Gististaðir
Gististaðir eru staðir þar sem boðin er gisting að hámarki í 30 daga samfleytt í senn gegn endurgjaldi, svo sem á hótelum, gistiheimilum, gistiskálum, íbúðum og sumarhúsum, með eða án veitinga.
Heimagisting
Er gisting gegn endurgjaldi á lögheimili einstaklings eða í einni annarri fasteign sem hann hefur til persónulegra nota og er í hans eigu. Fjöldi útleigðra daga í báðum eignum samanlagt skal ekki fara yfir 90 daga á hverju almanaksári eða samanlagðar tekjur af leigu eignanna skulu ekki nema hærri fjárhæð en 2 milljónir króna.
Flokkun gististaða
Gististaðir skiptast í fjóra flokka, skv. lögum nr. 85/2007:
Flokkur I | Heimagisting |
Flokkur II | Gististaður án veitinga |
Flokkur III | Gististaður með veitingum en þó ekki áfengisveitingum |
Flokkur IV | Gististaður með áfengisveitingum |
Gististaðir skiptast í átta tegundir, skv. reglugerð nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.
Hótel | Gististaður þar sem gestamóttaka er aðgengileg allan sólarhringinn og veitingar að einhverju tagi framleiddar á staðnum. Fullbúin baðaðstaða skal vera með hverju herbergi. |
Stærra gistiheimili | Gististaður með takmarkaða þjónustu þar sem leigð eru út 5 eða færri herbergi eða hefur rými fyrir 10 einstaklinga eða færri. Getur verið gisting á einkaheimili. Ekki er gerð krafa um handlaug í herbergjum. Gestir skulu hafa aðgang að fullbúinni baðaðstöðu. |
Minna gistiheimili | Gististaður með takmarkaða þjónustu þar sem leigð eru út 5 eða færri herbergi eða hefur rými fyrir 10 einstaklinga eða færri. Getur verið gisting á einkaheimili. Ekki er gerð krafa um handlaug í herbergjum. Gestir skulu hafa aðgang að fullbúinni baðaðstöðu. |
Gistiskáli | Gisting í herbergjum eða svefnskálum. Hér undir falla farfuglaheimili (hostel). |
Fjallaskálar | Gisting í herbergjum eða í svefnskálum staðsett utan alfaraleiðar og almenningur hefur aðgang að, svo sem skálar fyrir ferðamenn, veiðiskálar og sæluhús. |
Heimagisting | Gisting á lögheimili einstaklings eða einni annarri fasteign í hans eigu sem hann hefur persónuleg not af. |
Íbúðir | Íbúðarhúsnæði sérstaklega ætlað til útleigu til gesta til skamms tíma (gististaður) og fellur ekki undir húsaleigulög. Hér undir falla starfsmannabústaðir og starfsmannabúðir þegar slíkar byggingar eru ekki leigðar út í tengslum við vinnusamning. Íbúðir félagasamtaka eru undanskildar. |
Frístundahús | Hús utan þéttbýlis sem er nýtt til tímabundinnar dvalar. Orlofshús félagasamtaka, svo sem stéttarfélaga og starfsgreinafélaga, eru undanskilin. |
Nánari kröfur til gististaða eru í reglugerð nr. 1277/2016. Eftirlit með reglugerðinni er í höndum lögreglu.
Gististaðir í flokkum II-IV
Gististaðir í Reykjavík í flokkum II-IV þurfa starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirlitinu og rekstrarleyfi frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.
Þeir þurfa að uppfylla kröfur í reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti, með síðari breytingum, reglugerð nr. 724/2008 um hávaða, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs, með síðari breytingum.
Ef gististaður býður upp á matvæli, þ.m.t. áfengi, þarf hann að uppfylla ákvæði reglugerðar Evrópusambandsins nr. 852/2004 um hollustuhætti er varða matvæli, með síðari breytingum (innleidd hér á landi með reglugerð nr. 103/2010) auk annarra reglugerða sem við eiga.
Heimagisting
Einstaklingur sem vill reka heimagistingu þarf að skrá starfsemina hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Fari reksturinn yfir viðmið fyrir heimagistingu í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald þarf að afskrá gististaðinn sem heimagistingu á vef sýslumanna og sækja um starfsleyfi hjá heilbrigðisnefnd og rekstrarleyfi frá sýslumanni (flokkur II-IV).
Þann 31. maí 2017 voru gerðar lagabreytingar á Alþingi á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Lagabreytingarnar tóku gildi frá og með 1. júlí 2017. Ekki er lengur krafist starfsleyfis frá heilbrigðisnefndum fyrir heimagistingu í flokki I.
Heilbrigðiseftirlitið í Reykjavík hvetur leigusala til að fylgja almennum reglum hvað varðar hreinlæti, umgengni, viðhald, loftræstingu, öryggismál, ónæði og hávaða í því húsnæði sem er leigt út. Einnig er hvatt til árvekni á meðal leigusala vegna veggjalúsar.