Borgarráð - Fundur nr. 5696

Borgarráð

Ár 2023, fimmtudaginn 16. febrúar, var haldinn 5696. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Einar Þorsteinsson, Alexandra Briem, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Einnig sat fundinn áheyrnarfulltrúinn Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Diljá Ragnarsdóttir, Ebba Schram, Ívar Vincent Smárason og Þorsteinn Gunnarsson. Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. febrúar 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 8. febrúar 2023 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Kirkjusands vegna lóðarinnar nr. 2 við Kirkjusand, ásamt fylgiskjölum.

    -    Kl. 9:13 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum.

    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. SN220377

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja mikilvægt að hugað sé að gæðum byggðar á nýbyggingarsvæðum, gætt sé að skuggavarpi og birtuskilyrðum. Ítreka fulltrúarnir að betur hefði farið á því að hafa bygginguna fimm hæðir í stað sex. Eins þarf að gæta þess að innviðir verði til staðar fyrir íbúa en nú þegar eru skólar, leikskólar og íþróttafélög hverfisins löngu komin að þolmörkum, líkt og fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa ítrekað bent á.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að öll íbúðauppbygging í borginni miði að því að mæta þeim sem eru í mestri þörf fyrir húsnæði og að byggt verði á óhagnaðardrifnum forsendum til að ná utan um þau sem eru í þörf. Að öðru leyti vísar fulltrúi sósíalista til bókunar sósíalista sem var lögð fram í umhverfis- og skipulagsráði. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í athugasemdum er kvartað yfir ófullnægjandi kynningu. Einnig er kvartað yfir of miklu skuggavarpi. Enda þótt allar byggingar varpi vissulega einhverjum skugga er hér um að ræða vandamál sem tengist of mikilli þéttingu byggðar og þá er það þéttingarstefnan sem er vandamálið. Nefndir eru mögulegir vindstrengir og það er atriði sem á að kanna áður en form bygginga er ákvarðað. Skipulagsyfirvöld sinna þessu atriði lítið sem ekkert með þeim afleiðingum að allt of oft myndast hættulegir vindstrengir nálægt háum byggingum. Um það eru þekkt dæmi í Reykjavík. Í gögnum er ekkert fjallað um þennan þátt sem ætti að vera eitt af aðalatriðunum. Bent er á að leikskóla- og skólamál séu í ólestri í hverfinu. Taka þarf strax á þeim málum. Vonandi verður tekið tillit til þessara athugasemda. Endurskoða þarf samráð og kynningarmál frá grunni.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 13. febrúar 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagðar átta tillögur starfshóps um útfærslu að nýju fyrirkomulagi markaðsmála, viðburða og ferðaþjónustu hjá Reykjavíkurborg í tengslum við þær breytingar sem verða vegna skuldbindingar Reykjavíkurborgar við stofnun Áfangastaðastofu höfuðborgarsvæðisins. Jafnframt eru lögð fram til kynningar drög að erindisbréfi starfshóps um stefnu um upplýsinga- og markaðsmál Reykjavíkurborgar og erindisbréf starfshóps um stefnu um viðburðahald á vegum Reykjavíkurborgar.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

    Óskað er eftir að 2. lið á dagskrá borgarráðs 16. febrúar 2023 verði frestað.

    Frestunartillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands. 

    Tillaga borgarstjóra er samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Eiríkur Björn Björgvinsson, Lóa Birna Birgisdóttir og Eva Bergþóra Guðbergsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. MSS23020078

