Sumardagurinn fyrsti – Barnamenningin blómstrar í borginni
Á morgun, Sumardaginn fyrsta, þann 25. apríl, verða frumlegir og fjölbreyttir viðburðir Barnamenningarhátíðar Reykjavíkurborgar í boði um alla borg.
Big Bang
Í Hörpu verður boðið upp á evrópsku tónlistarhátíðina BIG BANG. Tónlistarhátíðin hefur það að markmiði að setja upplifun barna í forgrunn. Harpa fyllist af börnum sem fá að njóta fjölbreyttra tónlistarviðburða. Boðið verður upp á tónleika, innsetningar og tónlistartengdar smiðjur undir handleiðslu fagfólks í tónlist. Celebs verða með tónleika þar sem þau flytja lag Barnamenningarhátíðar í ár, Spyrja eftir þér. Stuðpinnarnir og systkinin Keli, Katla og Valgeir eru þekkt fyrir skemmtilega sviðsframkomu og verða í skrautlegum búningum.
Allskonar í tilefni sumarkomu
Skátafélagið Ægisbúar verða með afmælisdagskrá í Vesturbænum og fagna sumarkomunni í leiðinni. Boðið verður upp á hoppukastala, fjölskylduskemmtun og síðdegis verður svo sérstök afmæliskvöldvaka.
UNGI er alþjóðleg sviðslistahátíð fyrir unga áhorfendur í Reykjavík. Opnun hátíðarinnar verður í Ráðhúsi Reykjavíkur á morgun þar sem breski sviðslistahópurinn Daryl&Mimbre bjóða upp á danssýninguna Sjáðu mamma, engar hendur! sem fjallar um vináttu og þroska á fallegan hátt.
Byggingarlist, Breiðholtið og borgin okkar er sýning í anddyri Norræna hússins. Á sýningunni má sjá tilraunir, rannsóknir og módel af húsum framtíðarinnar, séð með augum tíu ára barna.
Börn endurskapa þjóðminjar – sýning í Þjóðminjasafninu. Börn í 5.,6. og 7. bekk Grandaskóla hafa í vetur unnið að listaverkum og líkönum þar sem þau velta fyrir sér þjóðminjum og sögu þjóðarinnar. Sumar þjóðminjarnar eru færðar í nútímabúning á meðan aðrar fá á sig ævintýralegan og stundum hrikalegan blæ.
Það sem vantar – Myndlistarsýning Hinsegin félagsmiðstöðvarinnar á Kjarvalsstöðum. Þar verða sýnd verk eftir unglinga Hinsegin félagsmiðstöðvarinnar. Listaklúbbur félagsmiðstöðvarinnar hefur heimsótt Listasafn Reykjavíkur reglulega í vetur þar sem þau hafa rýnt í listaverk, speglað sig í þeim og velt því fyrir sér hvaða skilaboðum þau vilja koma áleiðis til gesta í gegnum eigin listsköpun.
Krakkar sýna leikrit er skemmtileg fjölskyldusýning á Nýja sviði Borgarleikhússins þar sem boðið verður upp á tvö stutt leikrit sem eru bæði samin og leikin af krökkum á aldrinum 12-16 ára.
Vaxtaverkir er ný sýning sem opnar í Árbæjarsafninu sem fjallar um sögu skólagöngu barna í Reykjavík. Dýrmætum safngripum, ljósmyndum og frásögnum frá fyrri tíð er miðlað á lifandi og litríkan hátt til nýrra kynslóða.
Þetta er aðeins brotabrot af því sem boðið er upp á í dagskrá Barnamenningarhátíðar í Reykjavík, aðgangur að öllum viðburðum hátíðarinnar er ókeypis.
Öll velkomin.