menningarlandslag sem staðurinn býr yfir í dag.

Af sömu ástæðum verða alltaf landfræðileg skil á milli Gufuness og Grafarvogs en þó er lögð mikil áhersla á að skapa sterkar tengingar þarna á milli, eins og með lagningu hjóla- og göngustíga.

""

Uppbygging Spildu

Uppbygging er nú þegar hafin í Gufunesi á vegum fasteignaþróunarfélagsins Spildu en félagið áformar að reisa allt að 700 íbúðir í Gufunesi á næstu árum. Íbúðirnar verða af ýmsum stærðum og gerðum.

""

Skapandi greinar

Fjölmörg fyrirtæki í kvikmyndaiðnaði og skapandi greinum hafa fest rætur í Gufunesi, auk þess sem nokkrir tugir listamanna eru þar með vinnustofur sínar. Stærst er kvikmyndafyrirtækið Rvk Studios.

Hvar fæ ég frekari upplýsingar?

Hér verður hægt að nálgast ítarefni.

Viltu vita meira eða ertu með athugasemd? Sendu tölvupóst á skipulag@reykjavik.is