Starfsfólk Reykjavíkurborgar ánægt í starfi

Stjórnsýsla

Í könnuninni, sem gerð var í lok árs kemur fram að ríflega 86% starfsfólks Reykjavíkurborgar er ánægt í starfi.
Loftmynd af Reykjavík í snjó.

Reykjavíkurborg tók nú í fyrsta sinn þátt í könnuninni Stofnun ársins fyrir starfsfólk óháð félagsaðild en áður voru eingöngu félagsfólk Sameykis sem tók þátt. Tilgangur könnunarinnar er að efla starfsumhverfi félagsfólks og starfsfólks í almannaþjónustu. Hún veitir jafnframt mikilvægar upplýsingar um styrkleika og áskoranir í starfsumhverfi vinnustaða, stofnana og starfsstaða starfsfólki til hagsbóta.

Í könnuninni, sem gerð var í lok árs kemur fram að ríflega 86% starfsfólks Reykjavíkurborgar er ánægt í starfi. Niðurstöður sýna að á heildina litið upplifir starfsfólk starfsstaðinn Reykjavíkurborg sem góðan og metnaðarfullan vinnustað sem hefur góða ímynd og þar ríkir góður starfsandi.

Könnunin var lögð fyrir dagana 8. nóvember – 23. desember á síðasta ári. Alls voru ríflega 30 þúsund þátttakendur í könnuninni 2022 – af þeim svöruðu 16.300 þar af voru 4.838 starfsfólk Reykjavíkurborgar.

Mjög jákvæðar niðurstöður í heildina litið

Á heildina litið eru niðurstöður könnunarinnar mjög jákvæðar. 86% starfsfólks Reykjavíkurborgar líður vel í starfi, 89% telja að allt starfsfólk njóti jafnræðis óháð aldri, kyni, uppruna, kynhneigð,  trúar- eða lífsskoðunum og 85,2% starfsfólks segist vera stolt af starfsstaðnum sínum.

Starfsfólk Reykjavíkurborgar virðist ánægt með stjórnun á sínum starfsstað en 79% starfsfólks telja að vinnustað sínum sé vel stjórnað og 82,4% segjast bera fullt traust til stjórnenda á sínum starfsstað og 82,4% segjast fá stuðning og hvatningu frá næsta yfirmanni. Þá er 66,2% starfsfólks ánægt með styttingu vinnuvikunnar.

Lóa Birna Birgisdóttir, sviðsstjóri á mannauðs- og starfsumhverfissviði, segir niðurstöður könnunarinnar gefa góða innsýn í afstöðu starfsfólks til Reykjavíkurborgar. „ Það eru ákveðin sóknarfæri til að nýta niðurstöðurnar til að skapa enn betra starfsumhverfi fyrir hæfileikaríkt og metnaðarfullt starfsfólk sem vinnur í þágu borgarbúa“.

Reykjavíkurborg hefur mælt viðhorf starfsfólks til starfsumhverfis, samskipta og stjórnunarhátta reglulega frá árinu 2005. Farið verður yfir niðurstöður með starfsfólki á hverjum starfsstað á næstunni.

Niðurstöður í fundargerð borgarráðs