Stytting vinnuviku eykur lífsgæði

""

Vinna minna og allir vinna var yfirskrift opins fundar um tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar í Ráðhúsi Reykjavíkur. Þar voru kynntar niðurstöður rannsókna sem gerðar hafa verið á áhrifum styttingu vinnuvikunnar á fjölskyldulíf og jafnrétti hjá starfsfólki hjá ríki og borg

Litið var á eina megindlega rannsókn og þrjár kannanir sem gerðar voru með sex mánaða millibili til að kanna áhrif tilraunaverkefnis um styttingu vinnuvikunnar. Mæld var kulnun í starfi, streita, jafnvægi vinnu og einkalífs og viðhorf til starfs og vinnustaðar.

Niðurstöður eru samhljóða en bæði karlar og konur tala um að styttri vinnuvika hafi auðveldað þeim að samræma vinnu og einkalíf og minnkað það álag sem er á heimilinu. Í rannsóknum mælist marktækur munur á vinnuálagi, starfsanda og jafnvægi milli vinnu og einkalífs.

Viðmælendum ber saman um að starfsánægja og starfsandi verður meiri, minna er um útréttingar í vinnutíma og þeir sem eiga börn á leikskóla upplifa meira svigrúm.  Margir orðuðu það svo að það gengi betur að „púsla saman deginum“. Viðmælendur upplifðu líka bætta líkamlega og andlega heilsu.

Konur virðast ennþá oftast vera verkstjórar á heimilinu en karlar taka þó meiri þátt í húsverkum og uppeldi barna sinna með styttingu vinnuvikunnar. Þeir voru ánægðir með að taka þátt í hversdagslegum verkefnum barna sinna, svo sem  að sækja þau í dagvistun. Konur, sem tóku þátt, fundu lítinn mun á umfangi húsverka né töldu að þær gerðu meira en áður.

Tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar hófst fyrst á árið 2015 með þátttöku Reykjavíkurborgar en árið 2017 hófst annað tilraunaverkefni á vegum ríkisins. Þær athuganir sem vitnað er í hér að ofan eru frá þessum fyrri áföngum verkefnisins.

Í ár hófst annar áfangi tilraunaverkefnisins um styttingu vinnuvikunnar með fleiri þátttakendum. Nú taka þátt í því fimm ríkisstofnanir og u.þ.b. 100 starfsstöðvar borgarinnar. Allt ferlið verður metið og kannað til þess að sjá hvað stytting vinnuvikunnar þýðir fyrir þátttakendur og vinnustaði.

Mælingar benda til þess að styttri vinnuvika komi ekki niður á afköstum starfsfólks og að  ávinningurinn með því að vinna minna sé bætt líðan og samskipti bæði í vinnu og heima.

Skýrsla um styttingu vinnuvikunnar – Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri

Streymi frá opnum fundi um styttingu vinnuvikunnar