Svarbréf velferðarsviðs birt í stafrænum pósthólfum

Ráðgjafi á velferðarsviði talar í síma, tölvuskjár í forgrunni.

Flest svarbréf vegna umsókna um þjónustu frá velferðarsviði eru nú rafræn og munu  birtast í stafrænum pósthólfum, bæði á Mínum síðum Reykjavíkurborgar og á Ísland.is. Bréfin verða ekki lengur send í bréfpósti eða í tölvupósti. Rafræn svarbréf eru hluti af stafrænni vegferð sem Reykjavíkurborg hefur fetað á síðastliðnum árum. Þá eru notkun þeirra eitt af markmiðum velferðarstefnunnar sem unnið er eftir á velferðarsviði.  

Umsækjendur verða látnir vita með tölvupósti eða sms-skilaboðum þegar svar við umsókn eða erindi birtist í stafrænu pósthólfi. Umsækjanda verður á sama tíma bent á að hafa samband við eina af miðstöðvum Reykjavíkurborgar eða þjónustuver ef viðkomandi getur ekki nýtt rafræn skilríki en þau eru nauðsynleg til að geta opnað rafrænt pósthólf.   

Lausn fundin ef fólk er ekki með rafræn skilríki

Lögð er áhersla á að mæta þörfum umsækjenda sem ekki geta nýtt sér rafræn skilríki og fundin lausn sem hentar þeim. Hægt er að sækja um þjónustu og fá fjölbreytta ráðgjöf og stuðning á miðstöðvum Reykjavíkurborgar. Starfsfólk þar getur halað niður svarbréfum, prentað þau út og afhent eða sent þau í bréf- eða tölvupósti, óski umsækjandi eftir því. 

Öruggari leið til að miðla gögnum

Rafræn svarbréf eru unnin samkvæmt lögum um stafrænt pósthólf en markmið þeirra er meðal annars að stuðla að skilvirkni í opinberri þjónustu, auka gagnsæi og tryggja örugga leið til að miðla gögnum til einstaklinga. 

Orðalagi og útliti svarbréfa hefur einnig verið breytt, í samræmi við hönnunarstaðal Reykjavíkurborgar og þær áherslur að allur texti eigi að vera traustur, vingjarnlegur og auðskiljanlegur. 

Svarbréf vegna flestra þjónustuþátta komin á rafrænt form

Þau bréf sem þegar eru komin í rafrænt form og munu innan skamms birtast í stafrænum pósthólfum eru vegna eftirfarandi þjónustu: 

  • Akstursþjónusta eldra fólks og fatlaðs fólks 
  • Félagslegt leiguhúsnæði 
  • Fjárhagsaðstoð til framfærslu og heimildagreiðslur 
  • Heimastuðningur 
  • Sérstakur húsnæðisstuðningur (væntanlegt haustið 2024) 
  • Stoð- og stuðningsþjónusta