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er borgarráð að samþykkja útfærslu að nýju fyrirkomulagi markaðsmála, viðburða og ferðaþjónustu hjá Reykjavíkurborg í tengslum við þær breytingar sem verða vegna stofnunar sameiginlegrar áfangastaða- og markaðsstofu á höfuðborgarsvæðinu. Sérstök áhersla verður lögð á þróun, kynningar og markaðsstarf ásamt samlegð og samvinnu hagaðila í ferðaþjónustu. Hér er um tímamót að ræða. Í fyrsta skipti er samvinna á höfuðborgarsvæðinu hvað varðar markaðs- og áfangastaðinn höfuðborgarsvæðið til ferðamanna. Um er að ræða svokallað PPP verkefni þar sem nú munu sameina krafta sína sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, ríkið og atvinnulíf. Á sama tíma er Reykjavíkurborg að sameina tvö svið og skilgreina verkefni og störf. Árið 2023 er yfirfærsluár þar sem stofnun áfangastaðastofu verður innleidd í skrefum og liggur sú áætlun fyrir. Sérstaklega þarf að huga að núverandi verkefnum og yfirfærslu þeirra ásamt því að huga vel að vörumerkinu visitreykjavik.is sem er einn vinsælasti vefur landsins. Með þessari ákvörðun er Reykjavíkurborg að efla mörkun og markaðssetningu borgarinnar ásamt því að treysta sameiginlegri áfangastaða- og markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins fyrir sameiginlegri mörkun og markaðssetningu fyrir ferðamenn. Hér er því um veruleg tímamót að ræða sem vert er að fagna og þakka öllum starfsmönnum sem komu að undirbúningsvinnu fyrir frábært starf.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera athugasemd við vinnubrögðin gagnvart nýju sameinuðu sviði menningar, íþrótta og tómstunda en sviðin voru sameinuð undir þeim formerkjum að halda þeim verkefnum sem nú eiga að færast yfir á miðlæga stjórnsýslu, á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, og hafa fram til þessa skipulagt sameininguna og störf sín út frá þeim forsendum. Jafnframt hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins áhyggjur af því að hér sé verið að hafa af sviðinu mikilvægar rekstrartekjur en í umsögn sviðsstjóra nýs sameinaðs sviðs kemur fram að „markaðs- og viðburðamál eru mjög mikilvægur þáttur í rekstri menningar- og íþróttasviðs og eru á margan hátt límið á hinu nýja sviði og stór hluti af því að sameining sviðsins getur orðið farsæl. Þau eru einnig mjög mikilvægur hlekkur í að tryggja sértekjur sviðsins en fá fagsvið Reykjavíkurborgar eru eins háð sértekjum og menningar- og íþróttasvið.“ Vegna þessara og annarra athugasemda sem krefjast nánari athugunar að mati fulltrúa Sjálfstæðisflokksins óskuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftir frestun á málinu og harma að sú ósk hafi ekki náð fram að ganga.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram trúnaðarmerkt tillaga borgarstjóra um framtíðarhögun starfsemi Borgarskjalasafns Reykjavíkur, dags. 14. febrúar 2023, ásamt fylgiskjölum:
    Frestað.

    Óskar J. Sandholt, Hjálmur Dór Hjálmsson, Bryndís Gunnlaugsdóttir og Helena Óladóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ÞON23010028

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 13. febrúar 2023:

    Lagt er til að skrifstofu borgarstjóra og borgarritara verði falið að hefja viðræður um möguleg lóðarvilyrði á Hólmsheiði. Niðurstöður viðræðnanna verði lagðar fyrir borgarráð til samþykktar.

    Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Óli Örn Eiríksson, Hulda Hallgrímsdóttir og Kristrún Th. Gunnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22120016

