Upplifun og útivist við ár og vötn

Þetta árið er áherslan í Torg í biðstöðu á bláu svæðin í Reykjavík, eins og vötn og ár, og hvernig bæta megi upplifun og auka útivist við þau. Hér má sjá göngustíg og hjólastíg í Elliðaárdal. Róbert Reynisson
Á, tré, göngustígur, hjólastígur.

Reykjavíkurborg óskar eftir hugmyndaríkum og áhugasömum einstaklingum eða hópum til að taka þátt í verkefninu Torg í biðstöðu 2024. Þetta árið er áherslan á bláu svæðin í Reykjavík, eins og vötn og ár, og hvernig bæta megi upplifun og auka útivist við þau. Öll eiga að geta notið þessara svæða, óháð getu, og því er mikilvægt að skapa gott aðgengi og aðstöðu.

Áherslan er á sjálfbæra þróun svæðanna og notendavæna og góða hönnun sem hvetur til útivistar og skilar sér í bættri líkamlegri, andlegri og félagslegri lýðheilsu.

Upplýsingar um umsókn

Með umsókn þarf að fylgja:

  • Ítarleg lýsing á verkefninu í texta, myndum, skissum og teikningum.
  • Verk- og tímaáætlun verkefnis.
  • Gróf kostnaðaráætlun: meðal annars efniskostnaður og laun.
  • Ferilskrá allra umsækjenda með fullu nafni, kennitölu og heimilisfangi.

Umsókn sendist á: gongugotur@reykjavik.is Merkja þarf í fyrirsögn: Umsókn um Torg í Biðstöðu 2024. Umsóknarfrestur rennur út 1. mars 2024.

Almennt um Torg í biðstöðu

Torg í biðstöðu hefur verið í gangi frá árinu 2011. Markmið verkefnisins er að búa til skemmtilegri svæði, hampa því óvænta og vera vettvangur róttækra tilrauna með borgarumhverfið. 

Í fyrra var þemað „græðlingar“ og óskað var eftir verkefnum utan miðborgar þar sem tækifæri eru til að skapa lítil torg eða dvalarsvæði í hverfum borgarinnar.