Torg í biðstöðu: Skapandi vettvangur fyrir skapandi fólk

Umhverfi Mannlíf

""

„Mér finnst þetta ótrúlega mikilvægt og flott verkefni. Það hjálpar borginni að blómstra og gerir hana meira aðlaðandi, segir Elín Erla Káradóttir, mastersnemi í landslagsarkitektúr. Elín og mágur hennar, Þormar Ellert Jóhannsson, tóku í sumar þátt í verkefninu Torg í biðstöðu, þar sem skapandi fólk fær tækifæri til að setja mark sitt á borgarlandið. „Þetta ýtir undir að fólk fari út og njóti umhverfisins og þetta lífgar upp á borgarandann,“ segir hún.

Verkefni Elínar og Þormars kallast BRIM og er hugsað sem óhefðbundið en grípandi og notalegt útisvæði á Granda, enda var tengingin við hafið leiðarstefið. Hvílustæðið, sem stendur við ísbúðina Valdísi, samanstendur af fjórum hengibekkjum með skjólvegg við bakið sem snýr út að götu. Efnisvalið hefur skíra skírskotun til sjávar; með t.d. netum, netakúlum og keðjum auk melgresis, sem sést einna helst í fjörum landsins. „Okkur vinkonu mína hafði lengi langað að taka þátt í verkefninu Torg í biðstöðu og sáum loks tækifæri til þess núna. Því miður þurftu hún og maðurinn hennar að draga sig út úr þessu en ákveðið var að við Þormar kláruðum verkið. Við vildum laða fólk að með skemmtilegu og óhefðbundnu setusvæði og fannst Grandi spennandi staðsetning því þar er að skapast vinsælt og aðlaðandi svæði,“ segir Elín. Endurnýting kemur líka við sögu í verkefninu og sóttu þau netakúlurnar sem skreyta verkið í fjöruna hjá Þormari og konu hans, systur Elínar, við bæinn Norðurhjáleigu í Vestur-Skaftafellssýslu.

Ótal símtöl í byggingavöruverslanir

„Ég er mjög ánægð með útkomuna. Ég er sjálf ekki flinkur smiður en Þormar er algjör fagmaður og þess vegna gekk þetta mjög vel.“ Bið eftir hráefnum var það helsta sem tafði verkið. „Við þurftum að bíða lengi eftir timbrinu eins og svo margir Íslendingar þetta sumar og sennilega standa upp úr hjá Þormari ansi mörg símtöl í Húsasmiðjuna og Byko,“ segir Elín og hlær. „Ég er þakklát fyrir þann heiður að fá að taka þátt í þessu verkefni og hvet annað fólk með frjóan huga til að senda inn hugmyndir. Það var góð reynsla að taka þátt í þessu ferli og enn skemmtilegra þar sem okkar hugmynd var valin. Það er gaman að hafa þetta á ferilskránni,“ segir hún. „Mér finnst líka mjög jákvætt hvernig þetta verkefni hefur fækkað aðeins bílastæðum og skapað fleiri svæði þar sem fólk getur notið sín,“ segir hún að lokum.

Að hampa því óvænta

Torg í biðstöðu verkefnið hefur verið í gangi á torgum og almenningssvæðum í borginni frá árinu 2011. Það snýst um að endurskilgreina og lífvæða svæði með tímabundnum lausnum, hampa því óvænta og vera vettvangur róttækra tilrauna með borgarumhverfið. Svæðunum er úthlutað til hópa og einstaklinga sem vilja gera tilraunir til að glæða þau lífi og óskar borgin á hverju vori eftir áhugasömu fólki til að taka almenningssvæði í fóstur. Verkefnið stendur að jafnaði yfir frá maí til september ár hvert, en ýmis skemmtileg verk hafa fengið að standa áfram og öðlast sjálfstætt líf. Má þar nefna verkið Komdu að spegla þig, sem stendur við Lækjartorg og þjónar hlutverki hliðs á milli Bankastrætis og Austurstrætis og tréskúlptúr af tröllskessu, sem stendur nú í Elliðaárdalnum og laðar til sín leikglaða gesti dalsins.