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Unnið er að útfærslu deiliskipulags græns atvinnusvæðis á Hólmsheiði. Auglýst var eftir áhugasömum fyrirtækjum af þeirri gerð eða umfangi að taka þurfi mið af sérstökum þörfum þeirra við endanlega útfærslu skipulags svæðisins. Það er mjög jákvætt hvað mikill áhugi reynist á svæðinu og ljóst að hér er um spennandi grænt þróunarsvæði til framtíðar að ræða. Gott er að hafa í huga að hægt verður að veita vilyrði til fjölda annarra fyrirtækja sem vilja vera á svæði með grænum áherslum sem verður hægt að mæta þegar skipulagið liggur fyrir, en flest þeirra þurfa ekki sérstaka lóðahönnun á þessu stigi máls.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að hér sé úthlutað atvinnulóðum í Reykjavík og undirstrika mikilvægi þess að samið verði um lóðaúthlutanir á markaðsforsendum. Mikilvægt er að vinna áfram með þeim aðilum sem ekki fá úthlutað lóð á svæðinu, svo þeir geti fundið starfsemi sinni stað í Reykjavík.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 8. febrúar 2023, sbr. afgreiðslu forsætisnefndar frá 3. febrúar 2023 á bréfi skrifstofu borgarstjóra og borgarritara varðandi styrk frá rannsóknar- og þróunarverkefninu AMIGOS, ásamt fylgiskjölum.

    Óli Örn Eiríksson, Hulda Hallgrímsdóttir og Kristrún Th. Gunnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22090044

    Fylgigögn

  6. Framlagningu á skýrslu regluvarðar Reykjavíkurborgar vegna ársins 2022 er frestað. FAS22020050

  7. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 14. febrúar 2023, að viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2022. Greinargerð fylgir tillögunni.
    Vísað til borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22010035

    Fylgigögn

  8. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 16. febrúar 2023, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023. Greinargerðir fylgja tillögunum.
    Vísað til borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23010016

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Margt í viðaukum að þessu sinni er gott, s.s. kjarabætur skóla- og frístundasviðs og tillaga um að fjárheimildir menningar- og íþróttasviðs hækki um 8.724 þ.kr til að standa undir uppgjörskostnaði til Farfugla vegna afnota langtímagesta af tjaldsvæðinu. Hækka á greiðslur til Jafnlaunastofu vegna orlofsskuldbindinga. Jafnlaunastofa var ein af þeim einingum  sem spratt upp á síðasta kjörtímabili með tilheyrandi kostnaði. Flokki fólksins finnst og hefur nefnt það áður að ekki sé þörf á að hafa Jafnlaunastofu sem sjálfstæða einingu. Vegna afar lítilla rekstrar- og efnahagsumsvifa er vandséð af hverju Jafnlaunastofa er ekki felld undir rekstur félagsþjónustu Reykjavíkurborgar. Slík breyting yrði hagræðing í ljósi fjármálavanda borgarinnar. Einn liður í viðauka er hækkun á árgjaldi hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og er lagt til að fjárheimildir skrifstofu miðlægrar stjórnsýslu verði hækkaðar um 2.913 þ.kr. vegna hækkunar á árgjaldi. Fulltrúi Flokks fólksins er heldur ekki hlynntur hækkun á árgjaldi hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Hér eru um að ræða 2.913 þ.kr.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 13. febrúar 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki sölu á Grandagarði 2, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22070025

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 13. febrúar 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki tilboð í kaup á 15% hlut Reykjavíkurborgar í 2. hæð í Lágmúla 4, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23020010

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 10. febrúar 2023, varðandi yfirlit yfir eignir sem eignasjóður er með á leigu þann 1. febrúar 2023 vegna velferðarsviðs til framleigu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, ásamt fylgiskjölum.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23020009

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 9. febrúar 2023, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 6. febrúar 2023 á tillögu um breytingar á reglum um þjónustu frístundaheimila Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málins.

