Tvö ljóslistaverk valin á Vetrarhátíð 2025

Skólavörðustígur á Vetrarhátíð 2024. Hallgrímskirkja á Skólavörðuholtinu.
Skólavörðustígur á Vetrarhátíð 2024. Hallgrímskirkja við enda götunnar

Reykjavíkurborg og Veitur stóðu fyrir samkeppni um tvö ljóslistaverk í almannarými borgarinnar fyrir Vetrarhátíð 2025, í nóvember síðastliðnum. Dómnefnd hefur farið yfir innsendar tillögur og liggur niðurstaðan fyrir.

Markmið samkeppninnar var að virkja hugvit og nýsköpun sem styður við skapandi og lifandi borg. Verkin sem urðu fyrir valinu eru: 

Sólólól

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars: „Sólólól lýsir upp myrkrið eins og dagsbirtulampi. Listaverkið breikkar sjóndeildarhringinn og sýnir okkur hvernig sólstjörnurnar í nærumhverfinu okkar líta út. Áhorfendur tengjast vefsíðu með símanum sínum og velja þar um 6 mismunandi sólir til að kanna og baða sig í birtu þeirra. Í svartasta skammdeginu þráum við ekkert heitar en að sjá sólina. Hún færir okkur margt: vítamín, hamingju, hita, líf. Án hennar værum við ekkert.“

Að verkinu Sólólól standa þau Rebekka Ashley Egilsdóttir og Þorkell Máni Þorkelsson.

Sam-Vera

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars: „Sam-Vera  er gagnvirkt ljós- og hljóðverk sem skapar einstök hughrif og sameiginlega hópupplifun í borgarumhverfi Reykjavíkur yfir vetrartímann. Innsetningin er púlsandi ljós-og hljóð skúlptúr sem bregst við fjölda  einstaklinganna sem inn í það stíga, frá einum upp í tíu. Þegar tíu gestir stíga inn í verkið, hættir það að púlsa og lýsist upp í fullri birtu með órofnum, fallegum sam-hljóm.“

Að verkinu Sam-Vera standa þau Arnar Ingi Viðarsson, Kári Einarsson, Ragnar Már Nikulásson og Valdís Steinarsdóttir.

Gagnvirkir ljósaskúlptúrar

Að mati dómnefndar þóttu umsóknirnar báðar vel unnar og líklegar til þess að koma hugmyndum til framkvæmdar. Hvort tveggja er frístandandi gagnvirkir ljósaskúlpturar sem finna má stað í borgarlandslaginu eftir hentugleikum. Annað byggir á kassaforminu og hitt á kúluforminu og þannig kallast þau skemmtilega á.

Dómnefnd þykir líklegast að verkin muni vekja áhuga og fanga athygli áhorfenda á öllum aldri ásamt því að fá áhorfendur til þess að taka virkan þátt í verkunum.

Í dómnefndinni sátu Salóme Rósa Þorkelsdóttir, borgarhönnuður, Sesselja Jónasdóttir, verkefnastjóri List í ljósi og Markús Þór Andrésson, deildarstjóri Listasafns Reykjavíkur.

Veitur og Reykjavíkurborg þakka öllum sem sendu inn tillögur og óska vinningshöfunum innilega til hamingju. 

Við hlökkum til Vetrarhátíðar 2025 dagana 6.- 9. febrúar næstkomandi.