Gott aðgengi fyrir alla

Þema Torg í biðstöðu verkefnisins í ár er hvílustæði, sem er íslenskt nýyrði yfir enska orðið parklet, sem er samsett úr orðunum parking og outlet. „Edda Ívarsdóttir á heiðurinn af þessu nýyrði, sem við erum að reyna að koma í almenna notkun,“ segir borgarhönnuðurinn Pétur Andreas Maack, en hann stýrir í ár verkefninu Torg í biðstöðu, ásamt Salóme Þorkelsdóttur. „Við erum að taka bílastæði og breyta þeim í svæði fyrir fólk, það er tilgangur þemans í ár. Ef það er t.d. bílastæði á sólríkum stað, langar okkur að gefa fólki það frekar en bílum. Það er ákveðið tilraunaverkefni, að gá hvort fólk notar þessi svæði og öll svæðin eru með gott aðgengi fyrir alla.“

Pétur segir um að ræða gott tækifæri fyrir hönnuði til að þreyta frumraun í að hanna eitthvað á stærri skala. „Viðbrögðin hafa verið frábær. Í ár tökum við auðvitað dálítið rými frá keyrandi vegfarendum sem getur skapað neikvæð viðbrögð, en langflestir líta þetta jákvæðum augum og íbúar og rekstraraðilar hafa til dæmis tekið þessu afar vel,“ segir hann. „Fólk með alls konar bakgrunn tekur þátt í þessu og ég vona að við höldum áfram að fá umsóknir á vorin. Þetta hefur fest sig í sessi sem hluti af sumarstarfi borgarinnar og gefur fólki tækifæri til að glæða borgina lífi. Þetta er skapandi vettvangur fyrir skapandi fólk.“

Sex verkefni sem gaman er að skoða

Í ár var sex verkefnum hrint í framkvæmd. Auk verksins BRIM, sem fjallað var um hér að framan, eru þau eftirfarandi:

Borgarvin/Björn Steinar Blumenstein og Brynjólfur Stefánsson: Innsetning á Baldurstorgi úr endurunnu plasti. Innsetningunni er ætlað að vera skemmtilegur vettvangur til fræðslu á þeim möguleikum sem endurvinnsla plasts hefur upp á að bjóða, en umfram allt hvílustæði til að staldra við í amstri dagsins. Þarna er um að ræða gamalt Torg í biðstöðu-svæði, en Borgarvin hópurinn bætti þessu nýja setsvæði við. Á bak við hópinn stendur fyrirtækið Plastplan þar sem tilraunir standa yfir með endurvinnslu plasts.

Parklet/Baldur Helgi Snorrason (BARK Studio): Hvílustæði í Lækjargötu. Bark setpallarnir nýtast þeim rekstri sem er í götunni en þeir eru samsettir úr háum gróðurkerjum og kollum sem eru fastir við þau. Sætin snúa ýmist út að götunni eða að gangstéttinni og nýtast borð á milli sætanna fyrir veitingar eða sem handleggsstoð. Mögulegt er að snúa sér út að göturýminu eða á móti þeim sem borði er deilt með.

Náttúrugaflar/Stefán Óli Baldursson og Arnór Kári Egilsson: Vegglistaverk við Óðinsgötu og neðan við Sundhöll Reykjavíkur. Markmið verkefnisins er að fríska upp á borgarbrag miðbæjarins með litríkum vegglistaverkum sem sýna myndefni úr nánasta dýra- og plönturíki. Myndirnar gleðja augun en einnig voru fest upp skilti með upplýsingum um myndefnið, til fræðslu. Stefán Óli og Arnór Kári hafa verið virkir innan vegglistamenningar Íslands í rúman áratug og tóku þeir fyrirbæri úr umhverfinu og stækkuðu þau upp á tóma húsgaflana. Um leið er um að ræða tilraun til að koma í veg fyrir veggjakrot.

Laut á ferð/Dofri Fannar Gunnarsson, Helga Björg Kormáksdóttir, Sigurbergur Hákonarson og Tómas Viðar Árnason: Hvílustæði framan við smávöruverslunina Pétursbúð við Ránargötu. Nemendur úr Listaháskólanum hönnuðu þetta hvílustæði sem samanstendur af notalegum bekkjum innan um fallegn gróður og skjólveggi. Hugsunin er að allir geti fundið „sitt sæti“ í rýminu og þannig verði góð veðurskilyrði aðeins bónus.

Eldblóm/Sigríður Soffía Níelsdóttir: Eldblóm er framhaldsverkefni frá því í fyrra, en um er að ræða blómabeð í Hallargarðinum þar sem finna má ýmis blóm sem flugeldahönnuðir sækja sér innblástur til. Hugmyndina átti Sigríður Soffía en Zuzana Vondra Krupkova, garðyrkjufræðingur og yfirverkstjóri hjá Reykjavíkurborg, ræktaði blómin og hafði umsjón með útfærslunni.

Hér má finna upplýsingar um verkefnið Torg í biðstöðu og hér um einstök verkefni innan þess.