Sumarstörf fyrir 17 ára ungmenni í viðkvæmri stöðu

Atvinnumál

Reykjavík loftmynd, Hallgrímskirkja o.fl.

Boðið verður upp á allt að 50 sumarstörf á vegum Reykjavíkurborgar í sumar fyrir 17 ára einstaklinga í viðkvæmri stöðu. Þetta var samþykkt í borgarráði í dag og er áætlaður heildarkostnaður vegna 50 ráðninga í átta vikur, 50,6 milljónir króna. Markmiðið er inngilding hópsins á íslenskan vinnumarkað og að Reykjavíkurborg styðji ungt fólk í viðkvæmri stöðu í fyrstu skrefum í atvinnuleit og sýni þannig samfélagslega ábyrgð.

Þróunarverkefni í sumar

Undanfarin ár hefur borgarráð samþykkt fjármagn til sköpunar viðbótarsumarstarfa fyrir 17 ára einstaklinga í Reykjavík, sem sækja um sumarstörf en fá ekki. Hafa þetta verið um 150 til 200 störf, í sex til átta vikur. Starfshópur um fyrirkomulag til framtíðar á sumarstörfum fyrir 17 ára einstaklinga skilaði skýrslu sinni í janúar síðastliðnum og eftir yfirferð á tillögum hans og mat á kostnaði og núverandi stöðu á vinnumarkaði var ákveðið að fara í þróunarverkefni í sumar og leggja áherslu á að skapa 50 störf á fagsviðum borgarinnar fyrir 17 ára ungmenni í viðkvæmri stöðu.

Störfin útfærð með tilliti til þarfa hópsins

Þróunarverkefnið mun nýtast vel við kortlagningu og enn frekari skoðun á framtíðarfyrirkomulagi sumarstarfa fyrir þennan hóp, sem fallið hefur milli skips og bryggju undanfarin ár og ekki fengið störf við hæfi. Verða störfin útfærð með tilliti til þarfa hópsins svo þau verði brú inn í almenn sumarstörf þegar viðkomandi einstaklingar ná 18 ára aldri, svo sem með einföldun starfa og með því að bjóða upp á störf með sveigjanleika. Lagt er upp með að ungmennin fari í undirbúningsviðtöl þar sem kortleggja má hvers konar störf henta. Þá verður lögð áhersla á fræðslu um réttindi og skyldur á vinnumarkaði, undirbúning fyrir atvinnuleit og helstu atvinnuleitarmiðla.

Stuðningur í boði fyrir þau sem á þurfa að halda

Óljóst er hve hópurinn er stór þar sem 17 ára ungmenni eru komin úr grunnskóla og verður umfang hans kannað markvisst í samstarfi við þjónustumiðstöðvar borgarinnar. Haft verður samband við aðila sem vinna með ungmennum sem standa höllum fæti, svo sem samræmda miðstöð flóttafólks, þjónustumiðstöðvar, námsráðgjafa í framhaldsskólum, atvinnutengt nám og Hitt húsið. Hægt er að vera í sambandi við mannaudur@reykjavik.is varðandi frekari upplýsingar um verkefnið.

Kostnaður við ráðningu 50 17 ára ungmenna í átta vikur er um 48 milljónir króna en gera þarf ráð fyrir viðbótarkostnaði, svo sem vegna túlkaþjónustu og stuðnings við fyrstu skref inn á vinnumarkaðinn. Áætlaður heildarkostnaður er því tæpar 50,6 milljónir króna.