Vel heppnuð litlu jól framhaldsskólanna fóru fram í Fjölbrautaskólanum við Ármúla í lok nóvember en viðburðurinn var skipulagður af umhverfisnefndum Fjölbrautaskólans við Ármúla, Tækniskólans og Menntaskólans við Sund. Viðburðurinn var styrktur af loftslagssjóði ungs fólks hjá Reykjavíkurborg og er eitt af því mörgu áhugaverða sem hefur orðið að veruleika fyrir tilstilli þessa samstarfsverkefnis með Bloomberg Philanthropies.
Tilgangur viðburðarins var að fræða nemendur um loftslagsmál með skemmtilegum hætti. Hringrásarhagkerfið var allsráðandi á viðburðinum og hver einasta smiðja úthugsuð frá umhverfissjónarmiði.
Loftslagsvænt kakó sló í gegn
Fjölmargir framhaldsskólanemar mættu á litlu jólin og til að mynd sló loftslagsvæna kakóið algjörlega í gegn hjá nemendum. Á meðal fleira sem var í boði var fataskiptimarkaður, þakklætissmiðja, fatamarkaður, jól í skókassa, nýbakaðar smákökur og tónlistaratriði.
Markmið loftslagssjóðsins er að virkja ungmenni í leit að lausnum á loftslagsvandanum og styrkja ný verkefni sem vinna gegn loftslagsvánni. Skilyrði fyrir úthlutun voru að verkefni væru hönnuð og framkvæmd af ungu fólki á aldrinum 15-24 ára og að þau tengdust beint loftslagsstefnu Reykjavíkur. Samtök, hópar, nemendafélög og skólar gátu öll sótt um styrk.