Tilkynningum til Barnaverndar fjölgar áfram

Velferð

""

Barnavernd Reykjavíkur fylgist náið með þróun tilkynninga í kjölfar Covid-19. Alls bárust 468 tilkynningar til Barnaverndar í apríl um 332 börn sem er næstmesti fjöldi tilkynninga á mánuði frá upphafi árs 2018.

 Alls voru 220 tilkynninganna vegna vanrækslu, 135 vegna áhættuhegðunar barna og 113 vegna ofbeldis. Í 71 tilviki var barn metið í bráðri hættu. Virk mál á borði barnaverndarstarfsmanna í Reykjavík eru 2.175 talsins.

Athygli vekur að tilkynningum um heimilisofbeldi, þar sem börn komu við sögu,  fjölgaði hlutfallslega mjög mikið milli mánaða og hafa ekki verið fleiri í upphafi árs í rúman áratug.

Hákon Sigursteinsson, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, segir að fjölgun tilkynninga um heimilisofbeldi þar sem börn eru á heimilinu sé mikið áhyggjuefni og það sé brugðist hratt við í slíkum málum. Félagsráðgjafar velferðarsviðs Reykjavíkurborgar fara ætíð með lögreglu inn á öll heimili þar sem tilkynnt er um ofbeldi og börn. Barnavernd býður börnum strax aðstoð í formi viðtala við sálfræðing barnaverndar og/eða einnig frekari vinnslu sinna mála hjá ráðgjafa. Samstarf lögreglu og barnaverndar er hluti af verkefninu Saman gegn ofbeldi, sem hefur undanfarið minnt á aðstæður þolenda heimilisofbeldis í fjölmiðlum. „Samfélagið lætur greinilega vita ef grunur vaknar um ofbeldi á heimilum þar sem börn eru stödd. Munum að það er ekki síður mikilvægt að halda áfram að ræða þessi mál opinskátt í kjölfar Covid-19,“ segir Hákon að lokum.

Tölfræði Barnaverndar Reykjavíkur 

Heildarfjöldi tilkynninga

Tilkynningum til Barnaverndar Reykjavíkur heldur áfram að fjölga, en í apríl voru þær samtals 468. Ekki hafa borist fleiri tilkynningar í mánuði síðustu tvö ár ef frá er talinn janúar á þessu ári þegar 480 tilkynningar bárust. Árið 2018 voru tilkynningar að meðaltali 367 pr. mánuð en árið 2019 bárust að meðaltali 390 tilkynningar pr. mánuð.
Sjá tölfræði: Heildarfjöldi tilkynninga á mánuði 2018/2019 og 2020

Heimilisofbeldi

Í apríl bárust 46 tilkynningar til Barnaverndar Reykjavíkur vegna heimilisofbeldis. Þar er um mikla fjölgun að ræða, en í mars barst 21 tilkynning og síðustu tvö ár hafa 18 slíkar tilkynningar borist að meðaltali í hverjum mánuði.
Sjá tölfræði: Tilkynningar um heimilisofbeldi á mánuði frá 2018

Þegar horft er á þróun undanfarinn áratug sést að tilkynningar vegna heimilisofbeldis á tímabilinu janúar til apríl hafa aldrei verið fleiri en árið 2020.
Sjá tölfræði: Tilkynningar um heimilisofbeldi, janúar til apríl 2009 til 2020

Barn í yfirvofandi hættu

Áfram má greina mikla aukningu í tilkynningum þar sem barn er metið í yfirvofandi hættu. Slíkar tilkynningar voru 71 í apríl á þessu ári, sem er sami fjöldi og barst í mars. Þetta er talsverð aukning þegar horft er til síðustu tveggja ára, en þá hafa að meðaltali berast um 45 slíkar tilkynningar í hverjum mánuði.
Sjá tölfræði: Tilkynningar um barn í yfirvofandi hættu á mánuði 2018 / 2019 / 2020

Áfengis- og vímuefnaneysla

Tilkynningum vegna foreldra í áfengis eða vímuefnaneyslu hefur fjölgað umtalsvert undanfarin ár. Ef fram fer sem horfir stefnir í 20-25% fjölgun tilkynninga árið 2020 miðað við árið 2019, en þá fjölgaði tilkynningum einnig mikið; um 29% frá árinu 2018. 
Sjá tölfræði: Fjöldi tilkynninga frá 2015 þar sem foreldrar eru í áfengis eða vímuefnaneyslu

Helstu tilkynnendur

Í apríl bárust tvær tilkynningar bárust beint frá börnum til Barnaverndar Reykjavíkur. Það er svipaður fjöldi og venjulega, en tilkynningar af þessu tagi eru á bilinu 0-5 í hverjum mánuði. Þær voru óvenjumargar í marsmánuði, eða 11 talsins.

Tilkynningar frá skólum voru mjög fáar í apríl eða 7 sem er svipaður fjöldi og tíðkast í sumarfrísmánuði. Til samanburðar bárust 39 slíkar tilkynningar í apríl 2018 en 63 í apríl 2019. Tilkynningum frá lögreglu fjölgaði talsvert í apríl. Þær voru 245 talsins, fleiri en nokkru sinni síðustu tvö ár, en á því tímabili hefur að meðaltal borist 161 tilkynning til lögreglu. Hér er því um meira en 50% aukningu að ræða.
Sjá tölfræði: Fjöldi tilkynninga frá helstu tilkynnendum 2018 / 2019 /2020 á mánuði

 Frekari tölfræði og upplýsingar fyrir áhugasama

Á tölfræðivef Reykjavíkurborgar má finna frekari upplýsingar um tölfræði í starfsemi Barnaverndar Reykjavíkur.