Verið er að leggja drög að nýrri íbúðarbyggð við Sóleyjarima í Grafarvogi en unnið verður áfram með tillögu arkitektastofunnar Esju að byggðinni. Þetta var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar í vikunni. Tillagan ber yfirskriftina Sóleyjatún, hagkvæm og vinaleg íbúabyggð í grónu hverfi.
Í umsögn valnefndar um tillöguna segir að þarna komi fram sannfærandi heildarsýn fyrir svæðið og vel sé unnið með tengingar við græna kragann og aðliggjandi byggð. Enn fremur að mælikvarði bygginga og útirýma passi vel inn í umhverfið.
„Húsagerð, samfélagshús og verkstæði styðja við tengslamyndun íbúa. Gefið er eftir svæðið fyrir nágranna með grænum jaðar við íbúabyggð og skóla. Góð heildarhugsun fyrir ofanvatnslausnir, gróður og líffræðilegan fjölbreytileika. Dvalarsvæði vel staðsett, bílastæði, sorp og tengingar vel leyst. Áhugaverðar hugmyndir um borgarbúskap og samnýtingu á opnum svæðum með Rimaskóla,“ segir einnig í umsögn um tillöguna og líka er bent á að hún teygi sig út fyrir svæðið og komi með góðar hugmyndir varðandi skólalóðina og gatnaskipulag og hugmyndir um samgöngur séu sterkar.
Sýning í Borgarbókasafninu í Spönginni
Tillagan er ein þeirra sem er til sýnis í Borgarbókasafninu í Spönginni en opið hús var haldið í gær í safninu sem var vel sótt. Þetta er hluti af húsnæðisátaki sem Einar Þorsteinsson borgarstjóri setti af stað í byrjun ársins. Frumtillögur að íbúðalóðum fyrir Grafarvog liggja nú fyrir en leiðarljós verkefnisins er að ný byggð falli vel að núverandi byggðarlandslagi og auki aðgengi að grænum svæðum í hverfinu.
Verið öll velkomin á sýninguna sem stendur yfir til 7. október.