Snjallvæðing á grenndarstöðvum stendur yfir

Sorphirða

Stærri grenndarstöðvar taka við pappír, plasti, gleri, málmum, textíl og flöskum.
Teikning af gámum á grenndarstöð.

Snjallvæðing grenndarstöðva SORPU í Reykjavík stendur yfir í póstnúmerum 108-113 og 162 næstu tvær vikur. Á meðan getur þjónusta verið skert á stöðvunum. Við þökkum íbúum fyrir skilninginn.

Settir verða upp skynjarar í alla grenndargáma í Reykjavík sem segja til um hvenær gámarnir eru fullir. Grenndargámarnir fá nýtt útlit og verður merkingakerfi þeirra samræmt við nýjar merkingar á tunnum við heimili.

Litlar og stóra grenndarstöðvar

Með nýju samræmdu flokkunarkerfi eru komnar tunnur fyrir blandaðan úrgang, matarleifar, plast og pappír við hvert heimili. Því hefur þörfin fyrir grenndargáma sem taka við þeim flokkum minnkað og grenndarstöðvar fengið nýtt hlutverk.

Lagt er upp með að grenndarstöðvar sem taki við málmum, gleri, textíl og flöskum séu ekki í meira en 500 metra fjarlægð frá heimili þar sem því er við komið. Þessar stöðvar kallast litlar grenndarstöðvar og verða tæplega 30 í Reykjavík.

Stærri grenndarstöðvar sem taka við pappír, plasti, gleri, málmum, textíl og flöskum verða samtals um 30 talsins og er miðað við að fjarlægð þeirra sé ekki meiri en um eins kílómeters fjarlægð frá heimili.