Upptaka af íbúafundi á Kjalarnesi

Heilbrigðiseftirlit Skipulagsmál

Fundur á Kjalarnesi

Upplýsandi og vel sóttur fundur var haldinn á Kjalarnesi um skotveiðisvæðið og framtíð þess. Upptaka var gerð af fundinum og hægt er að senda athugasemdir til 18. apríl.

Skotæfingasvæðið á Álfsnesi var til umræðu á íbúafundi í Klébergsskóla miðvikudaginn 10. apríl en þar var kynnt breyting á aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 varðandi svæðið. Einnig var framtíð svæðisins rædd.

Markmið breytingarinnar er að skapa tímabundin skilyrði fyrir starfsemi skotfélaganna sem nú er til staðar á meðan unnið er að því að finna framtíðarsvæði fyrir skotíþróttir á höfuðborgarsvæðinu.

Breytingarnar lúta að því að skapa skilyrði fyrir starfsemi Skotfélags Reykjavíkur (SR) og Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis (SKOTREYN) til skemmri tíma litið. Ljóst má vera að það mun taka nokkurn tíma að klára endanlegt staðarval, undirbúa nýtt svæði, semja við landeigendur, vinna skipulag og umhverfismat og hanna og undirbúa framkvæmdir.

Markmið og tilgangur 

Megin markmið tillögugerðar: 

  • Að tryggja tímabundna aðstöðu fyrir Skotfélag Reykjavíkur og Skotveiðifélag Reykjavíkur og nágrennis.
  • Að tryggja tímabundnar landnotkunarheimildir um íþróttastarfsemi (skotæfingasvæði) á Álfsnesi. 
  • Að leita leiða til að draga úr og lágmarka umhverfisáhrif frá skotæfingasvæðunum, meðan þau eru staðsett á Álfsnesi. Umhverfisáhrif skotvalla eru einkum af tvennum toga, ónæði vegna hávaða og möguleg mengun af völdum hagla og skota. Lagðar eru til aðgerðir til að draga úr umhverfisáhrifunum. 

Athugsemdir til 18. apríl

Umrædd breytingartillaga er nú í auglýsingu í skipulagsgátt og hefur frestur til þess að gera athugasemdir verið framlengdur til 18. apríl næstkomandi.

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar