Til skiptis hjá foreldrum

„Til skiptis hjá foreldrum“ er heiti á könnun sem var gerð um líðan og aðlögun unglinga eftir fjölskyldugerðum.

Benedikt Jóhannsson, sálfræðingur hjá Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða og Fjölskylduþjónustu kirkjunnar, hafði veg og vanda af könnunni en hún var styrkt af Forvarnasjóði Reykjavíkurborgar.
 
 
Megin markmið könnunar var að varpa ljósi á hvernig líðan og aðlögun unglinga á Íslandi tengist því við hvaða fjölskyldugerðir þeir búa. Athyglinni var einkum beint að þeim unglingum sem búa til skiptis hjá foreldrum og hvernig þeir koma út miðað við aðra unglinga.
 
 
Í árlegri könnun Rannsókna og greiningar á öllum unglingum á landinu í 8. til 10. bekk fékk höfundur setta inn nýja spurningu þar sem í fyrsta sinn er spurt um hverjir búa til skiptis hjá foreldrum sínum, en það fyrirkomulag virðist fara vaxandi. Könnunin var lögð fyrir í febrúar 2010.
 
 
Alls svöruðu 10.840 unglingar og reyndust 69% unglingana búa hjá báðum foreldrum á sama heimili. Tíðni þeirra sem bjuggu til skiptis hjá foreldrum sínum var samtals 5,2% á unglingastigi. Eftirfarandi þættir voru tengdir fjölskyldugerðum: Líðan unglinganna, samskipti þeirra við foreldra, vini og kennara, sem og notkun þeirra á áfengi og kannabisefnum. Fram kom tölfræðilega marktækur munur milli fjölskyldugerða varðandi alla þessa þætti.
 
 
Í öllum tilvikum reyndust unglingar sem búa hjá báðum foreldrum á sama heimili best aðlagaðir og yfirleitt reyndust unglingar sem búa til skiptis hjá foreldrum sínum betur aðlagaðir en aðrir unglingar eftir skilnað. Þeir unglingar sem ekki bjuggu hjá foreldrum sínum reyndust hins vegar að jafnaði verst aðlagaðir.