Borgarráð - Fundur nr. 5715

Borgarráð

Ár 2023, fimmtudaginn 14. september, var haldinn 5715. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:09. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Kjartan Magnússon, Magnús Davíð Norðdahl, Pawel Bartoszek og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Hildur Björnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Diljá Ragnarsdóttir, Ebba Schram, Ívar Vincent Smárason og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Bjarni Þóroddsson.

Þetta gerðist:

  1. Samþykkt að Dagur B. Eggertsson fari með formennsku í borgarráði í fjarveru formanns og varaformanns sbr. 54. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. MSS22060043

  2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. september 2023, sbr. afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs á verklýsingu vegna breytingar á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 vegna Sundabrautar.

    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Haraldur Sigurðsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK23090007

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Með samkomulagi Reykjavíkurborgar og samgönguráðherra árið 2021 komst Sundabrautarmálið í traustan og góðan farveg. Ljóst er að með verklýsingu skipulagsgerðar og umhverfismats næst mikilvægur áfangi í framgangi verkefnisins. Með verklýsingunni eru boðaðar breytingar á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 (AR2040) sem varða legu og útfærslu Sundabrautar og jafnframt er lögð fram áætlun um hvernig standi skuli að umhverfismati breytinganna. Umhverfismatið og samráð við íbúa og hagsmunaaðila beggja vegna Kleppsvíkur verður lykilatriði þegar kemur að útfærslu á Sundabraut. Þá liggur einnig fyrir að hagsmunir almenningssamgangna, gangandi og hjólandi verða teknir inn í myndina, ásamt hafnarstarfsemi.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ánægjulegt er að undirbúningur við lagningu Sundabrautar virðist loks kominn á skrið eftir miklar og óskiljanlegar tafir meirihlutans undanfarin þrjú kjörtímabil. Þar sem um afar mikilvægt skipulagsmál er að ræða óskum við eftir því að eftirfarandi aðilum verði bætt við á lista yfir formlega umsagnar- og hagaðila: Hjólreiðafélagi Reykjavíkur, Hjólreiðafélaginu Tindi, Íslenska fjallahjólaklúbbnum, Landssamtökum hjólreiðamanna, Félagi atvinnubílstjóra hjá Strætó bs., Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Bifhjólasamtökum lýðveldisins, Bifreiðastjórafélaginu Frama, Félagi hópferðaleyfishafa, ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða, ungmennaráði Grafarvogs og ungmennaráði Kjalarness.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi sósíalista styður að unnið verði áfram að útfærslu Sundabrautar en þar þarf að taka tillit til mismunandi þátta, t.a.m. áhrifa á náttúru og íbúabyggð. Einnig þarf að leita álits hjá íbúum og samtökum almennings. Hvað varðar fjármögnun Sundabrautar þá getur fulltrúi sósíalista ekki tekið undir þá sýn að Sundabraut verði fjármögnuð með veggjöldum líkt og fjallað er um í yfirlýsingu innviðaráðherra og borgarstjóra sem er dagsett 6. júlí 2021. Sameiginlegir sjóðir eiga að standa undir uppbyggingu samgöngumannvirkja en með veggjöldum er verið að leggja aukagjöld ofan á almenning.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Sundabraut hefur verið sagan endalausa en nú er vonandi eitthvað að gerast. Gæta þarf að samráði í þessu risaverkefni og hafa samráðið eins mikið og þörf krefur. Það er sérkennilegt að Hafrannsóknastofnun sé ekki umsagnaraðili (ekki með á lista yfir umsagnaraðila) en þar eru rannsóknir á líffræði sjávar stundaðar, þar á meðal á göngum fiska upp í ár og læki. Nú ríður á að ljúka við hönnunarvinnu Sundabrautar sem fyrst. Dráttur á að ákvarða legu Sundabrautarinnar mun tefja aðra uppbyggingu. Svo þarf að árétta að ekki má skerða gæði strandarinnar og grunnsævis. Þess vegna þarf að byggja brýr en alls ekki landfyllingar. Mestu hagsmunir borgarinnar með tilkomu Sundabrautar eru góð tenging milli Vogahverfis og Grafarvogs. Engum blöðum er um það að fletta að gera skal brú frekar en göng til að bæði gangandi og hjólandi geti nýtt brúna. Brú, fallega hönnuð, á þessum stað getur verið glæsileg og gert aðkomu að Reykjavík virðulega. Tenging við Geldinganesið er mikilvæg enda klárlega framtíðarbyggingarsvæði.

    Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Eitt stærsta verkefni Reykjavíkurborgar er að ná niður kolefnissporinu sem stafar af samgöngum m.a. með því að innleiða breyttar ferðavenjur. Í raun ætti ekki að ráðast í milljarða vegaframkvæmd sem hefur umferðaraukandi áhrif á borgarumhverfið fyrr en borgin og ríkið hafa náð markmiðum sínum um kolefnishlutleysi og breyttar ferðavenjur. Það er löngu orðið brýnt að endurskoða umfang núverandi vega til að draga úr heildarumfangi vegakerfisins frekar en að auka við það. Að mörgu er að hyggja þegar það kemur að Sundabraut/göngum. Verði hún að veruleika er mikilvægt að tryggja að hún valdi ekki mengun og umferðarhávaða, sé ekki lýti í borgarlandslaginu og skeri ekki í sundur Grafarvog og höfnina og sé beint frá íbúabyggð. Eins ætti framkvæmdin að vera hugsuð þannig að Sundabraut/göng tengi landsbyggð og flugvöll og hafi þann tilgang að vera meginstofnvegur gegnum höfuðborgarsvæðið fyrir vöruflutninga en ekki umferðaræð inn í hjarta Reykjavíkur. Þá eru mörg dýrmæt náttúrusvæði undir í verklýsingu Sundabrautar/ganga og væri það dapurlegt ef þau færu undir í framkvæmdum fyrir grátt, mengandi ferlíki.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 12. september 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að viðauka við eigendasamkomulag frá 25. október 2013 vegna meðhöndlunar úrgangs í Álfsnesi sbr. erindi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þar sem Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er falið að senda fyrirliggjandi drög til efnislegrar umræðu og samþykktar á vettvangi aðildarsveitarfélaga. Þá er lagt til að borgarstjóra verði falið umboð til að undirrita ofangreindan viðauka.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Haraldur Sigurðsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23090068

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Stefnt er að því að hætta urðun í Álfsnesi og það á að slá af hugmynd um brennslustöð þar. Þessa ákvörðun þarf að skýra að mati fulltrúa Flokks fólksins. Ef nýta á varmaorku frá brennslustöð þá þarf sú stöð að vera nálægt byggð. Hvar ætti brennslustöðin annars að vera? Eigi að brenna öllu í Kölku má benda á að varmaorka frá Kölku nýtist verr því að þar er minni byggð en við Álfsnes.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. september 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. september 2023 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Breiðholts vegna hverfis 6.2 Seljahverfi vegna lóðarinnar nr. 17 við Öldusel.

    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23080222

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. september 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. september 2023 á tillögu að breytingu á skilmálum deiliskipulags hesthúsabyggðar á Hólmsheiði, Almannadals og Fjárborgar.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23040070

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 12. september 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi heilsustefnu fyrir vinnustaðinn Reykjavíkurborg og þær þrjár aðgerðir sem áætlað er að komi til framkvæmda á árinu 2024 sem eru hækkun á heilsuræktarstyrk, hækkun á samgöngustyrk og stofnun stuðnings- og ráðgjafateymis. Ekki er verið að samþykkja fjármögnun þeirra fjögurra aðgerða sem lagt er til að komi til framkvæmda á næstu árum sem eru matartengd mál, heilsufarsmælingar, stoðkerfisráðgjöf inn á starfsstaði og hjóla- og sturtuaðgengissjóður en leitast verður eftir að fjármagna þær við gerð fjárhagsáætlana á næstu árum.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Frestað.

    Lóa Birna Birgisdóttir og Ásta Bjarnadóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MOS22080017

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 12. september 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki uppfærða viðverustefnu fyrir vinnustaðinn Reykjavíkurborg.

    Greinargerð fylgir tillögunni

    Frestað.

    Lóa Birna Birgisdóttir og Ásta Bjarnadóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MOS23040002

  8. Lagt fram erindi Samkeppniseftirlitsins, dags. 1. september 2023, varðandi tilmæli vegna samkeppnisaðstæðna á flutningsmarkaði.

    Páll Gunnar Pálsson, Valur Þráinsson og Gunnar Tryggvason taka sæti á fundinum undir þessum lið. MSS23090009

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í bréfi frá Samkeppniseftirliti er mælst til þess að ráðist verði í aðgerðir til þess að draga úr samkeppnishindrunum á flutningsmarkaði, skapa aðhald og efla með því samkeppni. Er það m.a. til þess fallið að hafa jákvæð áhrif á vöruverð. Borgin þarf að stuðla að því að gefa nýjum aðilum aðstöðu á hafnarsvæðinu og með því væri dregið úr samkeppnishindrunum á flutningsmarkaði. Virk samkeppni á flutningsmarkaði er mikilvæg og borgin þarf að leggja sitt af mörkum til að svo verði. Það er öllum ljóst að samráð er bannað og við verðum að koma í veg fyrir það með öllum ráðum.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 12. september 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er að borgarráð samþykki samning Reykjavíkurborgar og Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins fyrir 2024-2025 sem er í samræmi við samþykkt borgarráðs frá 13. febrúar 2023. Reykjavíkurborg veitir framlag til stofunnar samkvæmt rekstrargreiningu KPMG frá árinu 2022 en á stofnári stofunnar 2023 var framlagið 37% af rekstrargreiningu eða 23,3 m.kr. Á árinu 2024 skal það vera 78% eða 47 m.kr. af rekstrargreiningunni og vera svo orðið 100% fyrir árið 2025. Fjárframlagið skal tekið úr ramma Höfuðborgarstofu.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS23090053

