Staða leikskólamála í Reykjavík í mars 2023 

Skóli og frístund

Leikskólabarn að leik

Einn leikskóli mun ekki taka við nýjum börnum í vor og endurbætur á húsnæði munu hafa áhrif á innritun sex annarra leikskóla.

Á morgun, þriðjudaginn 14. mars, hefst úthlutun leikskólaplássa í Reykjavík. Foreldrar barna sem sótt hafa um í borgarreknum skólum geta búist við að fá send boð um pláss á næstu vikum en ekki verður byrjað að raða umsóknum sem berast eftir 13. mars í forgangsröð fyrr en eftir að stóru úthlutuninni lýkur 17. apríl næstkomandi.  

Áhrif framkvæmda á inntöku barna 

Laugasól mun ekki taka við nýjum börnum í haust vegna endurbóta og viðgerða en á sama tíma verður farið í að stækka skólann, bæta við tveimur deildum og bæta aðstöðu fyrir starfsfólk. Framkvæmdir munu einnig hafa töluverð áhrif á innritun í sex aðra leikskóla í Reykjavík. Það eru Grandaborg og Gullborg en vegna framkvæmda í Grandaborg hefur börnum þaðan verið fundin pláss í nágrannaleikskólanum Gullborg. Stefnt er að því að hefja framkvæmdir við Fífuborg í sumar en starfsemi leikskólans færist yfir í Húsaskóla tímabundið og verða því færri ný börn tekin inn. Þá eru einnig framkvæmdir við Hlíð og Hálsaskóg sem hafa áhrif á inntöku barna í Ævintýraborgunum við Nauthólsveg og Vogabyggð vegna þess að starfsemin hefur eða mun flytjast tímabundið þangað. 

Árborg, Vesturborg, Kvistaborg og Sunnuás munu einnig tímabundið taka inn færri börn vegna framkvæmda og flutnings á starfsemi. Búist er við að starfsemi Sunnuáss flytjist frá Kringlunni 1 aftur á lóð skólans við Dyngjuveg síðla sumars en unnið er að því að koma fyrir færanlegum stofum þar. Rétt er að taka fram að engin börn hafa misst leikskólapláss sem þau voru með vegna endurbóta og annarra framkvæmda í Reykjavík. 

Framkvæmdum er lokið við Nóaborg og Furuskóg en aðrar framkvæmdir í leikskólum Reykjavíkurborgar munu ekki hafa áhrif á inntöku barna í haust. 

Mikil uppbygging leikskóla í borginni   

Erfitt er að fullyrða hver meðalaldur barna við inntöku verður næsta haust en unnið er af kappi að því að fjölga leikskólaplássum í borginni í gegnum Brúum bilið aðgerðaráætlunina. Á síðasta ári voru fjórir nýir leikskólar opnaðir í Reykjavík og nýjar deildir teknar í notkun við eldri leikskóla. Hins vegar hefur á sama tíma staðið yfir annað metnaðarfullt átak í húsnæðismálum grunnskóla og leikskóla sem miðar að því að uppfæra eldra húsnæði og bæta innivist og mun það til skemmri tíma hafa áhrif á stöðuna hvað varðar inntöku nýrra barna. Misjafnlega vel hefur gengið að fylla lausar stöður í leikskólum sem einnig hefur áhrif á fjölda leikskólaplássa sem eru í boði. 

Í Reykjavík eru 17 sjálfstætt starfandi leikskólar sem njóta fjárhagslegs stuðnings frá borginni. Búist er við að 300-400 börn fái pláss í þeim í haust. 

Fækkun leikskólaplássa tengd átaki til að bæta starfsaðstöðu  

Fjöldi barna í leikskólum Reykjavíkur dróst saman frá 2015 til 2020 þegar þeim fór aftur að fjölga. Helsta skýringin að baki fækkuninni er ákvörðun um að fækka barngildum á hvern starfsmann í áföngum og að auka rými fyrir hvert barn inni í leikskólunum en þeirri vinnu lauk árið 2020. Markmiðið er að bæta starfsaðstæður og líðan barna og starfsfólks í þessu mikilvæga starfi.