Nýsköpun í Reykjavík. Uppskeruhátíð Snjallræðis verður haldin í Ráðhúsi Reykjavíkur á föstudag kl. 13 - 15 og þar kynna sprotarnir sem tóku þátt í ár hugmyndir og afrakstur vinnu sinnar undanfarna mánuði.
Viðburðurinn í Tjarnarsal ráðhússins er öllum opinn og hér gefst frábært tækifæri til að kynnast frumkvöðlum sem leita lausna á aðkallandi áskorunum samtímans. Þau sem kynna afrakstur vinnu sinnar í samfélagslega vaxtarýminu Snjallræði eru:
- ALDA Clinical Technologies: Þróun á máltæknitóli fyrir snemmtæka greiningu og eftirfylgd með taugahrörnunarsjúkdómum og málröskunum í minni tungumálum.
- Animara: Hanna hentug og stílhrein föt fyrir einstaklinga með hreyfihömlun, sem eykur sjálfstæði og minnkar álag á umönnunaraðila.
- CHEMeFuel: Þróa orkurík lífeldsneyti úr úrgangsefnum og grænu metanóli fyrir sjálfbæran flugrekstur, með það að markmiði að draga úr kolefnislosun.
- CodonRed: Skima eftir stökkbreytingum og skemmdum í erfðaefni.
- Heillaspor Center: Stefna á stofnun miðstöðvar á Íslandi fyrir snemmtæka meðferð við átröskunum.
- Hvað nú?: Einfalda syrgjendum úrlausn hinna fjölmörgu verkefna sem fylgja andláti ástvinar með því að auðvelda aðgengi að upplýsingum og ráðgjöf.
- Námsheimar: Gagnvirkur námsvefur með verkefnum sem stækkar verkfærakistu kennara til að ýta undir áhuga nemenda og styrkir færni þeirra til framtíðar.
- NúnaTrix: Búa til fræðslutölvuleiki fyrir börn sem þurfa að gangast undir læknismeðferð og rannsóknir, með það að markmiði að minnka kvíða og bæta heilsulæsi.
- Textílbarinn: Safna og selja ónotaðan textíl auk þess að kenna hvernig má gera við og endurnýta slíkan textíl til að draga úr úrgangi.
- Velferðalag: Miða að því að bæta líðan og auka almenna þekkingu með jákvæðum inngripum, byggð á jákvæðri sálfræði.
Dagskrá
13:00 Opnunarorð Oddur Sturluson, verkefnisstjóri Snjallræðis
13:05 Opnunarerindi Dr. Einar Stefánsson, frumkvöðull og meðstjórnandi Oculis
13:15 Lokakynningar sprotanna
Pallborð Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, Haukur Hafsteinsson, yfirverkfræðingur hjá Marel og Melkorka Sigríður Magnúsdóttir, Iceland Innovation Week
14:50 Ávarp og veiting viðurkenninga Alexandra Briem, formaður stafræns ráðs Reykjavíkurborgar
Fundarstjóri Sveinn Kjarval, viðburðastjóri hjá Marel
Léttar veitingar verða í boði að dagskrá lokinni.
📢 Viðburðurinn er opinn fyrir alla sem láta sig málefni nýsköpunar og áskoranir samfélagsins varða.
Samstarfsverkefni
Snjallræði er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri, auk samstarfs við MITdesignX þar sem sérfræðingar frá MIT deila þekkingu sinni með þátttakendum. Þátttakendur hafa fengið aðgang að fræðslu og þjálfun frá bæði innlendum og erlendum sérfræðingum á sviði samfélagsmála og nýsköpunar, auk fundar með reyndum mentorum. Verkefnið er styrkt af Reykjavíkurborg og Marel.