    Soffía Pálsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS23010162

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks ítreka áhyggjur sínar af því að koma eigi á forgangsreglu í sumarfrístund í 2. grein reglna um þjónustu í frístund því hún leiðir til þess að börnum er mismunað eftir rekstrarformi þeirra skóla sem þau sækja. Einnig stendur til í a lið 3. mgr. 4. gr. að fjölga skilyrðum fyrir forgangi barna með fötlun en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa áhyggjur af því að þarna sé verið að hækka þröskuldinn fyrir forgang barna með fötlun. Ekki fæst séð hvers vegna það þykir nauðsynlegt að skilyrða forgang þessara barna í reglunum sérstaklega við gerð einstaklingsáætlana og ráðningu starfsfólks við hæfi. Slík framkvæmdaatriði eiga að vera á forræði og ábyrgð frístundar enda sjá foreldrar ekki um starfsmannaráðningu á frístundarheimilum borgarinnar. Síðast en ekki síst þykir fulltrúum Sjálfstæðisflokksins það lélegt að grunnþjónustan við börnin í borginni sé látin gjalda fyrir lélega fjármálastjórn meirihlutans, með áframhaldandi styttingu á opnunartíma frístundarinnar, þá bæði breytingin á opnunartímanum sem og lenging lokunartímabilsins.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Reglurnar fjalla m.a. um skilyrði fyrir dvöl barna á frístundaheimilum. Samkvæmt reglum þá mega foreldrar ekki vera í vanskilum við skóla- og frístundasvið vegna dvalar barns/barna þeirra á frístundaheimili. Ýmsir verkferlar eru til staðar sem eiga að tryggja að börn verði ekki af þjónustu en fulltrúi sósíalista telur mikilvægt að orðalaginu í reglum verði breytt til að endurspegla það. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er um að ræða reglur um skilyrði fyrir dvöl barna á frístundaheimilum. Flokki fólksins er umhugað um þá sem eru í vanskilum en samkvæmt reglum þá mega foreldrar ekki vera í vanskilum við skóla- og frístundasvið vegna dvalar barns/barna þeirra á frístundaheimili. Flokki fólksins finnst orðalagið í reglunum ekki endurspegla það.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 9. febrúar 2023, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 6. febrúar 2023 á tillögu um breytingar á reglum um þjónustu félagsmiðstöðva Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málins.

    Soffía Pálsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS23010164

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins árétta vonbrigði sín með að börn sem sækja þjónustu í sértækar félagsmiðstöðvar séu látin gjalda fyrir lélega fjárstjórn meirihlutans með áframhaldandi styttingu á opnunartíma, þá bæði breytingin á opnunartímanum sem og lenging lokunartímabilsins.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram minnisblað mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 12. febrúar 2023, varðandi niðurstöður í könnunni Stofnun ársins.

    Lóa Birna Birgisdóttir og Harpa Hrund Berndsen taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MOS23020006

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Almennt kemur borgin sæmilega út úr þessari könnun og það er virkilega gott að fá þessar niðurstöður. Þó vekur það athygli að af 4.838 manns eru um 271 einstaklingur sem telja sig með vissu verða fyrir einelti í vinnunni og þar af eru um 97 manns sem nefna yfirmann sem sinn gerenda. Um 126 manns telja sig með vissu hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni þar af 20 manns sem nefna yfirmann sem sinn gerenda. Einnig er sláandi að um 464 manns verði fyrir ofbeldi í vinnunni. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins vona og vænta að unnið verði betur með þær niðurstöður í þágu vellíðunar og öryggis starfsfólks.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Könnunin er byggð upp af níu þáttum sem eru; stjórnun, starfsandi, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleiki vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægja og stolt og jafnrétti. Hér er að finna hafsjó af upplýsingum. Athygli vekur hversu miklu færri eru nú ánægðir með styttingu vinnuvikunnar en árið 2022 en þá voru 72,4% mjög eða frekar ánægð en nú aðeins 44,1%. Þetta gefur sterkar vísbendingar um að stytting vinnuvikunnar hafi ekki skilað þeim jákvæðu áhrifum sem áætlað var og það eru mikil vonbrigði. Þetta kemur í sjálfu sér ekki á óvart þar sem að það var ekki raunhæft að ekki króna fylgdi verkefninu. Það eru í raun sömu sviðin sem eru að koma illa út í könnuninni. Lægst er svarhlutfall hjá skóla- og frístundasviði en hæst hjá mannauðssviði sem kemur ekki á óvart. Heildareinkunn er lægst hjá fjármálasviði og umhverfis- og skipulagssviði. Þátturinn jafnrétti kemur best út. Einelti er alltaf óásættanlega mikið, 55.7% svöruðu að gerandi hefði verið vinnufélagi og 36,5% sögðu gerandann vera stjórnandann. 2,6% hafa orðið fyrir kynferðisáreiti sl. 12 mánuði. Flokkur fólksins spyr hvað á að gera með þessar niðurstöður. Á ekki að nota upplýsingarnar til að laga hlutina?