    Fylgigögn

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 12. september 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að fylgja eftir vel heppnaðri og útfærðri stefnumörkun um haftengda upplifun með sambærilegri greiningu um tækifæri til útivistar og leikja á og við vötn á höfuðborgarsvæðinu. Erindi verði beint til stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins þar sem hvatt verði til þess að verkefnið verði unnið sameiginlega fyrir höfuðborgarsvæðið undir forystu svæðisskipulagsnefndar. Nefndin setji verkefnið af stað í samvinnu allra sveitarfélaga á svæðinu sem hluta af þeirri áherslu á útivist og útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins sem er liður í sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins. Samhliða verði kortlagðir auknir möguleikar til gönguskíðaiðkunar, innan eða í nálægð við núverandi byggð, s.s. í Heiðmörk og á Hólmsheiði, til viðbótar við þá uppbyggingu í þágu gönguskíðaíþróttarinnar sem er fyrirhuguð í Bláfjöllum. Hvort tveggja ætti að falla vel að skýrri áherslu nefndarinnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um útivist, útivistarmöguleika og sameiginleg græn svæði og útmörk höfuðborgarsvæðisins.

    Samþykkt. MSS23090055

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga er lögð fram af meirihlutanum um að greina tækifæri til útivistar og leikja við vötn og sjó. Fram kemur í formála að „stefnumótun um haftengda upplifun hefur það að markmiði að auka lífsgæði borgarbúa með því að kynna og þróa fjölbreyttar leiðir til að nýta og njóta strandarinnar og hafsins, og gera sjóinn og ströndina aðgengilegri fyrir alla“. Því miður er það líklegt að talið verði nauðsynlegt að fara í landfyllingar til að þessi tækifæri skapist. Fulltrúi Flokks fólksins sér ekki nauðsyn þess. Allt er þetta spurning um stefnu og hvort ekki eigi að setja lífríki og náttúrulegar fjörur í fyrsta sæti enda orðnar fágætar í borgarlandinu. Fólk og lífríki er samtengt og á að skoðast í samhengi. Mikilvægast er til lengdar að halda í ósnortna náttúru. Fjörur á að friða.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 12. september 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að atvinnu- og borgarþróunarteymi á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, í samráði við umhverfis- og skipulagssvið, verði falið að bera saman staðsetningar fyrir miðstöð þyrluflugs, m.a. á grundvelli hjálagðs minnisblaðs um þyrluflugvöll á Hólmsheiði. Borin verði saman Hólmsheiði, Almenningar (Hvassahraun) og eftir atvikum aðrir frístundaflugvellir og lendingarstaðir í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Markmiðið væri að draga úr eða koma í veg fyrir að lágflug útsýnisþyrlna fari yfir þétta íbúabyggð og búa starfseminni aðstæður og vaxtarmöguleika til skemmri og lengri tíma. Reykjavíkurflugvöllur yrði hafður með til hliðsjónar. Haft verði samráð við þyrlufyrirtækin og Samgöngustofu, varðandi umfang innviða og aðstöðu.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt. MSS23080027

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 12. september 2023, varðandi fyrirhugaðar ferðir borgarstjóra til New York, Genfar og Flórens, ásamt fylgiskjölum. MSS23090058

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Sósíalistar líta svo á að það sé sérlega áríðandi að fyrirtækin verði skylduð til að bera sinn hluta ábyrgðarinnar á loftslagsbreytingum, sem er svo sannarlega afar ríkur. Óskandi væri að borgarstjórn tæki mjög ákveðin skref á þá braut, og að borgarstjóri myndi fara á ráðstefnur af þessu tagi með þann boðskap í fyrirrúmi. Það er sömuleiðis áhersla Sósíalista að það sé lykilforsenda fyrir árangri af húsnæðisstefnu þeirri sem ítrekað hefur verið lögð fram sem loftslagsaðgerð, að byggja upp á samfélagslegum forsendum og ekki á forsendum markaðarins. Það þarf að gera ráð fyrir öllum stéttum samfélagsins, og gefa þeim frelsið til að velja sjálfar hvar þær kjósa að búa í borgum. Það val má ekki aðeins fyrir hin efnaðri sem ekki eru bundin af óyfirstíganlegum kostnaði.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 11. september 2023, þar sem erindisbréf viðburðarstjórnar Ráðhúss Reykjavíkur er sent borgarráði til kynningar. MSS23090054

    -    Kl. 10:59 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Marta Guðjónsdóttir tekur þar sæti með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  14. Fram fer kynningin á hinsegin fræðslu og kynfræðslu í skólum Reykjavíkurborgar.

    Anna Kristinsdóttir, Svandís Anna Sigurðardóttir, Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, Tótla L. Sæmundsdóttir og Helgi Grímsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. SFS23040018

    Borgarráð ásamt áheyrnarfulltrúum leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fordómar og ofbeldi eiga ekki heima í okkar samfélagi. Meginmarkmið menntastefnu Reykjavíkurborgar er að „öll börn vaxi, dafni og uni sér saman í lýðræðislegu samfélagi sem einkennist af mannréttindum og virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífs.“ Við náum þeim markmiðum m.a. með fræðslu um kynlíf, kynhneigð og sjálfseflingu. Það er ljóst að framboð af efni sem getur haft neikvæð áhrif á börn er mikið og aðgengi að því hefur aukist verulega með tilkomu internetsins. Það er hlutverk góðs skólakerfis að hjálpa börnum að meta sjálf þær upplýsingar sem þeim berast. Það er því mikilvægt að börn geti fengið bæði kynfræðslu og upplýsingar um hinsegin málefni á yfirvegaðan hátt í gegnum skólakerfið. Reynslan sýnir að slík fræðsla leiðir til þess að börn læri að setja mörk og hefur leitt til þess að þau hafa stigið fram og sagt frá ofbeldi. Samtökin ´78 sjá um hinsegin fræðslu í skólum borgarinnar í samstarfi við Reykjavíkurborg en að gefnu tilefni má ítreka að samtökin koma ekki að kynfræðslu. Unnið er að gerð námsefnisins af mikilli fagmennsku og virðingu. Það er vel ígrundað hvernig að fræðslunni er staðið og er allt efni sniðið að þeim aldri sem því er ætlað að ná til. Borgarráð er stolt af samstarfinu við Samtökin ´78 þegar kemur að hinsegin fræðslu og af Jafnréttisskólanum og öðru starfsfólki borgarinnar sem kemur að fræðslu um jafnréttismenntun, mannréttindi og kynheilbrigði. Við lítum hatursorðræðu alvarlegum augum og viljum að börn okkar læri umburðarlyndi og sjálfseflingu.

    -    Kl. 11:47 víkur Líf Magneudóttir af fundinum.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram trúnaðarmerkt bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 13. september 2023, þar sem lögð er fram áhættuskýrsla vegna annars ársfjórðungs ársins 2023, ásamt fylgiskjölum.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23070015

  16. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 11. september 2023, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 6. september 2023 á tillögu að breytingu á leiguverðslíkani Félagsbústaða, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt með sex atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Agnes Sif Andrésdóttir, Halldóra Káradóttir, Sigrún Árnadóttir og Kristinn Karel Jóhannsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. VEL23080023

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands og áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ekki er hægt að samþykkja að leiga hjá 145 leigjendum Félagsbústaða hækki um 12.000 krónur eða meira. Tillagan sem er hér lögð fram felur í sér breytingar á leiguverðslíkani, m.a. til að jafna leiguna á milli ólíkra eigna og óháð staðsetningu. Finna verður aðrar leiðir til að ná þessum markmiðum fram en að hækka leiguna hjá leigjendum Félagsbústaða sem búa við kröpp kjör.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Verið er að breyta leiguverðslíkani Félagsbústaða því að núgildandi verðlíkan byggir á fasteignamati frá árinu 2017 og mismikil hækkun hefur verið á fasteignamati á milli borgarhluta. Flokki fólksins líst vel á að það verði þak á fasteignamati í einstökum hverfum til þess að grípa tilvik þar sem fasteignamat hækkar umfram meðaltal. Það er jákvætt að leiguverð sé sem jafnast óháð staðsetningu og aldri íbúðar og að breytingar á leiguverði verði ekki í stökkum. Breytingin mun hafa áhrif á 2.649 leigjendur, leiga hækkar hjá 1.538 leigjendum um fjárhæð á bilinu 0-36.000 kr. og alls lækka 1.111 leigjendur um sömu fjárhæðir. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þeim 5,5% leigjenda þar sem leigan mun hækka um meira en 12.000 kr. á mánuði. Fjöldi leigjenda hefur kvartað undan stöðugum hækkunum á leiguverði undanfarið. Flokkur fólksins hvetur Félagsbústaði til að sýna sveigjanleika þar sem leigjendur eru í miklum erfiðleikum og jafnframt tilkynna leigjendum þessa breytingu sem fyrst svo fólk geti gert ráðstafanir. Flokkur fólksins mótmælir harðlega að vangreidd leiga sé send lóðbeint til lögfræðinga Motus. Leigjendur Félagsbústaða eru viðkvæmur hópur og margir eru efnalitlir og fátækt fólk.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 8. september 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að uppfæra fjárfestingaáætlun verkefnisins átak í teikningaskönnun, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Karen María Jónsdóttir, Óskar Þór Þráinsson og Inga Rós Gunnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ÞON21040006

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Nauðsynlegt er að ljúka verkefninu. Það er hins vegar afar sérstakt hversu vanáætlað verkefnið hefur verið. Ekkert svið hefur tekið eins mikið fjármagn til sín og þjónustu- og nýsköpunarsvið. Allar beiðnir um meira fjármagn úr borgarsjóði eru samþykktar af meirihlutanum möglunarlaust og án allrar gagnrýni. Í skýringum kemur alltaf það sama fram, að reynt sé að finna hagkvæmustu lausnir við að útfæra upphaflega áskorun. Frá upphafi hefur verið afar erfitt að sjá að það sé reynt. Lausn eins og þessa er nú þegar búið að innleiða annars staðar. Það er einsdæmi að stærsta sveitarfélag landsins sé svo aftarlega á merinni í svo mikilvægri stafrænni lausn. Það er ómælt vesen að sækja um byggingarleyfi hjá borginni með öllum tilheyrandi fylgigögnum ef ekki er hægt að senda eða kalla fram gögn/teikningar rafrænt svo ekki sé minnst á rafrænt utanumhald. Fram kemur að ef ekki komi meira fjármagn þurfi að setja verkefnið á ís. Skynja má hótunartón í þessari beiðni. Flokkur fólksins vill minna á að um 20 milljarðar hafa farið til þjónustu- og nýsköpunarsviðs sl. 3-4 ár en fjöldi tilbúinna og innleiddra lausna eru ekki í neinu samræmi við þá upphæð.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 8. september 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja verkefnið Power BI – stjórnandinn, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Karen María Jónsdóttir, Óskar Þór Þráinsson og Inga Rós Gunnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ÞON23040066

