Vetrarhátíð 2023 – Magnað myrkur

Ljósaverk prýða Austurvöll á Vetrarhátíð 2022.

Vetrarhátíð verður haldin dagana 2.–4. febrúar nk. Hátíðin fer fram í öllum sex sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins.

Tilgangur Vetrarhátíðar er að lífga upp á borgarlífið á dimmustu vetrarmánuðunum með því að tengja saman ólíka menningarlega þætti sem allir tengjast þema hátíðarinnar, ljósi og myrkri Boðið verður upp á fjölbreytta viðburði þar sem fjöldi listamanna tekur þátt í að skapa einstaka stemningu á Vetrarhátíð. Þessi hátíð ljóss og myrkurs samanstendur af þremur meginstoðum: ljósaslóðinni, Safnanótt og Sundlauganótt. Aðgangur ókeypis.

Ljósaslóð

Fuser á Hallgrímskirkju

Vetrarhátíð verður sett 2. febrúar kl 19:00 á torginu fyrir framan Hallgrímskirkju. Dagur B. Eggertsson mun opna hátíðina. Ljóslistaverkið sem varpað verður á Hallgrímskirkju heitir Fuser og er eftir listamanninn Sigurð Guðjónsson.

Sigurður Guðjónsson er þekktastur fyrir magnþrungin tímatengd verk sem rannsaka manngerðar vélar og tækniminjar, í tengslum við eðlislæga þætti þeirra. Með því að sameina mynd og hljóð með áhrifamiklum hætti, býr listamaðurinn til flókin, marglaga verk sem skapa sláandi upplifun fyrir áhorfandann. Sigurður Guðjónsson var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2022. Hann hlaut Íslensku myndlistarverðlaunin 2018 og hafa verk hans hafa verið sýnd á fjölmörgum einka og samsýningum bæði hérlendi og erlendis.

Snúrusúpa – Myndlistarsýning

Í Ráðhúsi Reykjavíkur verður boðið upp á myndlistarsýninguna Snúrusúpa. Rafmagnið flæðir um allt: innan í okkur, um tækin sem eru framlenging okkar, undir fótum okkar, yfir höfðum okkar, um dýrin og plönturnar; í leiðslum, snúrum, taugum, köplum, strengjum. Listamenn sem standa að sýningunni eru: Andri Björgvinsson, Atli Bollason, Hákon Bragason, Patricia Carolina, Sean Patrick O’Brien, Una Sigtryggsdóttir, Þorsteinn Eyfjörð.

Metfjöldi ljóslistaverka verða á Vetrarhátíð í ár, en alls lýsa 23 ljóslistaverk upp skammdegið á skapandi hátt og mynda skemmtilega gönguleið. Margir þekktir listamenn taka þátt í ár þar á meðal eru Þórdís Erla Zoëga, Hrafnkell Sigurðsson, Fríða Ísberg, Sin Fang & Máni M. Sigfússon.

Ljóslistaverk og uppákomur þeim tengdum verður í gangi öll kvöld yfir hátíðina frá klukkan 18:30–22:30.

Safnanótt

Gestum Vetrarhátíðar býðst að fara á  fjölmörg söfn ( um 40 talsins) á Safnanótt þann 3. febrúar og skoða ótal sýningar á höfuðborgarsvæðinu þar sem boðið verður upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá. Lögð verður áhersla á að bjóða upp á óhefðbundna viðburði þetta kvöld og veita gestum nýja sýn á söfnin.

Á Þjóðminjasafninu verður horfið aftur til 19. aldar þar sem gestir fá að upplifa kvöldvöku í baðstofunni. Kvæðamenn, - konur og börn flytja ýmiss konar kveðskap, rímur og vísur, sagnaþulur segir ævintýri, hægt verður að hlýða á bragfræðikennslu í léttum dúr, langspilsleik og söng.

Vígalegir víkingar frá víkingafélaginu Rimmugýg heimsækja Sögusafnið á Safnanótt, sýna vopn sín og fatnað, spjalla við gesti og gangandi og skemmta eins og þeim er einum lagið.

Á Hönnunarsafninu í Garðabær verður boðið upp á heima-hönnunarsmiðju fyrir alla fjölskylduna þar sem gestir setja sig í spor hönnuða og uppfinningamanna og búa til húsgögn á ímyndað heimili

í Byggðasafni Hafnarfjarðar verður boðið upp á skemmtilegan og fróðlega ratleik fyrir alla fjölskylduna.

Í Safnahúsinu á Hverfisgötu opnar sýningin Viðnám í Safnahúsinu – samspil myndlistar og vísinda. Skemmtileg gagnvirkni og listasmiðjur leynast í hverjum krók.

Vatnið í náttúru Íslands er sýning Náttúruminjasafns Íslands á annarri hæð Perlunnar þar sem viðfangsefnið er vatn frá ýmsum hliðum. Starfsmenn Náttúruminjasafnsins og félagsmenn Jöklarannsóknarfélagsins bjóða gesti velkomna og spjalla um undur vatns og jökla.

Safnanótt stendur yfir frá klukkan 18:00–23:00

Sundlauganótt

Sundlauganótt verður haldin 4. febrúar eftir þriggja ára hlé. Öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu taka þátt og verða alls þrettán sundlaugar opnar og er aðgangur ókeypis. 

Uppákomur verða af margvíslegum toga og munu gestir fá að upplifa einstaka og óvenjulega kvöldstund. Ljós, myrkur og gleði verða allsráðandi, þar sem gestir eru hvattir til að slaka á og njóta stundarinnar.

Þessar laugar taka þátt í Sundlauganótt:

Laugardalslaug, Vesturbæjarlaug, Sundhöll Reykjavíkur, Breiðholtslaug, Grafarvogslaug, Dalslaug, Árbæjarlaug, Sundlaug Kópavogs, Salalaug, Lágafellslaug, Seltjarnarneslaug, Ásgarðslaug og Ásvallalaug.

Sundlaugarnar verða opnar frá kl. 17:00-22:00

Allar nánari upplýsingar um dagskrá Vetrarhátíðar má nálgast á vetrarhatid.is