    Fylgigögn

  15. Lagður fram dómur Hæstaréttar í máli nr. 1/2023. MSS22080146

  16. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 14. febrúar 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að samningi milli Reykjavíkurborgar og Main Course ehf. vegna hátíðarinnar Food and fun fyrir árið 2023. Þann 10. febrúar 2022 samþykkti borgarráð umræddan styrk með viðaukasamningi. Hins vegar varð ekki af hátíðinni árið 2022 og þar af leiðandi hefur verið útbúinn nýr samningur fyrir árið 2023. Þegar hefur verið gert ráð fyrir styrknum á kostnaðarstað 09510 – ýmsar samningsbundnar greiðslur. Food and fun hátíðin mun fara fram þann 1.-4. mars nk.

    Samþykkt. MSS22020091
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Fylgigögn

  17. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 14. febrúar 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Hjálagt erindisbréf stýrihóps um heildstæða matarstefnu er lagt fram til samþykktar. Óskað er eftir að borgarráð staðfesti tilnefningar fulltrúa meirihlutans í hópinn og tilefni fulltrúa minnihluta. MSS23010261

    Samþykkt. 
    Jafnframt er samþykkt að tilnefna Heiðu Björgu Hilmisdóttur, Guðnýju Maju Riba, Friðjón R. Friðjónsson, Líf Magneudóttur og Trausta Breiðfjörð Magnússon í hópinn og að Heiða Björg verði formaður hópsins.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að setja eigi á laggirnar þennan hóp og væntir þess að hann skili einhverju bitastæðu af sér. Umfram allt þarf að leggja áherslu á stefnu sem felur í sér að fæða sé framleidd í sátt við umhverfi og náttúru og með dýraverndarsjónarmið að leiðarljósi. Einnig verður að draga úr sóun matar sem er alltof mikil. Reykjavík er í lykilstöðu enda eru þar framleiddar milljónir máltíða á ári hverju og ber borgin mikla ábyrgð á næringarástandi þeirra sem reiða sig að hluta eða nær eingöngu á máltíðir frá borginni eins og segir í erindisbréfinu. Reykjavíkurborg er í því áhrifastöðu á þróun matvælaframboðs. Það hlýtur að þurfa að draga úr framboði af mikið unnum mat (ruslfæði) og ávallt að bjóða upp á val og að fólk skammti sér sjálft, þar með talið börnin.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf menningar- og íþróttasviðs, dags. 10. febrúar 2023, sbr. afgreiðslu menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 10. febrúar 2023 á tillögu styrkjahóps ráðsins um styrkveitingar vegna íþrótta- og tómstundamála 2023. ITR22090025

    Fylgigögn

  19. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 13. febrúar 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um verklag vegna innheimtu hjá B-hluta fyrirtækjum borgarinnar, sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. janúar 2023. MSS22080174