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Verkefnið „stjórnandinn“ (Power BI) er sagt liður í að einfalda kerfisrekstur og bæta gagnanotkun borgarinnar. Fulltrúi Flokks fólksins telur að þarna sé á ferðinni verkefni sem varla er brýnt einmitt núna og hlýtur það því að mega bíða þangað til betur árar í borgarfjármálum. Fulltrúinn hefur ítrekað í gegnum árin bent á að nauðsynlegt er að forgangsraða stafrænum verkefnum og þá setja fremst þau sem auðvelda umsóknarferli. Oft hafa verkefni sem snúa beint að borgarbúum verið látin sitja hakanum á meðan tíma og fé er eytt í alls kyns innri uppfærslur og búnaðarkaup hjá þjónustu- og nýsköpunarsviðinu sjálfu.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 8. september 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja verkefnið spálíkön velferðarsviðs, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Karen María Jónsdóttir, Óskar Þór Þráinsson og Inga Rós Gunnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ÞON23070008

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þjónustu- og nýsköpunarsvið óskar eftir að borgarráð heimili þjónustu- og nýsköpunarsviði að hefja verkefnið spálíkön velferðarsviðs. Spálíkönin eru vissulega skemmtileg og e.t.v. hjálpleg en hér er varla á ferðinni stafræn lausn sem þolir enga bið. Nær væri að setja fjármagn til að koma á fót lausnum sem létta borgarbúum að sækja um hina ýmsu þjónustu í borginni, t.d. milliflutning í leikskóla og fjölmargt fleira. Óskað er eftir 15 milljónum sem nota mætti í annað brýnna, t.d. að auka þjónustu við börn í vanlíðan. Meirihluti sem stendur með fjárvana borg í höndunum hlýtur að þurfa að forgangsraða verkefnum innan borgarinnar eftir mikilvægi.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 12. september 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um rafræna miða á vegum Reykjavíkur og fyrirtækja í hennar eigu, sbr. 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. júlí 2023. MSS23070047

    Fylgigögn

  21. Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 1. september 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um biðlista vegna leikskólaplássa og aðlögunar leikskólabarna, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. ágúst 2023. MSS23080069

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins spurði um hversu margir foreldrar barna sem byrja eiga í leikskóla í ágúst og september hafi ekki fengið staðfesta dagsetningu þar sem barn þeirra hefur aðlögunarferlið. Einnig hversu margir foreldrar hafi ekki enn fengið staðfestingu um leikskólapláss. Í svari segir að í september voru 658 börn 12 mánaða og eldri á biðlistum um leikskólapláss í borgarrekna leikskóla. Þar af voru 98 börn 18 mánaða og eldri. Mörg þessara elstu barna hafa nýverið bæst á biðlistann. Þetta er ótrúlegur fjöldi barna sem bíður eftir plássi. Að baki einu barni er fjölskylda sem líður fyrir óvissu og óöryggi með hvort barn fái pláss til að foreldrar geti sinnt sínum störfum. Ömmur og afar og aðrir í fjölskyldunni eru að reyna að létta undir en ekki allir eiga fjölskyldu nærtæka. Það sem gerir þessi mál erfið er að sum þessara barna eru búin að fá vilyrði fyrir plássi þótt þau hafi ekki fengið vistun ennþá. Þetta er auðvitað afar sérkennilegt. Keðjuverkun er þannig að elstu börnin byrja fyrst og svo eru börn tekin inn eftir aldri eftir því sem aðlögun eldri barnanna lýkur og eftir því sem nýráðið starfsfólk hefur störf. Starfsmannaekla er síðan annað stórt vandamál sem enn hefur ekki náðst að leysa að heitið geti.

    Fylgigögn

  22. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 8. september 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. apríl 2023. MSS23040049

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins spurði um hversu alvarlegur fjárhagsvandi Reykjavíkurborgar væri. Er Reykjavíkurborg á leið í þrot? Í svari kemur fram að ekki er talin þörf á áhyggjum. Flokkur fólksins horfir á A-hlutann sem er borgarsjóður en úr þeim sjóði koma greiðslur m.a. fyrir alla velferðar-, skóla- og frístundaþjónustu. Flokkur fólksins vill að rætt sé um þessi mál með raunhæfum og sönnum hætti en ekki að bjartasta myndin sé dregin upp hverju sinni. Ef borgarstjórn vill ávinna sér traust skiptir öllu máli að koma heiðarlega fram þótt tíðindi séu slæm. Það er hlutverk fjármálasviðs að ráðleggja meirihlutanum t.d. að draga úr fjárfrekum verkefnum sem mega bíða og standa vörð um þjónustu við fólkið. Skuldabréfaútboð hefur ekki gengið sem skyldi. Það er mikill munur á líklegu vaxtastigi við skuldabréfaútgáfu annars vegar og lántöku hins vegar ef skuldabréfaútgáfan gengur ekki upp. Þarna eru það háar upphæðir á ferðinni að þær skipta máli. Jafnframt er ekki hægt að líta framhjá því að það virðist vera mat markaðarins á fjárhagsstöðu borgarinnar að markaðsaðilar eru farnir að verðleggja skuldabréfin svo hátt að það er orðið illmögulegt að taka þann valkost að mati borgaryfirvalda. Þetta hlýtur að vera áhyggjuefni borgaryfirvalda.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 8. september 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins vegna skuldabréfaútboðs, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. ágúst 2023. FAS22120008

