Íbúafundur um Kjalarnes og dreifbýl svæði

Skipulagsmál

Kjalarnes

Umhverfis- og skipulagssvið heldur íbúafund á Kjalarnesi vegna breytingar á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 – Kjalarnes og dreifbýl svæði, sem nú er í kynningu. Fundurinn verður haldinn í Klébergsskóla miðvikudaginn 4. september kl. 17.

Á fundinum verður gildandi stefna kynnt og farið yfir markmið og áherslur í fyrirhugaðri endurskoðun ásamt stefnu fyrir skógrækt á Kjalarnesi. Einnig verða kynnt sjónarmið landeigenda á svæðinu. 

Hægt er að nálgast gögn í skipulagsgátt hjá Skipulagsstofnun, en þar er einnig hægt að skila inn formlegum athugasemdum, ábendingum og umsögnum til 1. október.

Kynntar verða fyrirhugaðar breytingar á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Ætlunin er að beina einkum sjónum að stefnuákvæðum aðalskipulagsins um landbúnaðarsvæði og önnur strjálbyggð svæði, opin svæði og óbyggð. Sérstök áhersla verður á Kjalarnesið, þ.m.t. Grundarhverfið. Í inngangi greinargerðar er vikið að umræddum breytingum, en þar segir að horft verði einkum til nýtingar landbúnaðarsvæða, efnistöku, skógræktar, útivistarsvæða, landslagsverndar, náttúruverndar, líffræðilegrar fjölbreytni og kolefnisspors landnotkunar.

Lykil viðfangsefni

Á þessu stigi eru skilgreind nokkur lykil viðfangsefni. Hér eru tvö dæmi um það en hægt er að kynna sér málið til fulls í verkefnislýsingu skipulagsgerðar og umhverfismats.

  • Grundarhverfi og þróun þéttbýlis á Kjalarnesi. Þéttbýliskjarninn í Grundarhverfi verði efldur og gerður sjálfbærari. Hugað verði að afmörkun þéttbýlis og umfangi íbúðarbyggðar, þjónustu og annarrar landnotkunar, í samhengi við undirbúning hverfisskipulags á svæðinu.
  • Skógrækt, endurheimt landgæða og kolefnispor opins lands. Settar verði frekari leikreglur um skógrækt á bújörðum og landbúnaðarsvæðum og á öðru opnu landi, Sérstaklega verði horft til skipulagsákvæða sem gilda um Græna trefilinn, afmörkun hans og landgæða til skógræktar og hvernig skógrækt getur stuðlað að breytingum á staðbundnu veðurfari. Stefna um skógrækt, endurheimt landgæða og endurheimt votlendis verður m.a. mótuð á grundvelli upplýsinga um kolefnisbúskap opins lands.

Öll velkomin á fundinn