Úthlutað úr loftslagssjóði ungs fólks

Einar Þorsteinsson borgarstjóri og Dóra Björt Guðjónsdóttir formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar með styrkþegum. Myndir/Róbert Reynisson
Hópur fólks í tröppunum fyrir framan höfða.

Alls níu hópar og samtök ungs fólks hlutu styrki til samtals fjórtán spennandi verkefna þegar úthlutað var úr loftslagssjóði ungs fólks í Höfða í dag. Það voru Einar Þorsteinsson borgarstjóri og Dóra Björt Guðjónsdóttir formaður umhverfis og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar sem afhentu styrkina. Verkefnin eru öll hönnuð og framkvæmd af ungu fólki til að vinna á loftslagsvánni. Heildarupphæð styrkjanna er 5.800.000 krónur en alls barst 21 umsókn í sjóðinn, sem er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Bloomberg Philanthropies.

Dæmi um verkefni eru hakkaþon unga fólksins um endurheimt votlendis, endurvinnsla á ónýtum tjöldum til að minnka textílsóun á útihátíðum, samkeppni til að virkja börn á grunnskólaaldri til þess að semja sögu sem tengist umhverfismálefnum þar sem besta sagan verður gefin út, jafningjafræðsla um flokkun, umræðuvettvangur ungs fólks um sjálfbærni og kvikmyndaiðnaðinn, útgáfa loftslagsblaðs, vettvangsferðir og alls kyns fræðsluviðburðir.

Markmið sjóðsins er að virkja ungmenni í leit að lausnum á loftslagsvandanum og styrkja ný verkefni sem vinna gegn loftslagsvánni. Skilyrði fyrir úthlutun voru að verkefni væru hönnuð og framkvæmd af ungu fólki á aldrinum 15-24 ára og að þau tengdust beint loftslagsstefnu Reykjavíkur. Samtök, hópar, nemendafélög og skólar gátu öll sótt um styrk.

Nánar um styrkþega, verkefnin og umsögn valnefndar um þau

Framtíðin, málfunda- og nemendafélag Menntaskólans í Reykjavík

Fræðslur: loftlagsvá og hvernig er hægt að sporna gegn henni

Verkefnið snýr að aukinni fræðslu um loftslagsmál með áhugaverðum fyrirlestrum um loftslagsmál fyrir nemendur.

  • Sótt er um skemmtilegt verkefni með skýra tengingu við loftslagsstefnu Reykjavíkur.

Vettvangsferð til lærdóms

Sótt um styrk fyrir vettvangsferð nemanda í tilteknum framhaldsskóla annað hvort á endurheimt vistkerfa eða á sviði endurvinnslu og úrgangsmála.

  • Verkefnið er skemmtilegt og hugmyndin góð. Verkefnið hefur sterka vísun í loftslagsstefnu Reykjavíkur, t.a.m. á sviði hringrásarhagkerfis eða verkefna úrgangsmála.

Loftslagsblað MR

Sótt um styrk fyrir útgáfu fræðslutímarits um loftslagsmál í ákveðnum framhaldsskóla.

  • Verkefnið er metnaðarfullt og til þess fallið að vekja athygli á stærstu áskorunum Reykjavíkur í loftslagsmálum. Markmið verkefnisins er að vekja nemendur skólans til umhugsunar og aðgerða í loftlagsmálum. 

Gleðibankinn – félagsmiðstöð

Hvert kemst ég?

Sótt um styrk fyrir almenningssamgöngukeppni á vegum félagsmiðstöðvar í Reykjavík. Styrkurinn mun fara í undirbúning viðburðar, verðlaun og annað sem tengist keppninni.

  • Hugmyndin er mjög sterk og fer frumlega leið til þess að kynna virka ferðamáta fyrir ungu fólki. Verkefnið fellur vel að stærstu áskorunum í loftslagsáætlun Reykjavíkur um samdrátt vegna samgangna. Þá er það líklegt til þess að virkja og valdefla ungt fólk. 

Ungir umhverfissinnar 

Hakkaþon unga fólksins um endurheimt votlendis

Sótt um styrk til þess að halda hakkaþon um endurheimt votlendis.

  • Framræst votlendi er ein stærsta uppspretta losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Verkefnið fer nýja leið til þess að virkja hugmyndaflug, skapandi hugsun og þekkingu ungs fólks til að reyna að hraða árangri í endurheimt votlendis innan Reykjavíkurborgar.

Föstudagar fyrir framtíðina haustið 2024

Sótt um styrk til þess að endurvekja Föstudaga fyrir framtíðina haustið 2024.

  • Markmið föstudaga fyrir framtíðina er skv. umsækjendum bæði að fræða ungt fólk um loftslagsmál og valdefla til að taka virkari þátt í umræðunni um framtíðina þeirra. Einnig er það markmið verkefnisins að gefa ungu fólki vettvang til að tjá skoðanir sínar, koma þeim til skila og eiga rödd í mikilvægasta málefni okkar tíma. Fyrri verkefni hafa gefist vel og haft sýnileg áhrif á umræðu um loftslagsmál.