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins vill velta upp vaxtamuninum á líklegu vaxtastigi við skuldabréfaútgáfu annars vegar og lántöku hins vegar ef skuldabréfaútgáfan gengur ekki upp. Þarna eru það háar upphæðir á ferðinni að þær skipta máli. Jafnframt verður ekki hjá því litið að það virðist vera mat markaðarins á fjárhagsstöðu borgarinnar að markaðsaðilar eru farnir að verðleggja skuldabréfin svo hátt að það er orðið illmögulegt að taka þann valkost að mati borgaryfirvalda. Þetta hlýtur að vera áhyggjuefni borgaryfirvalda.

    Fylgigögn

  24. Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 7. september 2023. MSS23010026

    Fylgigögn

  25. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 4. september 2023. MSS23010022

    Fylgigögn

  26. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 7. september 2023. MSS23010005

    Fylgigögn

  27. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 4. september 2023. MSS23010030

    Fylgigögn

  28. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 25. ágúst 2023. MSS23010021

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. og 3. lið fundargerðarinnar:

    2. liður. Fjárhagsáætlun 2024: Fjárhagsstaða Strætó er afar slæm og þjónusta eftir því enda hefur þurft að skerða hana umtalsvert. Þau sveitarfélög sem standa að Strætó bs. þurfa að gera betur. Allt stefnir í að enn vanti fé til að ná jafnvægi í rekstri og styrkja þarf eigið fé fyrirtækisins, sem er tæplega 150 m.kr. í mínus. Nú er það staðfest að áratugur gæti verið í að borgarlína verði komin í fulla virkni og þess vegna blasir það við að hressa þarf rækilega upp á Strætó bs. í þeirri von að notendahópurinn stækki eitthvað. Allt of margir telja að Strætó geti engan veginn hentað sínum samgönguþörfum enda ferðir ekki nógu tíðar og leiðir takmarkaðar inn í hverfin. Fargjald er hátt og finnst fólki það augljóslega borga sig að reka frekar bíl. 3. liður. Ferli ábendinga: Ábendingar sem eru í raun einnig hreinar kvartanir vegna slakrar þjónustu eru hlutfallslega miklar hjá Strætó og hafa verið árum saman. Þeim fer fjölgandi með hverju ári og auðvitað í samræmi við farþegafjölda. Strætó hefur ekki enn náð tökum á að nýta sína eigin þjónustustefnu sem virðist aðeins vera orð á blaði. Þessi mál þarf að taka föstum tökum.

    Fylgigögn

  29. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 13. september 2023.

    5. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS23010011

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðarinnar:

    Þetta eru sömu niðurstöður og áður hafa komið fram. Óánægðastir eru þeir sem eiga erfitt með að komast á göngugöturnar vegna þess að þeir búa fjarri þeim, t.d. í úthverfum. Þeir sem búa fjarri hafa ekki aðgengi að þeim nema með einhverjum erfiðleikum. Þeir sem ekki geta notið göngugatna heldur er aldrað fólk og fólk sem ekki getur gengið í miðbæinn. Fylgni við önnur atriði sem könnuð voru eru ekki eins skýr. Til að bregðast við á því að skoða þarfir þessa fólks sem ekki notar göngugötur. Hér koma bílastæði utan við göngugötusvæðið fyrst upp í hugann. Núverandi bílastæðahús eru illa nýtt. Þau eru ekki aðlaðandi, en allar tillögur Flokks fólksins um að bæta þau hafa verið felldar. Það þarf að nýta þau mun betur, annað er fásinna. Strætókerfið er ekki boðlegt, margir hafa gefist upp á því og enn öðrum dettur ekki í hug að reyna að byrja að nota það. Skoða ætti hvort ekki megi gera bílastæði utan við göngugötusvæðin og þá á svæðum sem ekki er hægt að byggja á núna svo sem vegna flugvallarins eða annarra skipulagsmála. Slík bílastæði hindra ekki uppbyggingu í framtíðinni.

