Uppbygging hótela í takt við fjölgun ferðamanna

Ferðamenn í miðborginn

Reykjavík er vinsæll áfangastaður og 90% erlendra ferðamanna sem koma til Íslands heimsækja borgina. Þetta hefur auðvitað umtalsverð áhrif og á kynningarfundinum Athafnaborgin, sem borgarstjóri stendur árlega fyrir um uppbyggingu innviða og atvinnulífs, var fjallað um þær áskoranir sem ferðaþjónusta hefur í för með sér.

Hvar eiga allir þessir gestir að gista?

Kamma Thordarson, verkefnastjóri í atvinnu- og borgarþróun

Kamma Thordarson, verkefnastjóri í atvinnu- og borgarþróun hjá Reykjavíkurborg fór yfir stöðuna á uppbyggingu hótela í Reykjavík. 

Það eru 55 hótel í Reykjavík með 5.500 hótelherbergjum og árið 2023 voru fleiri en 2,7 milljónir gistinátta á svæðinu. „Í Reykjavík er hótelherbergjanýting um 77% yfir árið sem er yfir meðaltali,“ segir Kamma. Hún bendir einnig á þá staðreynd að uppbygging hótelrýma hafi haldist í takt við fjölgun ferðamanna undanfarin ár þrátt fyrir óvenju hraðan vöxt greinarinnar.   

Þá sé einnig jákvætt að árstíðarsveifla hefur farið minnkandi. „Það er markmið að herbergi séu vel nýtt allan ársins hring,“ segir Kamma. 

Gistinætur í Reykjavík

Úr glærukynningu. 

Uppbygging nýrra hótela við Borgarlínu 

Rúmlega tvær milljónir erlendra ferðamanna komu til Íslands árið 2023 og 90% þeirra heimsóttu Reykjavík. Spár Ferðamálastofu og Isavia gera ráð fyrir að fjöldinn fari yfir þrjár milljónir árið 2029. Það er því mikilvægt að horfa til áframhaldandi uppbyggingar.  

Nýjustu hótelrýmin sem hafa opnað eru í miðborginni eru Hótel Grandi, Reykjavík Edition, Hótel Alþingi og Hótel Reykjavík Saga. Alls eru um 730 hótelherbergi á þessum nýopnuðu hótelum. 

Hótel sem hafin er uppbygging á eða eru í þróun dreifast víðar og á myndinni er þetta sýnt í samhengi við Borgarlínu: 

Hóteluppbygging í Reykjavík

Alls eru 704 hótelherbergi þegar komin í uppbyggingu, og 600 eru á teikniborðinu.  

„Við hvetjum alla fjárfesta sem við hittum til að staðsetja hótelin sín meðfram Borgarlínu. Sum verkefnin eru í byggingu og önnur á þróunarstigi. Flest verða þau meðfram borgarlínu sem er í takt við okkar framtíðarsýn,“ segir Kamma.   

Í kynningarglærum Kömmu er að finna myndir af þessum verkefnum og hvernig staðan á þeim er í dag.  

Vel sóttur fundur um Athafnaborgina 

Kynningarfundur borgarstjóra um Athafnaborgina er árviss og var hann vel sóttur. Í ár var byggt á stuttum og snörpum kynningum. Upptaka af fundinum og glærukynningar fyrirlesara er að finna á vefsíðu fundarins  Athafnaborgin – kynningarfundur um uppbyggingu innviða      

Nánari upplýsingar: