„Fólk má fara að hlakka til“- spennandi uppbygging á skíðasvæðunum

Framkvæmdir Heilsa

Stórvirkar vinnuvélar hafa verið í gangi í Bláfjöllum undanfarið

Þótt skíða- og brettaiðkun sé líklega fáum efst í huga þessa sumardaga, er líf og fjör í Bláfjöllum. Stórvirkar vinnuvélar brölta um fjallstoppinn og unnið er hörðum höndum að spennandi uppbyggingu.

 

Sveitarfélögin Reykjavíkurborg, Mosfellsbær, Seltjarnarnesbær, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarbæ og Garðabær, sem sameiginlega reka skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins, undirrituðu árið 2018 samkomulag um endurnýjun skíðasvæðanna og nú eru framkvæmdir komnar á fullt. „Það er verið að reisa tvær nýja stólalyftur hér í Bláfjöllum,“ segir Magnús Árnason, framkvæmdastjóri skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins. Áætlaður kostnaður vegna framkvæmdanna á árunum 2019-2026 er um 5,1 milljarður króna. Kostnaðarskipting sveitarfélaganna fer eftir íbúafjölda og gert er ráð fyrir að hlutur Reykjavíkurborgar sé um 56% kostnaðarins. „Í raun hefur ekkert verið gert síðan árið 2004, þegar Kóngurinn kom. Nú er verið að reisa nýja Drottningu og nýjan Gosa og þetta hefur gengið mjög vel. Útboðið fór fram í haust og nú eru verktakar á fullu á svæðinu, uppsteypa í gangi og reisingarteymi frá lyftuframleiðandanum Doppelmayr er væntanlegt á svæðið. Framkvæmdirnar hófust um leið og vetur kvaddi og hér verður allt á fullu fram á haust. Báðar nýju lyfturnar verða reistar í sumar og í haust fer af stað rafmagnsvinna, að setja vírinn á og setja upp stóla. Gosinn verður afhentur í nóvember á þessu ári og Drottningin í síðasta lagi í nóvember á næsta ári.“ 

Skíðaiðkendur mega eiga von á breytingu strax þegar opnað verður í vetur því þá verður Gosinn kominn í notkun og segir Magnús þá lyftu auka fjölbreytni í fjallinu verulega. „Með henni fáum við inn bratta hlutann á endanum á Bláfjallahorni, krefjandi brekkur, en höldum jafnframt öllum leiðunum sem fylgdu gamla Gosanum.“ 

Skíðaganga ört vaxandi íþrótt

Tvær nýjar stólalyftur í Bláfjöllum eru aðeins hluti af áætluninni því von er á nýrri stólalyftu í Skálafelli og snjóframleiðslu á báðum svæðunum, í Bláfjöllum árið 2023 og Skálafelli 2025. Síðar verður uppfærð stólalyfta í Eldborgargili Bláfjalla og bætt við topplyftu í Skálafell, en þar er um að ræða diskalyftu sem flytja mun fólk langleiðina upp að mastrinu á toppi fjallsins. „Framtíðarsýnin kveður svo á um smíði nýrra þjónustumiðstöðva á báðum svæðunum og þriðja áfanga í snjóframleiðslu, það er framleiðslu á suðursvæði Bláfjalla,“ segir Magnús. Sú snjóframleiðsla mun þá einnig nýtast göngusvæðinu. „Veruleg uppbygging mun eiga sér stað þar og við eigum von á frekari snjógirðingum, meiri lýsingu og betri troðara þangað. Núna var líka að ljúka útboði á góðum salernum sem fara á suðursvæðið í sumar. Framtíðarsýn fyrir skíðagönguna er sterk enda er hún verulega vaxandi sport.“ 

Innspýting fyrir skíðafólk

Stórvirkar vinnuvélar eru ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar hugsað er um fjallagarpa og dálitlar æfingar þurfti til að koma steypubílunum á topp fjallsins. Allt hefur þó gengið vel. Sú staðreynd að Bláfjöll eru á jaðri vatnsverndarsvæðis flækir aðeins málin og þar má til dæmis ekki sá grasfræjum af verndarsjónarmiðum. „Það þurfti að ganga frá öllum endum hvað þessi mál varðar áður en farið var í útboð fyrir framkvæmdir og það tók sinn tíma,“ segir Magnús. Verndarmálin hafa einnig áhrif á veginn að Bláfjallasvæðinu, sem stundum hefur reynst fólki erfiður yfirferðar. „Hann er malbikaður en við megum ekki salta hann. Því er í raun ekkert hægt að gera nema moka hann, sem er auðvitað alltaf gert. Svo köllum við stundum út sandbíl fyrir erfiðustu kaflana en það getur tekið langan tíma að fá hann og hann getur aðeins tekið stuttan vegkafla í einu,“ útskýrir Magnús. 

Hann segir gæta töluverðrar tilhlökkunar hjá iðkendum. „Síðan samþykki fékkst fyrir framkvæmdunum árið 2018 höfum við verið á ótrúlegri vegferð. Margar hindranir hafa verið í veginum og ég held að margir fagni því mjög að nú sé þetta loksins komið í gang,“ segir hann og brosir. „Fólk má fara að hlakka til, þetta verður veruleg innspýting fyrir skíðafólk í landinu. Ný lyfta í Skálafell mun til dæmis breyta öllu þar; hún mun ganga tvöfalt hraðar og taka tvöfalt meiri fjölda fólks en sú gamla. Skíðasvæðin hér á suðvesturhorninu eru að færast upp á nýtt stig og iðkendum heldur eflaust áfram að fjölga.“ 

Draumurinn að verða að veruleika

Magnús hefur stýrt skíðasvæðunum frá árinu 2007 og segir starfið afar fjölbreytt. „Það er það sem gerir þetta skemmtilegt. Hér er unnið í klóaksmálum og svo kannski fjárhagsáætlun sama daginn, verkefnin eru af ýmsum toga. Helsta áskorun mín er að manna svæðið en svo er auðvitað fullt af krefjandi hlutum sem starfsfólkið er búið að sinna þegar ég mæti til vinnu, eins og að troða leiðina hingað upp eftir um miðjar nætur í brjáluðu veðri, brjóta ís af lyftum og fleira,“ segir hann. „Um helgar mæta þau klukkan sex, svo mætum við hin á skrifstofuna klukkan níu og gestirnir klukkan tíu og þá er búið að vinna mikið verk.“ 

Magnús segir framtíðardrauminn um fyrsta flokks skíðasvæði loksins að raungerast. „Ég hef haft að markmiði að fylgja þessum verkefnum að minnsta kosti úr vör. Hvort sem ég hætti eftir það eða held áfram, þá ætti ég að minnsta kosti að geta gengið stoltur frá borði.“