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins hefur ítrekað gagnrýnt harkalegar innheimtuaðgerðir gagnvart fólki sem má sín minna í samfélaginu. Það kallast harkalegt að senda smáar, jafnvel tilfallandi skuldir leigjenda Félagsbústaða til innheimtufyrirtækja sem taka ekki á málum með neinum vettlingatökum. Hér er spurt um hvernig innheimtuviðvörunum er háttað hjá öðrum B-hluta fyrirtækjum. Athygli vekur hvað þær eru mismunandi. Hjá Orkuveitu Reykjavíkur eru innheimtuviðvaranir sendar út 20 dögum eftir eindaga. Hjá Félagsbústöðum fer skuldin strax til Motus sem sendir út innheimtuviðvörun 14 dögum eftir eindaga. Faxaflóahafnir senda sjálf út lögbundna innheimtuviðvörun en sé reikningur ekki greiddur innan 70 daga er hann sendur í innheimtu til lögmanns Faxaflóahafna.  Motus sér um að senda lögbundnar innheimtuviðvaranir í nafni SORPU eftir fimm daga frá eindaga. Strætó metur hvort kröfur eru sendar áfram til Motus út frá því hvort viðskiptavinur stendur yfirleitt í skilum. Almennt sendir Strætó ekki kröfur í löginnheimtu. Af þessu má sjá að ein mesta harkan er gagnvart leigjendum Félagsbústaða. Þeirra skuldir, smáar sem stórar, fara strax til Motus og viðvörun er aðeins 14 dagar. 

    Fylgigögn

  20. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 14. febrúar 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um samningsmarkið Reykjavíkurborgar, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. febrúar 2023. MSS23020018

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavíkurborg hefur sett fram samningsmarkmið vegna uppbyggingarsvæða í Reykjavík. Í nýjum byggingarreitum er oft samið um kauprétt Félagsbústaða á 5% íbúða og að 20% íbúða verði skilgreindar sem leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, leiguíbúðir Félagsbústaða hf., búseturéttaríbúðir og/eða íbúðir fyrir aldraða. Flokkur fólksins hefur verið með tillögur í þessu sem eru að skilgreina hærra hlutfall sem leiguíbúðir, stúdentaíbúðir og leiguíbúðir Félagsbústaða vegna langra biðlista í slíkt húsnæði. Gott er að heyra að samningsmarkmiðin hafi náð fram að ganga. Fram kemur í svari að fjöldi íbúða til félagsbústaða frá 2018-2022 er 177. Það er ekki nærri nóg enda þótt talning sé sögð ekki vera tæmandi. Sama má segja um 698 íbúðir Félagsbústaða. Nú bíða mörg hundruð manns eftir leiguhúsnæði hjá Félagsbústöðum. 

    Fylgigögn

  21. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 14. febrúar 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um stýrihóp vegna innleiðingar matarstefnu, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. janúar 2023. MSS23010194

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Innleiðing matarstefnu er mikilvæg og ekki síður að fylgja eftir slíkri stefnu sé hún á annað borð góð stefna. Fram kemur í fyrirspurninni að ekki hafi tekist að ljúka endurskoðun aðgerðaáætlunarinnar sem er því miður kannski of algengt í borginni. Settar eru fram fínustu stefnur en annað mál er með eftirfylgni þeirra. Í matarstefnu þarf að takast á við matarsóunarvandamálið í Reykjavík. Miklum, þó mismiklum, mat er hent í t.d. skólum borgarinnar. Krakkar fá ekki í öllum skólum að skammta sér sjálf eða vigta leifar sem er lykilatriði til að börn upplifi á eigin skinni hvað felst í sóun matar. Fram kemur í svari að undirbúa eigi þátttöku Reykjavíkurborgar í Milan Urban Food Policy Pact. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ekki upplýsingar um út á hvað þessi þátttaka gengur og hvað borgarbúar fá út úr slíkri þátttöku.

