Tillaga skipulagsfulltrúa hjá umhverfis- og skipulagssviði að nýju deiliskipulagi fyrir Nýja Skerjafjörð var lögð fram að lokinni auglýsingu. Henni var vísað til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar á fundi borgarráðs í gær, 25. mars.
Skipulag í Nýja Skerjafirði er fyrst í röð nýrra deiliskipulagsáætlana sem má flokka undir nýmæli í skipulagsgerð nýrra íbúahverfa á Íslandi sem helgast af áherslum á þéttleika og blöndun byggðar, sjálfbæra borgarþróun og bættan borgarbrag. Næstu ár munu koma á markaðinn ný hverfi eins og Höfðinn sem gefa íbúum í fyrsta sinn áþreifanleg tækifæri á að lifa bíllausum lífsstíl samfara uppbyggingu Borgarlínu.
Gert er ráð fyrir að uppbygging Nýja Skerjafjarðar muni eiga sér stað í tveimur áföngum. Í fyrri áfanga er gert ráð fyrir 685 íbúðum, leikskóla, grunnskóla, miðlægu bílageymsluhúsi, verslun, þjónustu og útivistarsvæðum. Samkvæmt tillögunni verða nýjar vegtengingar til austurs, suður fyrir Reykjavíkurflugvöll, sem verða eingöngu ætlaðar almenningssamgöngum, gangandi og hjólandi vegfarendum. Þessi fyrsti áfangi liggur nú fyrir.
Styrkir núverandi byggð í Skerjafirði
Öllum meginmarkmiðum aðalskipulags er sem fyrr segir náð við gerð íbúahverfis með sjálfbæra borgarþróun og bættan borgarbrag í huga. Nýi Skerjafjörður endurspeglar framtíðarsýn, gildi og meginmarkmið Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Skipulagið mun:
- Stuðla að bættri nýtingu svæða innan borgarinnar samanber markmið aðalskipulagsins um uppbyggingu þéttrar og blandaðrar byggðar, sjálfbæra borgarþróun og bættan borgarbrag.
- Auka framboð fjölbreytts íbúðarhúsnæðis og búsetukosta í samræmi við húsnæðisstefnu aðalskipulags og húsnæðisáætlun borgarinnar.
- Styrkja núverandi byggð í Skerjafirði og skapa forsendur fyrir grunnskóla og öflugan hverfis- og samfélagskjarna í hverfinu.
- Gera virkum, sjálfbærum samgönguháttum hátt undir höfði svo væntanlegir íbúar hafi loks raunverulegt val við einkabílinn.
Umlukið grænum geirum
Í Nýja Skerjafirði verða um 80 íbúðir á hektara með nýtingarhlutfalli 1,5 svo hægt sé að skapa sjálfbæra íbúðabyggð með grænu yfirbragði. Byggðin verður vel tengd við nálæga atvinnukjarna og háskólana með öruggum og vistvænum samgönguinnviðum.
Hverfið verður umlukið grænum geirum og strandsvæði sem býður upp á fjölbreytta nýtingu og á milli húsa er gert ráð fyrir torgum, leiksvæðum, dvalarsvæðum og mikilli gróðursæld í umhverfi þar sem hámarkshraði bifreiða verður 30 kílómetrar á klukkustund.
Byggingarlist í hæsta gæðaflokki
Regnvatn safnast saman og finnur sér náttúrulegar leiðir innan lóða og á borgarlandinu gegnum lautir og svelgrásir áður en það samlagast náttúrulegu grunnvatni og streymir í Fossvoginn. Kjallarar verða einungis 30 prósent af heildarbyggingarmagni hvers reitar til að vernda eðlilega grunnvatnstöðu og náttúrulega framrás grunnvatnsins. Samkvæmt nýsamþykktri breytingu á aðalskipulagi minnkar umfang landfyllingar um allt að helming.
Gerð er krafa um byggingarlist í hæsta gæðaflokki. Íbúðir í hverfinu verða ætlaðar fyrir almennan markað og til húsnæðisfélaga í samræmi við hússnæðisstefnu Reykjavíkurborgar. Íbúðirnar verða af öllum stærðum og gerðum m.a. fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur, ásamt því sem Bjarg reisir heimili fyrir sína félagsmenn og Félagsstofnun stúdenta fyrir stúdenta byggir einnig þarna.
Breytingar á tillögunni
Breytingar voru gerðar á deiliskipulagstillögunni eftir að athugasemdafresti lauk. Þær eru meðal annars eftirfarandi:
- Íbúðum var fækkað úr 690 í 685.
- Leiksvæðum var bætt við inn á uppdrætti og í skýringar.
- Hjólastígar voru útfærðir frekar.
- Sérafnotafletir eiga nú við um fleiri húsagerðir en raðhús.
- Skuggavörp voru uppfærð miðað við lagfærða/minnkaða byggingarmassa svo auka mætti birtustig í inngörðum.
- Grasþökum í sérskilmálum var gefið meira svigrúm með vali á sjávarmöl og mýrargróðri í takt við náttúrulegt umhverfi á svæðinu.
