Greining á lagatextum

Hér má finna nokkrar leiðir til að vinna með lagatexta og tónlistarmyndbönd og greina þá með nemendum í ljósi tilfinninga, samskipta og kynlífs.

Um verkefnið

Kynhlutverk - Félagsmótun - Tilfinningar - Samskipti - Kynlíf

Tenging við menntastefnu: Félagsfærni

Gerð efnis: Verkefni

Markhópur: 9-16 ára nemendur og starfsfólk

Viðfangsefni: Andleg og félagsleg vellíðan, Jafnrétti, Samskipti, Staðalmyndir

Tónlist – tilfinningar, samskipti og kynlíf

Hægt er að skipta nemendum í litla hópa eða hafa þetta einstaklingsverkefni.

  • Hver hópur/nemandi velur sér lag (innlent eða erlent) sem fjallar á einhvern hátt um ást, ástarsorg eða kynlíf. Nemendur lesa vel textann og rýna í innihaldið. Hvað er höfundur að segja? Er einhver saga þarna á bak við og hver er hún? Hvernig birtast samskipti í laginu? Hvaða tilfinningar er verið að tjá? Hvernig birtast hlutverk kynjanna?
  • Kennari velur tvo til þrjá popplagatexta og tvo til þrjá rapptexta. Nemendur eiga í sameiningu að lesa textana og bera saman tilfinningarnar, samskiptin og söguna í textunum. Er einhver munur? Hver er helsti munurinn? Er talað á ólíkan hátt um kynin?
  • Biðjið nemendur að finna tónlistarmyndbönd þar sem fjallað er á einhvern hátt um líkama, ást, ástarsorg eða kynlíf. Hvernig eru birtingarmyndir í myndbandinu, eru allir gagnkynhneigðir? Hafa konur annað hlutverk en karlar, ef svo er hvernig þá? Eru konur öðruvísi klæddar en karlar?Hvernig er líkamstjáning fólksins?

 

Eftir að allir hafa rýnt í verkefnið er sniðugt að ræða heildarniðurstöðurnar yfir hópinn. Nemendur geta skilað af sér skriflega eða munnlega eða hvernig svo sem kennaranum/félagsmiðstöðvar starfsmanninum dettur í hug að geti verið góð leið til að ljúka úrvinnslunni.