Perlan í söluferli

Perlan í Öskjuhlíð.

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun að heimila fjármála- og áhættustýringarsviði, eignaskrifstofu, að hefja söluferli á eign Reykjavíkurborgar Perlunni auk tveggja vatnstanka í Öskjuhlíð við Varmahlíð 1.

Hitaveita Reykjavíkur byggði Perluna og var hún opnuð árið 1991. Reykjavíkurborg keypti Perluna árið 2013 og síðar tvo vatnstanka af Orkuveitu Reykjavíkur. Á þeim tíma sem kaupin fóru fram stóð rekstur hússins ekki undir sér og tekjur rétt nægjanlegar fyrir fasteignagjöldum og lóðarleigu.

Algjör viðsnúningur

Á þeim tíu árum sem liðin eru frá kaupum borgarinnar á Perlunni hefur orðið algjör viðsnúningur á rekstrinum og standa tekjur vel undir kostnaði. Húsnæðið var auglýst til leigu og er núverandi leigutaki Perla norðursins ehf. sem hefur þróað hana sem áhugaverðan áfangastað í Reykjavík. Perlan hefur síðustu ár tekið miklum breytingum og hýsir núna sýningar auk veitingastaða.

Perlan er einn af aðaláfangastöðum ferðamanna í borginni, og frá útsýnispallinum er magnað útsýni yfir höfuðborgarsvæðið og fjallahringinn. Í Perlunni er fjöldi sýninga, þar á meðal íshellir, stjörnuver og gagnvirkar sýningar um íslenska náttúru og menningu. Þessar eignir bjóða upp á aukin tækifæri og möguleika til áframhaldandi þróunar og ekki sjálfgefið að Reykjavíkurborg sé besti aðilinn til að þróa þessar eignir áfram. Stærð hússins og tanka er um 5.800 fermetrar og er fasteignamat 3.942.440.000 krónur.

Málið fer til endanlegrar staðfestingar borgarstjórnar þann 19. september næstkomandi.