Tveggja þrepa söluferli fyrir Perluna samþykkt

Fjármál

Perlan og hitaveitutankarnir undir henni. Vetur eða vor, grár himinn.

Fyrirkomulag á söluferli Perlunnar var samþykkt í borgarráði í dag.

Heimilað var í haust að hefja söluferli á eign Reykjavíkurborgar, Perlunni, auk tveggja vatnstanka við Varmahlíð 1 í Öskjuhlíð. Fyrirkomulag sölunnar var samþykkt á fundi borgarráðs í dag og er áætlað að hafa söluferlið í tveimur þrepum. Á fyrra þrepi verður auglýst eftir áhugasömum kaupendum og á síðara þrepi verður þeim sem uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í þrepi eitt, boðið að leggja fram kauptilboð. Auglýst lágmarksverð verður þrír og hálfur milljarður króna og í gögnum áhugasamra kaupenda þurfa meðal annars að koma fram upplýsingar um fyrirhuguð áform varðandi eignina. Gert er ráð fyrir að auglýsa nú í júní.

Eftirfarandi kvöðum verður þinglýst á eignina:

-Kvöð um að Reykjavíkurborg hafi forkaupsrétt.

-Kvöð um að húsnæðið, bílastæði og lóð, verði opið almenningi endurgjaldslaust eða gegn hóflegri gjaldtöku.

-Kvöð um að grunnskólabörn í skólum Reykjavíkur geti heimsótt safnið sem verður rekið í húsinu, endurgjaldslaust, tvisvar sinnum á skólagöngu í fyrsta til tíunda bekk.

Veitur minna á viðhald og takmarkanir

Veitur skiluðu inn umsögn vegna sölu á hitaveitutönkunum. Þær fara með einkaleyfi á dreifingu á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu og eru tankarnir við Perluna nýttir til að jafna út sveiflur og dreifa vatni frá lághitasvæðum innan Reykjavíkur til notenda. Í umsögninni er bent á að í öðrum tönkum sem liggja að þeim sem seldir verða er heitt vatn sem takmarkar að einhverju leyti framkvæmdir og starfsemi sem hægt er að viðhafa. Þá er vakin athygli á uppsafnaðri viðhaldsþörf og ríkri skyldu væntanlegs kaupanda til að ástandsmeta og viðhalda ytra byrði og burðarvirki sinna tanka.

Algjör viðsnúningur í rekstri hússins

Hitaveita Reykjavíkur byggði Perluna og var hún opnuð árið 1991. Reykjavíkurborg keypti Perluna árið 2013 og síðar tvo vatnstanka af Orkuveitu Reykjavíkur. Þá stóð rekstur hússins ekki undir sér en algjör viðsnúningur hefur orðið og standa tekjur vel undir kostnaði. Eignirnar bjóða upp á aukin tækifæri og möguleika til áframhaldandi þróunar sem ekki er sjálfgefið að Reykjavíkurborg sé besti aðilinn til að sinna. Stærð hússins og tanka er um 5.800 fermetrar.

Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar.

Bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs.

Auglýsing: Perlan til sölu: Eitt glæsilegasta kennileiti Reykjavíkur | Reykjavik