Upplýsingar um vetrarþjónustu 28. desember 2022

Samgöngur Sorphirða

Snjóruðningstæki hreinsar snjó í Vesturbergi í Breiðholti.

Allar snjóruðningsvélar voru kallaðar út í Reykjavík í nótt til að halda áfram þar sem frá var horfið í gær.

Í dag hefur gengið vel að ryðja stíga eins og áður. Ruðningur á götum hélt einnig áfram en aðalverkefnið í dag eru húsagötur og gengur vel að vinna það verkefni. Einnig er unnið eftir ábendingum sem snúa að allskyns málum, aðallega sem snúa að færð í húsagötum.

Engar markverðar breytingar verða samkvæmt helstu spám á veðri í Reykjavík næsta sólarhringinn. Verkefni vetrarþjónustunnar gengur almennt vel og er stefnt að því að klára sem mest fyrir helgi.

Veðurspár fyrir gamlársdag eru ennþá nokkuð misvísandi. Þó er gert ráð fyrir nokkurri snjókomu, en taka þarf stöðuna aftur þegar nær dregur. Lögð er áhersla í snjóruðningi á að breikka strætóleiðir ef það fer að snjóa töluvert á gamlársdag.

Sorphirðan 28. desember 2022

Staðan hjá Sorphirðu Reykjavíkur í dag er sú að unnið er við að komast yfir mesta kúfinn sem er Vesturbær og Miðbær. Þar stendur yfir tæming á gráum tunnum. Lögð er áhersla á að klára gráar tunnur vestan Elliðaáa fyrir áramót. Það er samkvæmt áætlun.

Bláar og grænar tunnur

Bláar tunnur (pappír) og grænar tunnur (plast) voru tæmdar í Grafarvoginum í dag og er það verkefni hafið í Vesturbænum. Það má þó búast við að það verði töluvert eftir um áramótin. Hirðing er því tveimur dögum á eftir á bláum og grænum ílátum og gæti það breyst í þrjá daga.

Sorphirðufólk vinnur daglega klukkustund lengur en venjulega þessa vikuna og einnig á gamlársdag.

Íbúar eru hvattir til að moka frá sorptunnum og tryggja gott aðgengi fyrir starfsfólk sorphirðunnar.