Íbúabyggð raskar ekki þjónustustigi Reykjavíkurflugvallar
Nýi Skerjafjörður mun hvorki skerða starfsemi né nýtingu Reykjavíkurflugvallar. Húsin rísa á randbyggðum reitum á tveimur til fimm hæðum og laga sig þannig að hindrunarfleti flugvallarins. Samkvæmt rannsóknum EFLU og hollensku flug- og geimferðastofnunarinnar mun íbúabyggðin ekki raska þjónustustigi flugvallarins nema að óverulegu leyti líkt og á við um núverandi byggð umhverfis flugvöllinn.
Hverfinu fylgja góðir kostir
Nýja hverfinu fylgja einnig góðir kostir fyrir eldri byggð í Skerjafirði þar sem það mun bjóða upp á ýmsa þjónustu sem ekki hefur verið til staðar, það er verslun, skóla og félagsmiðstöð.
Öll bílastæði lóða verða í miðlægu bílastæðahúsi þar sem matvöruverslun og þjónusta verða á jarðhæð. Sérbýli og raðhús verða í nýja hverfinu og tengja þau nýja hverfið við gróna byggð í Skerjafirði. Innar í nýja hverfinu verða námsmannaíbúðir, hjúkrunarheimili og hagkvæmt húsnæði.
Í seinni áfanga er gert ráð fyrir mótun nýrrar strandar með landfyllingu og landmótun. Skipulagið byggir á ítarlegum rannsóknum sem snúast um að búa til hverfi sem fólk vill búa í og er öruggt.
Skipulagið tengist gildandi skipulagsáætlunum fyrir Nauthól og nýja Fossvogsbrú.
Góðar samgöngur fyrir alla
Aðkomu gangandi og hjólandi að nýja Skerjafirði verður gert hátt undir höfði. Áhersla er lögð á forgang gangandi og hjólandi, hæga umferð og öflugar tengingar við almenningssamgöngur. Þá verður lögð ný tenging fyrir Strætó eftir framlengdu Einarsnesi suður fyrir flugbrautina við Fossvogsbrú og að Háskólanum í Reykjavík. Fossvogsbrú er hluti af uppbyggingu fyrsta fasa Borgarlínu.
Áætluð bílastæðaþörf í Nýja Skerjafirði gerir ráð fyrir einungis 0,7 bílastæði á íbúð enda gert ráð fyrir samnýtingu. Engin bílastæði verða innan lóða heldur í miðlægu bílastæðahúsi. Núverandi umferð um Einarsnes er fremur lítil eða um 3.000 bílar á sólarhring við vegamót Suðurgötu og Einarsness. Miðað við áætlaðan fjölda einkabíla í fullbyggðu hverfi (áfanga 1 og 2) má gera ráð fyrir að umferðin nemi um 9.000 bílum á sólarhring á sama stað – sem telst hæfileg umferð og innan marka.
Athugasemdum svarað
Fjölmargar athugasemdir bárust og var þeim svarað ítarlega. Hér er brot úr dæmi um samantekt á athugasemdum um landfyllingar og aðrar viðamiklar breytingar á umhverfinu, t.d. að fjaran í Skerjafirði sé ein af örfáum ósnortnum fjörum borgarinnar er sýnir fjölbreytileika lífríkis við strandlengjuna.
Bent er á í svari að landfyllingin er ekki eiginlegur hluti af 1. áfanga uppbyggingar í Skerjafirði, þ.e. uppbygging 1. áfanga rúmast innan núverandi lands. Landfylling vegna 2. áfanga er nú í víðtæku umhverfismati þar sem fagmenn á öllum sviðum málsins eru að greina kosti og ókosti þeirra áforma sem fyrir liggja. Ýmis konar mótvægisaðgerðir vegna framkvæmdanna eru í skoðun, s.s. endurheimt á leirum og fjörum og fínefnasvæðum.
Vert er að benda á í þessu samhengi að Skerjafjarðarbyggðin nýja verður ekki vatnafræðilega tengd Vatnsmýrinni og Reykjavíkurtjörn. Því er ekki hægt að halda því fram að verið sé að ganga á gæði núverandi grænna svæða og tjarna Vatnsmýrarinnar þar sem lega núverandi flugbrauta stýrir vatnaskilum. Grunnvatn nýju Skerjafjarðarbyggðarinnar mun streyma í suður, þ.e. í Fossvog. Þetta má sjá á deiliskipulagsuppdrætti og skýringauppdrætti tillögunnar sem nú er til umræðu. Vinningstillagan gerði strax ráð fyrir að tengja víkina og voginn við græn vatnasvæði og tjarnir sunnar í Vatnsmýrinni þegar kæmi að lokun flugvallarins.
Tenglar
Tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir nýja byggð í Skerjafirði 1
Tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir nýja byggð í Skerjafirði 2
Tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir nýja byggð í Skerjafirði 3
Nýi Skerjafjörður SKILMÁLAR
Nýi Skerjafjörður Sérskilmálar
Svör embættis skipulagsfulltrúa við athugasemdum eftir auglýsingu