Upplýsingar um vetrarþjónustu á göngu- og hjólaleiðum í vikunni

Mikið lagt í vetrarþjónustu á stígum

Starfsfólk vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar hefur staðið í ströngu þessa vikuna við hálkuvarnir á göngu- og hjólaleiðum. 

Frá mánudeginum 2. desember hefur göngu- og hjólaleiðum verið sinnt af kappi enda mikil hálka á þessum leiðum. Á mánudaginn sl. var kallað út á hjólaleiðir kl. 13:30 og í gönguleiðir kl. 04:00. Á þriðjudaginn var kallað út í hjólaleiðir kl. 04:00 og 11:00, gönguleiðir milli hverfa kl. 04:00 og gönguleiðir innan hverfa kl.08:00. Sami taktur hefur verið í útköllum alla vikuna og hefur alls verið kallað út í hjólaleiðir í níu skipti, gönguleiðir milli hverfa í fimm skipti og innan hverfa í tvö skipti, annars vegar á fimmtudag og hins vegar á föstudag kl. 08:00. 

Allt stígakerfið saltað

Í öllum tilfellum er allt stígakerfið, sem er í forgangi samkvæmt þjónustuviðmiðum, saltað. Þess má geta að heildarlengd stígakerfisins er um 866 km en þar af er rúmlega 600 km í forgangi samkvæmt þjónustuviðmiðum. Auk þess hafa verktakar verið að salta stígakerfið í miðborginni frá þriðjudegi til föstudags. Þess má geta að þær gönguleiðir sem ekki eru í forgangi samkvæmt þjónustuviðmiðum verða saltaðar í kvöld, föstudag, og á morgun, laugardag. Þetta eru þær gönguleiðir sem ekki er teknar við húsagötur en hefðbundið er að þjónusta gönguleiðir inn í hverfum (við húsagötur) þar sem gatnalýsing er staðsett, ekki mótlæga gönguleið. Á þessu verður gerð undantekning í kvöld og á morgun eins og fyrr greinir.

Förum varlega

Starfsfólk vetrarþjónustunnar biðlar til vegfarenda að fara varlega í hálkunni. Best er að nota mannbrodda þegar mikil hálka er og vera á negldum dekkjum á reiðhjólum til að forðast slysin. Einnig að rekstraraðilar hálkuverji bílaplön og gönguleiðir framan við fyrirtækin. Sú aðgerð myndi fækka slysum verulega. 

Vonast er til að hláka frá sunnudegi og mánudag muni bræða klakann fljótt og vel en í slíkum aðstæðum getur skapast mikil hálka þegar klakinn blotnar. Förum varlega um helgina!