    Fylgigögn

  22. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 8. febrúar 2023. MSS23010012

    Fylgigögn

  23. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 6. febrúar 2023. MSS23010030

    Fylgigögn

  24. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 9. febrúar 2023. MSS23010032

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðarinnar: 

    Flokkur fólksins skilur vonbrigði íbúaráðsins með ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að gefa út enn og aftur nýtt starfsleyfi fyrir skotvöll í Álfsnesi nú til Skotfélags Reykjavíkur. Segir í bókun ráðsins að það þyki sérstaklega einkennilegt að tekin hafi verið ákvörðun um að afgreiða umsóknina þar sem ekki liggur fyrir niðurstaða samstarfshóps sem nýlega hefur verið settur saman til þess að finna endanlega lausn á þessu stóra deilumáli (áliti skal skila 1. apríl næstkomandi samkvæmt bréfi borgarstjóra). Þá skal einnig bent á að úrskurðarnefnd umhverfis-og auðlindamála hefur nýlega fellt úr gildi starfsleyfið sem í gildi var fyrir annað skotfélag á sama stað. Einnig hefur verið fellt úr gildi starfsleyfi fyrir skotvöll Skotfélags Reykjavíkur (úrskurðir ÚUA 51 og 56/ 2021) vegna þess að útgáfa fyrri leyfa stangast á við aðalskipulag.

    Fylgigögn

  25. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 27. janúar 2023. MSS23010015

    Fylgigögn

  26. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. febrúar 2023.
    5. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS23010011

    Fylgigögn

  27. Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 8. febrúar 2023. MSS23010025

    Fylgigögn

  28. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 13 mál. MSS23010281

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið yfirlitsins: 

    Flokkur fólksins lýsir yfir ánægju með að afla eigi gagna um farsæld barna. Tekið er undir ýmislegt í umsögn Reykjavíkurborgar, s.s. að skortur hefur verið á aðgengilegum, samræmdum og þar með samanburðarhæfum upplýsingum um farsæld barna og þjónustu við börn allavega í Reykjavík. Við lestur umsagnarinnar fær fulltrúi Flokks fólksins það á tilfinninguna að Reykjavíkurborg vilji ritskoða könnunina sem eru lög fyrir börnin. Flokkur fólksins fagnar því að loksins á að tala við fólkið sjálft og börnin. Allt of lítið hefur verið hlustað á og tekið mark á börnum í Reykjavík. Það er kannski hlustað en þau fá litlu fram í borgarkerfinu eins og fundir borgarstjórnar með ungmennaráðum hafa sýnt í gegnum árin. Fáar tillögur þeirra ef nokkrar hafa orðið að veruleika. Flokkur fólksins treystir því að hér sé um vandaða könnun að ræða enda engir amatörar hér á fer. Halda mætti að Reykjavíkurborg óttist að svör barnanna verði neikvæð og vilja stýra því hvernig spurninga verði spurt. Það gengur auðvitað ekki. Börnin verða að vera spurð þannig að þau finni að þau geti svarað út frá eigin sannfæringu og upplifun.

    Fylgigögn

  29. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS23010283

    Fylgigögn

  30. Fram fer umræða um verkfallsaðgerðir Eflingar stéttarfélags og áhrif þeirra á starfsstaði Reykjavíkurborgar.

    Lóa Birna Birgisdóttir, Helgi Grímsson, Rannveig Einarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. MSS23020107

  31. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisfokksins og áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna í borgarráði leggja til að óskað verði umsagna fagaðila og hagsmunaaðila vegna tillögu um framtíðarhögun starfsemi Borgarskjalasafns Reykjavíkur. Fyrirliggjandi tillaga kallar á umfangsmiklar breytingar, því er rétt að vanda til verka og leita ólíkra sjónarmiða. Lagt er til að óskað verði umsagna aðila á borð við Borgarskjalasafn Reykjavíkur, Þjóðskjalasafn, héraðsskjalasöfnin, Samband íslenskra sveitarfélaga, nágrannasveitarfélögin, áhættusérfræðinga (sem meta áhættuþætti skjalavörslu á einum stað eða mörgum) og aðra þá sem kunna að hafa hagsmuni af breytingunni. ÞON23010028

    Frestað.

