Þekkingarkista um loftslagsmál - nýtt gagnlegt tól

Loftslagsmál Stjórnsýsla

Sigríður Finnbogadóttir og Brynhildur Hallgrímsdóttir

Loftslagsmálin eru líklega stærsta viðfangsefni okkar samtíma. Aðgerðir og stefnur sem snerta umhverfis- og loftslagsmál hafa mismunandi áhrif á ólíka hópa fólks í samfélaginu og til að þær komi ekki niður á vissum hópum þarf að greina stefnur eftir til dæmis kynja- og jafnréttissjónarmiðum. Þessi þekking, sem þarf að hafa til hliðsjónar við ákvarðanir í loftslagsmálum, hefur hins vegar hvergi verið aðgengileg hér á landi,“ segir Brynhildur Hallgrímsdóttir.

Brynhildur vann í sumar verkefni í hagnýtum jafnréttisfræðum sem kallast „Réttlát umskipti á leiðinni til kolefnishlutleysis - Kynja- og jafnréttissjónarmið í umhverfis- og loftslagsmálum“. Verkefnið var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna en umsjónaraðilar þess voru Sigríður Finnbogadóttir, verkefnastýra kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar hjá Reykjavíkurborg og Finnborg Salome Steinþórsdóttir, nýdoktor í kynjafræði við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. „Í verkefninu voru kortlögð helstu kynja- og jafnréttissjónarmið sem horfa þarf til við stefnumótun og aðgerðir í umhverfis- og loftslagsmálum en til að aðgerðir beri árangur og stuðli að jafnrétti, jöfnum tækifærum og félagslegu réttlæti þarf stefnumótun og ákvarðanataka að taka mið af ólíkri stöðu fólks innan samfélagsins,“ segir Sigríður. „Verkefninu er ætlað að styðja við borgina í vegferð hennar í átt að kolefnishlutleysi en við vonum að fleiri hafi gagn af. Niðurstöðurnar má finna í nýrri þekkingarkistu á vef Reykjavíkurborgar.“ 

Opið öllum sem vilja kynna sér málið

Um ákveðið frumkvöðlastarf er að ræða. „Það hefur verið eftirspurn eftir þessari þekkingu enda er stjórnvöldum skylt að vinna að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða og hafa til hliðsjónar við alla ákvarðanatöku og stefnumótun.“ segir Sigríður. „Verkefninu er ætlað að styðja við borgina í vegferð hennar í átt að kolefnishlutleysi en við sjáum fyrir okkur að þetta gagnist líka til dæmis ríki og öðrum sveitarfélögum, enda er þetta risavaxið verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Þetta verður líka opið fyrir háskólafólk og almenning og raunar öll sem hafa áhuga á að kynna sér þessi mál.“ 

Hugmyndin að verkefninu kviknaði þegar Reykjavíkurborg setti sér aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og meta átti allar aðgerðir út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum en í ljós kom að þekkingin var ekki til staðar. Því þótti mikilvægt að kortleggja hana og gera aðgengilega og úr varð hið nýja tól, þekkingarkistan. Niðurstöður verkefnisins flokkaði Brynhildur undir fimm áherslusvið sem byggja á loftslagsáætlun Reykjavíkurborgar, Græna planinu og aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum. Upplýsingarnar eru aðgengilegar í þekkingarkistunni og sem dæmi um áhugaverðar niðurstöður má nefna að konur eru líklegri til að breyta hegðun sinni og fórna og eyða meiru í þágu umhverfisins en karlar og að svo virðist sem náttúruhamfarir hafi meiri áhrif á eldra fólk, fátækt fólk, börn og fatlað fólk en aðra hópa. 

Þörf á vitundarvakningu

Þær Brynhildur og Sigríður eru afar ánægðar með útkomuna. „Mér finnst þetta hafa tekist frábærlega og held að þetta verði mikilvægur stuðningur fyrir okkur og önnur sem eru að vinna í þessum málum. Svo sjáum við tækifæri til að halda þessari þekkingu við og byggja ofan á hana,“ segir Sigríður og Brynhildur tekur undir. „Ég vona að fólk nýti sér þetta tól því það er skylt að greina stefnur og áætlanir út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum og vitundarvakning þarf að eiga sér stað.“ 

Brynhildur segir að það sem helst hafi komið henni á óvart í ferlinu hafi verið að heimildir innihéldu aðallega kynjasjónarmið. „Ég fann litlar upplýsingar um aðra jaðarhópa í samfélaginu, til að mynda fatlað fólk. Þessa vitneskju vantar,“ segir hún. Og varðandi það að koma á óvart segir Sigríður að lokum. „Við sjáum svo ítrekað í þessari vinnu við kynjaða fjárhags- og starfsáætlunargerð og samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða, að við höldum oft að hlutir séu hlutlausir og hafi sömu áhrif á öll en þegar við förum að garfa í hlutunum, kortleggja, greina og skoða frá mismunandi hliðum, þá sjáum við að svo er bara alls ekki. Þess vegna er gott fyrir okkur öll að rýna aðeins og hafa þessi sjónarmið til hliðsjónar.“