ÍS: COP REYKJAVÍK, ráðstefna og þemapartí

Verkefnið snýst um að halda skemmtilegan, metnaðarfullan viðburð, sem vekur athygli á loftslagsmálum og líffræðilegum fjölbreytileika á mótum COP29 um loftslagsmál og COP16 um líffræðilega fjölbreytni.

  • Að mati valnefndar er umsóknin mjög metnaðarfull og fer skemmtilega leið til þess að tvinna saman loftslagsmál og náttúruvernd sem eiga margt sameiginlegt.

Ungir rithöfundar fyrir umhverfið

  • Verkefnið snýr að því að virkja börn á grunnskólaaldri til þess að semja sögu sem tengist umhverfismálefnum. Þær sögur sem berast  verða sendar í samkeppni þar sem dómnefnd betur þá bestu. Sú sagan verður gefin út og send í skóla landsins. Hinar sögurnar verða settar í sögubanka þar sem þær verða aðgengilegar.
    • Hugmyndin er líkleg til þess að sýna loftslagsmál í áhugaverðu ljósi og gera þetta stóra viðfangsefni skemmtilegt.

Nemendafélag Borgarholtsskóla

Flokkarinn - bætt flokkun, minni loftmengun.

Sótt um styrk fyrir aukinni fræðslu um flokkun og umhverfismál í tilteknum framhaldsskóla í Reykjavík. Sett verður upp jafningjafræðsla um verkefnið og haldnir viðburði.

  • Að mati valnefndar er verkefnið líklegt til þess að virkja nemendur til þess að huga betur að flokkun úrgangs. Lögð er til áhugaverð leið til þess að fylgjast með árangri verkefnisins.

Haxi - Hagsmunafélag líffræðinema

Jarðvegsplástur

Sótt um styrk fyrir rannsóknarverkefni sem snýr að að gera eftirmála uppbyggingar (ný íbúðarhverfi, veglagning, og fleira) grænni með því að finna einfalda/ódýra lausn á jarðvegsrofi sem stendur eftir slíkar framkvæmdir.

  • Um er að ræða mjög frumlega og áhugaverða hugmynd sem styður ekki aðeins vel við loftslagsáætlun borgarinnar heldur einnig stefnu hennar um líffræðilega fjölbreytni. 

RIFF Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík

Ung-norræna hugveitan

  • Sótt um styrk til þess að mynda öflugan og öruggan samráðsvettvang þar sem raddir framtíðarleiðtoga í kvikmyndaiðnaði fá að heyrast og eflast.
    Á þessum umræðuvettvangi gefst þátttakendum kostur á að beita sér fyrir betri framtíð með markvissum hætti, þar sem markmiðið er að breyta landslagi iðnaðarins til að mæta betur þörfum og væntingum ungs fólks. Þar er jafnframt dýrmætt tækifæri til að fá hugmyndir á yfirborðið sem raunverulega gætu leitt til bættra umhverfisviðhorfa innan kvikmyndaiðnaðarins, m.a. kolefnisspor innan iðnaðarins og hvernig draga megi úr því. 
  • Um er að ræða skemmtilegt verkefni sem fer nýja leið til þess að veita ungu fólki vettvang til að ræða loftslagsmál og kvikmyndaiðnaðinn. Það veitir tækifæri fyrir ungt fólk til þess að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og er líklegt til þess að skapa umræður sem eru á jafningjagrundvelli.

Samband íslenskra framhaldsskólanema (SÍF)

Vitundarvakning framhaldsskólanema

Markmið verkefnisins er að auka fræðslu og aðgengi að upplýsingum um loftlagsmál sem miðað er að framhaldsskólanemendum. Fræðslan verður samin af ungu fólki fyrir annað ungt fólk.

  • Verkefnið er líklegt til þess að hafa áhrif á margt fólk og er stórum skala. 

Nemendafélag Fjölbrautarskólans við Ármúla

Loftslagspartý framhaldsskólanna

Verkefnið snýr að því að efla samstarf nokkurra framhaldsskóla með skemmtilegum viðburði um loftslagsmál. Lögð er áhersla á að nemendur læri meira um loftslagsmálin og að viðburðurinn verði skemmtilegur. Viðburðurinn er enn í mótun en verður skipulagður af nemendum fyrir aðra nemendur í skólunum.

  • Markmiðið er að virkja umhverfisráð skólanna og skapa nýjan vettvang þar sem umhverfismál gerast hraðar innan þeirra með jákvæðni að vopni.
  • Valnefnd telur sérstaklega jákvætt að virkja ólíka skóla til samstarfs um loftslagsmál og gera þau aðgengilegri með því að sýna þau í léttara ljósi.

Nemendur í hönnun, nýsköpun og frumkvöðlafræði í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti

Vistvænar tjaldlausnir

Markmið verkefnisins er að vekja ungt fólk til vitundar um textílsóun á útihátíðum og benda á hringrásahugsun með því að sýna fram á nýsköpun út notuðum tjöldum.

  • Að mati valnefndar fer verkefnið mjög frumlega leið til þess að virkja og vekja ungt fólk til umhugsunar um hringrásarhagkerfið. 
  • Verkefnið er skemmtilegt og gæti afurð þess vel átt heima til að mynda á Hönnunarmars.

Myndir