  32. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Eru einhverjir með lokað á þjónustu frá Reykjavíkurborg eða fyrirtækja í eigu hennar vegna vanskila? Hver var staðan á því árið 2022 og það sem af er ári 2023? Ef svo er, hversu margir borgarbúar eru það og/eða heimili í Reykjavík? Hér er t.a.m. verið að tala um þjónustu frá skóla- og frístundasviði og Orkuveitu Reykjavíkur. Það er mikilvægt að ganga úr skugga um að enginn í borginni sé án nauðsynlegrar þjónustu. Fulltrúi sósíalista er meðvituð um verklagsreglur borgarinnar sem miða að því að tryggja að börn verði ekki af nauðsynlegri grunnþjónustu á skóla- og frístundasviði vegna erfiðrar fjárhagsstöðu eða skuldavanda foreldra en eru einhver börn sem geta ekki fengið samþykkta þjónustu vegna skuldavanda sem á eftir að greiða úr? Eru einhverjir vistunarsamningar barna í uppnámi vegna vanskila? Ef svo er, hver er fjöldi þeirra? MSS23020114

  33. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Þakkað er fyrir svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 13. febrúar 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um verklag vegna innheimtu hjá B-hluta fyrirtækjum borgarinnar, sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. janúar 2023 en í því kemur fram að Motus sendir lögbundnar innheimtuviðvaranir þegar krafa kemur til þeirra. Þegar innheimtuviðvörun er send á viðskiptavini sendir Motus lista til Strætó sem er yfirfarinn niður á einstaklinga. Það fer alltaf fram mat á því hvort að kröfur eru sendar áfram, s.s. ef viðskiptavinur stendur alltaf í skilum, krafa er undir 5.000 og eigandi kröfu skuldar ekkert annað o.s.frv. Gjalddagi er alltaf í lok þess mánaðar sem krafa er send út og eindagi er 5-7 dögum seinna. Ef krafan er ógreidd í 10 daga fram yfir eindaga fer hún til Motus í milliinnheimtu. Almennt sendir Strætó ekki kröfur í löginnheimtu þar sem um er að ræða lágar fjárhæðir, það eru þó örfáar undantekningar frá því ef fjárhæðir eru verulegar en afskaplega sjaldgæft. Fulltrúi Sósíalista spyr hvaða ógreiddu gjöld sé um að ræða hér. Er t.d. verið að ræða um fargjöld sem eru keypt með Visa korti þar sem heimild fæst síðan ekki á kortið, eða gjöld vegna Pant akstursþjónustu? MSS22080174

  34. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Flokkur fólksins leggur til að allar skjalaeiningar Reykjavíkurborgar ásamt gagnaþjónustu verði færðar undir Borgarskjalasafn. Með því er allri skjala- og gagnavinnslu Reykjavíkurborgar ásamt innleiðingu upplýsingastjórnunarkerfa, komið á einn stað sem auðveldar heildaryfirsýn allra skjalamála borgarinnar. Borgarskjalasafn er kjölfestan í skjalamálum borgarinnar og starfar samkvæmt lögum nr. 77/2014 og heldur safnið úti öflugri starfsemi. Borgarskjalasafni er best treyst til að vera yfirstofnun annarra skjalavörslusafna í borginni. Borgarskjalasafn er komið á fulla ferð í stafrænni umbreytingu, til að uppfylla breyttar áherslur í rafrænni skjalastjórn. Safnið hefur staðið sig með þeim bestu innan borgarinnar að ganga inn í stafræna umbreytingu. Eðlilegt er því að Borgarskjalasafn hafi umsjón með skjalavörslu borgarinnar.

    Greinargerð fylgir tillögunni. ÞON23010028
    Frestað.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 12:21

Einar Þorsteinsson Alexandra Briem

Heiða Björg Hilmisdóttir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Hildur Björnsdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarráðs 16.2.2023 - Prentvæn útgáfa