Vinna minna og allir vinna | Reykjavíkurborg

Vinna minna og allir vinna

mánudagur, 15. október 2018

Reykjavíkurborg stendur fyrir opnum fundi miðvikudaginn 17. október nk. í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem fjallað verður um niðurstöður rannsóknar á tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um styttingu vinnuvikunnar á fjölskyldulíf og jafnrétti kynjanna. Fundurinn hefst kl. 12:15 og stendur í klukkustund.

  • Ráðhús Reykjavíkur.
    Ráðhús Reykjavíkur.

Tilraunaverkefnið hófst í mars 2015 og náði þá til starfsmanna barnaverndar Reykjavíkur og skrifstofu þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts. Verkefnið gaf góða raun og haustið 2016 bættust nýjar starfsstöðvar við verkefnið en það voru leikskólinn Hof, Laugardalslaug, heimaþjónusta og heimahjúkrun í efribyggð og allar hverfis- og verkbækistöðvar borgarinnar.

Síðastliðið haust var ákveðið að fara í annan áfanga tilraunaverkefnisins sem fólst meðal annars í því að gefa öllum starfsstöðum borgarinnar kost á að sækja um að taka þátt í verkefninu að undangengnu samtali yfirmanna og almennra starfsmanna á hverjum stað. Annar áfangi hófst í febrúar 2018 og nær til um 2000 borgarstarfsmanna á hátt í hundrað starfsstöðum.

Í framhaldinu ákváðu Reykjavíkurborg og BSRB að kanna sérstaklega áhrif styttingar vinnuvikunnar á fjölskyldulíf og jafnrétti kynjanna. Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri var fenginn til að halda utan um vinnuna sem byggir meðal annars á viðtölum við starfsmenna borgarinnar sem tekið hafa þátt í tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar frá árinu 2015 sem og þátttakendur í tilraunaverkefni ríkisins sem fór af stað árið 2017. Afrakstur þessarar vinnu verður kynntur á fundinum nk. miðvikudag.

Dagskrá:

Boðið verður upp á léttar veitingar frá kl. 12:00

Opnunarávarp flytur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs.

Áhrif styttingar vinnuvikunnar á fjölskyldulíf og jafnrétti kynjanna, erindi Arnars Þórs Jóhannessonar, sérfræðings hjá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri

Næstu skref,  erindi Magnúsar Más Guðmundssonar, formanns stýrihóps um tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar

Umræður

Fundarstjóri er Ragnhildur Ísaksdóttir, starfsmannastjóri Reykjavíkurborgar