    Fylgigögn

  30. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. MSS23090015

    Borgarráðfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 5., 8. og 9. lið yfirlitsins:

    5. liður: Í erindi Birnu Sigurbjörnsdóttir, íbúa við Öldugötu, er hertum reglum og aukinni gjaldtöku vegna bílastæða í íbúagötum mótmælt. Bendir hún á að um sé að ræða stórherta gjaldtöku og óhagræði fyrir fólk í umræddum íbúagötum. Margir íbúar eigi þess ekki kost að kaupa bílastæðakort vegna óbilgjarnra reglna. Með nýjum reglum muni draga úr áhuga fólks að heimsækja ættingja og vini í umræddum hverfum. Ljóst er að athugasemdir Birnu eru lýsandi fyrir viðhorf fjölmargra íbúa í Vesturbænum og Austurbænum sem þurfa nú að greiða háar fjárhæðir fyrir að leggja bifreið við heimili sín. 8. liður: Lagt er til að kvörtun Önnu Vigdísar Magnúsardóttur, dags. 10. september 2023, varðandi almenningssamgöngur í Reykjavík verði ekki einungis kynnt borgarráðsfulltrúum heldur einnig send Strætó bs. til upplýsingar með tilmælum um að erindinu verði svarað. 9. liður: Tekið er undir óskir forsvarsmanna Oddfellowhússins, dags. 21. ágúst 2023, um að ráðist verði í lagfæringar á götu, gangbraut og ljósastaur við Vonarstræti, á milli Ráðhússins og Oddfellowhússins.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið yfirlitsins: 

    Kvörtun íbúa vegna samþykktar borgarráðs um breytingu á bílastæðagjöldum. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir þessa kvörtun sem segir að eigi að vera til hagsbóta fyrir íbúa í viðkomandi götum. Í þessu eru engar hagsbætur heldur er hér verið að leggja auka gjaldtöku á þá sem búa við ákveðnar götur og má segja að með þessu sé verið að mismuna fólki. Margir íbúar eiga ekki kost á að kaupa bílastæðakort vegna óbilgjarnra reglna um kortin eins og segir í kvörtuninni. Fólki er mismunað eftir því hvar það býr í Reykjavík. Þeir sem búa í miðbæ og nágrenni greiða bílastæðagjald fyrir bíl sinn og fæstir eiga einhver einkastæði við hús sín. Eldra fólk og fólk með hreyfihömlun hefur átt erfitt með þessar breytingar. Þessar breytingar koma niður á félagslega þættinum hjá sumum, tengslum og samskiptum við aðra eins og svo skýrlega kom fram í erindi Íbúasamtaka Miðborgar, dags. 11. júlí 2023, um breytingar á bílastæðagjöldum í miðbænum. Í bókun segir „hækkun á bílastæðagjöldum og lenging á gjaldskyldutíma er fjárhagslega íþyngjandi fyrir íbúa í hverfinu en ekki síður er það áhyggjuefni að þessi nýja gjaldtaka á kvöldin og á sunnudögum mun gera gestum íbúa erfitt fyrir varðandi heimsóknir”.

    Fylgigögn

  31. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS23090013

    Fylgigögn

  32. Lagðar fram styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði utan umsóknartíma.

    Öllum styrkumsóknum er hafnað.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS23050047

    Fylgigögn

  33. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Rúmir þrír mánuðir eru nú liðnir síðan fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur var síðast lögð fyrir borgarráð, þ.e. 8. júní. Var þar um að ræða fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 22. maí og er það jafnframt síðasta fundargerð sem birt hefur verið á heimasíðu félagsins. Hefur stjórn félagsins þó fundað a.m.k. þrisvar sinnum frá því í maí. Í febrúar 2008 samþykkti stjórn Orkuveitu Reykjavíkur tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að fundargerðir stjórnar félagsins yrðu gerðar opinberar og birtar á heimasíðu fyrirtækisins. Hefur því verklagi verið fylgt síðan og er þannig löng hefð fyrir því að fundargerðir stjórnar Orkuveitunnar séu gerðar opinberar, birtar á heimasíðu félagsins og jafnframt lagðar fram í borgarráði Reykjavíkur. Spurt er: 1. Af hverju hefur verið brotið gegn skýrri samþykkt stjórnar Orkuveitunnar um að fundargerðir hennar skuli birtar sem og gegn ákvæði í eigendastefnu um að Orkuveitu Reykjavíkur skuli vera til fyrirmyndar um upplýsingagjöf til almennings? 2. Hver ber ábyrgð á þessari ákvörðun? 3. Hefur stjórn Orkuveitunnar tekið einhverjar ákvarðanir undanfarna þrjá mánuði sem ekki er talið æskilegt að almenningur, borgarfulltrúar og fjölmiðlar fái vitneskju um? 4. Óskað er eftir því að bætt verði úr þessari upplýsingatregðu með því að umræddar fundargerðir verði tafarlaust lagðar fyrir borgarráð og þær jafnframt birtar á heimasíðu Orkuveitunnar eins og löng hefð er fyrir.

    Vísað til umsagnar Orkuveitu Reykjavíkur. MSS23010018

  34. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Ábendingar hafa borist um að til skoðunar sé að draga úr starfsemi félagsmiðstöðva velferðarsviðs í Árbæjarhverfi, Háaleitishverfi og Laugardal og leggja jafnvel einhverjar þeirra niður. Á vegum velferðarráðs sé nefnd að störfum, sem hafi slíkar hugmyndir til skoðunar. Óskað er eftir upplýsingum um þessa vinnu og þá kosti sem eru til skoðunar vegna fyrirhugaðra breytinga. Lokun einnar eða fleiri félagsmiðstöðva velferðarsviðs væri óæskileg. Slíkar lokanir hefðu mikla þjónustuskerðingu í för með sér enda gegna þessar félagsmiðstöðvar mikilvægu hlutverki í viðkomandi hverfum, ekki síst fyrir eldri borgara og fatlað fólk.

