Styttist í verklok á Hlemmsvæðinu

Framkvæmdir

Rauðarárstígur 12.10.23.

Framkvæmdir Reykjavíkurborgar og Veitna við gatnagerð nýrra gatna og torgsvæðis við Hlemm gengu vel í september og nú í október hyllir undir lok þeirra.

Nú er unnið að lokafrágangi eftir framkvæmdir á Rauðarárstíg frá Bríetartúni að Hverfisgötu og á Laugavegi frá Hlemmi að Snorrabraut en um er að ræða hluta af endurnýjun á Hlemmsvæðinu.

  • Á Rauðarárstíg á eftir að ganga frá gróðri og setja upp götugögn eins og bekki.
  • Á Laugavegi er verið að ganga frá aðlögun að inngöngum sunnanmegin og gróðursetja í beð ásamt því að ljósastaurar fara upp í næstu viku.

Hlemmsvæðið mun því fljótlega komast í fulla notkun á ný í glæsilegu umhverfi.

Snjalldreifikerfi fyrir matvöruverslanir á netinu

Á Rauðarárstíg við Hverfisgötu hefur verið sett upp sjálfsafgreiðslustöð Pikkoló með 80 hólfum og CO2 kælikerfi. Fólk kaupir kælivörur á netinu með appi og fær það sent í box á Pikkolóstöð og getur nálgast vöruna hvenær sem er. Mikil áhersla er lögð á að afgreiðslustöðvar af þessu tagi séu aðlaðandi í borgarumhverfinu og falli vel að skipulagi framtíðarinnar, þar sem íbúar þurfa ekki að fara langt til að afla sér nauðsynja. Fyrsta Pikkoló stöðin í Reykjavík var sett upp í júní í Vatnsmýrinni við Grósku. 

Mjölnisholt

Framkvæmdir í Mjölnisholti fela í sér endurnýjun götulagna, gatnagerðar og yfirborðsfrágangs. Framkvæmdir þar eru á áætlun og reiknað með að hægt sé að ljúka þeim í lok nóvember. Búið er að opna aftur aðgengi að bílakjöllurum fyrir íbúa.