Vinsamlegast mokið frá sorptunnum

Sorptunnur í snjó.

Sorphirða í Reykjavík er á eftir áætlun vegna þeirra vetraraðstæðna sem nú eru ríkjandi. Nauðsynlegt er að huga að greiðu aðgengi að tunnum til að tryggja að sorphirða geti farið fram. 

Íbúar eru því beðnir um að moka snjó frá sorptunnum, geymslum og skýlum og gæta að því að gönguleið sé greið. Nauðsynlegt er að hreinsa snjó og klaka og hálkuverja gönguleiðir. Til dæmis þarf að gæta að því að hægt sé að opna þau hlið og hurðir sem liggja að tunnunum. Líka er hætta á því að hurðir og tunnur hafi frosið fastar. 

Þar sem er ómokað og starfsfólk kemst ekki að tunnum getur svo farið að sleppa þurfi að tæma tunnurnar. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum mætir starfsfólk sorphirðunnar oft erfiðum aðstæðum við vinnu sína.

Unnið á laugardaginn

Unnið verður næstkomandi laugardag 12. febrúar en ekki er ljóst hvor það muni nást að tæma allt sorp sem var á áætlun í vikunni og færist það þá yfir á áætlun næstu viku. 

Hægt er að sjá losunardaga eftir hverfum í sorphirðudagatali á vef Reykjavíkurborgar.  Þar inn koma líka tilkynningar sem varða sorphirðu, til dæmis ef um seinkun er að ræða. 

Vetraraðstæður í sorphirðu