    Vísað til meðferðar velferðarráðs. MSS23090083

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins mótmæla því að fyrirspurn um félagsmiðstöðvar velferðarráðs sé vísað til meðferðar velferðarráðs. Um mikilvægt málefni er að ræða og því full ástæða til að borgarráð fái upplýsingar um það sem fyrst og taki það til meðferðar á sínum vettvangi.

  35. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins:

    Fyrirspurnir vegna áhrifa og afleiðinga raka og myglu í húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur. Fulltrúi Flokks fólksins hefur nýlega lagt fram tillögu í borgarstjórn um að málefni þeirra sem hafa orðið illa úti vegna myglu og raka í húsnæði á vegum borgarinnar verði skoðuð og metið hvort greiða ætti einhvers konar skaðabætur, t.d. styrk vegna lækniskostnaðar. Fulltrúi Flokks fólksins er að þessu sinni með fyrirspurnir vegna áhrifa og afleiðinga myglu í húsnæði Orkuveitunnar. Bæjarháls 1, hús Orkuveitu Reykjavíkur, var opnað árið 2000. Á gólf var lagt viðarparket á raka gólfplötu eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst næst. Óskað er upplýsinga um hver tók ákvörðun um þessa aðgerð og bar á henni ábyrgð. Þegar ljóst var að verulegur raki og mygla væri í húsnæði Orkuveitunnar árin 2005/2006 var ákveðið að tilkynna málið ekki til Vinnueftirlits ríkisins. Hver tók þessa ákvörðun og hver/hverjir bera á henni ábyrgð? Óeðlilega mikil veikindi hafa verið hjá starfsmönnum frá þessu tímabili sem rekja mætti til ástands hússins. Hvað margir starfsmenn veiktust vegna raka, myglu og gró og hver voru afdrif þeirra? Hvað margir af þeim starfsmönnum sem unnu í húsinu á þessum tíma starfa þar ennþá? Hvernig voru prófanir/athuganir gerðar á Bæjarhálsi 1 á árunum 2013-2015 og hverjir framkvæmdu þær og hvað var skoðað fram til þess tíma að Efla verkfræðistofa hóf skoðun á húsnæðinu í ágúst/september 2015? Voru tekin sýni úr efnum, s.s. veggjum, parketi o.s.frv.? Óskað er upplýsinga um hvernig tekið hefur verið á málum af þessu tagi hjá Orkuveitu Reykjavíkur síðustu ár. Ákveðinn hópur fólks sem starfaði hjá Orkuveitu Reykjavíkur átti ekki afturkvæmt á vinnumarkað eftir alvarlegt heilsu- og fjárhagstjón vegna veikinda sem staðfest var af læknum að rekja mátti til myglu og raka í húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur. Hafa þessi einstaklingar fengið hlustun og skilning yfirmanna sinna? Hafa þeir fengið einhverjar bætur? Hvernig hyggst Orkuveitu Reykjavíkur bregðast við frekari kröfum sem fram kunna að koma vegna mála af þessu tagi? Hvað margir hafa óskað eftir að fá skaðabætur frá Orkuveitu Reykjavíkur vegna veikinda sem rekja má til myglu og raka í húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur sl. 10 ár?

    Vísað til umsagnar Orkuveitu Reykjavíkur. MSS23090081

  36. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarráð beini því til skóla- og frístundasviðs að skoða hvernig hægt sé að loka skólabyggingum fyrir öllum þeim sem ekki eiga þangað erindi eða eru í boði skólanna sjálfra. Þeir einu sem eiga erindi í skóla eru starfsfólk, börnin og foreldrar. Aðrir sem eiga erindi s.s. sem á fundi hafa fengið um það boð. Í raun eru dyr leik- og grunnskóla opnar öllum eins og fyrirkomulagið er dag. Hver sem er getur í raun gengið inn óáreittur. Vísað er í að niðurstöður skólaþings sem fram fór í Austurbæjarskóla á síðasta skólamisseri sem sýna að nemendur í Austurbæjarskóla telja aðgengi inn í skólann of auðvelt. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt til að komið verði upp öryggismyndavélum þar sem börn koma saman til náms og starfa. Sumir skólar eru komnir með slíkan búnað. Öryggis- og eftirlitsmyndavélar eru vissulega engin hindrun en hafa fælingarmátt og skólayfirvöld geta brugðist fyrr við ef óboðinn gestur er mættur á svæðið. Umræða um öryggisverði í grunnskólum hefur vissulega komið til tals og vill fulltrúi Flokks fólksins sjá þá umræðu fá meiri dýpt og skoðun. Það skiptir miklu máli að starfsfólk okkar sé öruggt í því umhverfi og fylgi þeim viðmiðum sem menntamálaráðuneytið og sveitarfélagið boðar.

    Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs. MSS23090082

Fundi slitið kl. 12:19

Dagur B. Eggertsson Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Kjartan Magnússon Magnús Davíð Norðdahl

Marta Guðjónsdóttir Pawel Bartoszek

Sanna Magdalena Mörtudottir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 14.9.2023 - Prentvæn útgáfa