Tækifæri til útivistar við vötn og gönguskíðaiðkunar til skoðunar

Heilsa Íþróttir og útivist

Við Elliðavatn Ragnar Th. Sigurðsson
Elliðavatn í logni, skýin speglast í vatninu og í forgrunni eru stórir steinar í vatninu. Elliðabærinn í bakgrunni hinum megin við vatnið.

Tækifæri til útivistar og leikja við vötn verða greind sérstaklega, í takt við auknar vinsældir vatnaíþrótta og þá staðreynd að aðgengi að vatni, eða bláum svæðum, hefur jákvæð áhrif á heilsu og stuðlar að hamingju og vellíðan. Samhliða greiningunni verða skoðaðir auknir möguleikar til gönguskíðaiðkunar á höfuðborgarsvæðinu.

Nýlega var kynnt skýrsla starfshóps um haftengda upplifun og útivist í Reykjavík, þar sem dregin voru fram fjölmörg sóknarfæri með það að markmiði að auka lífsgæði borgarbúa og stuðla að bættri lýðheilsu. Sú stefnumörkun sem þar kom fram þótti vel heppnuð og samþykkti borgarráð að fylgja henni eftir með sambærilegri greiningu um tækifæri til útivistar og leikja á og við vötn á höfuðborgarsvæðinu. Samþykkt var að beina erindi til stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins, þar sem hvatt verður til þess að verkefnið verði unnið sameiginlega fyrir svæðið allt undir forystu nefndarinnar. Nefndin setji verkefnið af stað í samvinnu allra sveitarfélaga á svæðinu sem hluta af þeirri áherslu á útivist og útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins sem er liður í Sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins

Möguleikar til gönguskíðaiðkunar kortlagðir 

Samkvæmt tillögunni sem samþykkt var yrðu samhliða kortlagðir möguleikar til gönguskíðaiðkunar, innan eða í nálægð við núverandi byggð, svo sem í Heiðmörk og á Hólmsheiði, til viðbótar við þá uppbyggingu í þágu gönguskíðaíþróttarinnar sem er fyrirhuguð í Bláfjöllum. Hvort tveggja ætti samkvæmt tillögunni að falla vel að skýrri áherslu nefndarinnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um útivist, útivistarmöguleika og sameiginleg græn svæði og útmörk höfuðborgarsvæðisins.