Sköpum kjöraðstæður til dvalar fyrir fólk, fugla og flóru

Borgarhönnun

Gerum borgina grænni! Áherslan í ár er á er loftslagsbreytingar og hvernig hægt er að auka kolefnisbindingu og ýta undir líffræðilegan fjölbreytileika í borgarrýmum. Mynd/Vadim L - Unsplash
Grænn gróður

Reykjavíkurborg óskar eftir áhugasömum einstaklingum eða teymum til að taka þátt í verkefninu Torg í biðstöðu 2022.  Áherslan í ár er á loftslagsbreytingar og hvernig hægt er að auka kolefnisbindingu og ýta undir líffræðilegan fjölbreytileika í borgarrýmum til að skapa kjöraðstæður til dvalar fyrir fólk, fugla og flóru.

Gerum borgina grænni

 Óskað er eftir verkefnum sem tengjast þessum markmiðum.  Þau geta t.d. verið í formi grænna og gróskumikilla dvalarsvæða, hvílustæða (e. parklet), leiksvæða eða svæða sem skapa óvæntan leik eða hvíld eða jafnvel hampa því óvænta. Staðsetja þarf svona svæði á sólríkum stöðum í götum, opnum svæðum eða á torgum sem þarfnast umhyggju og grænna yfirbragðs. Svæðin geta verið jafnt í miðborginni og fyrir utan miðborgina.  

Umbreyting rýmanna sem valin verða getur leitt til þess að svæðin verði aðlöguð sem dvalar- og/eða leiksvæði. Á sama tíma vekjum við íbúa og aðra hagsmunaaðila til umhugsunar um sitt nánasta umhverfi og virkjum þá til að taka þátt í að þróa svæðin og koma auga á nýja notkunarmöguleika í sínu nærumhverfi.

Umsóknin

 Með umsókn þarf að fylgja:

  • Ítarleg lýsing á verkefninu í texta, myndum, skissum og teikningum.  
  • Verk- og tímaáætlun verkefnis.  
  • Gróf kostnaðaráætlun: m.a efniskostnaður og laun. 
  • Ferilskrá allra umsækjenda með fullu nafni, kennitölu og heimilisfangi. 

Umsókn sendist á: gongugotur@reykjavik.is.  

Merkja þarf í titli: Umsókn um Torg í biðstöðu 2022 

 Frestur til að skila umsóknum rennur út 1. apríl 2022.

Almennt um Torg í biðstöðu

Torg í biðstöðu hefur verið í gangi frá árinu 2011. Markmið verkefnisins er að búa til skemmtilegri svæði, hampa því óvænta og vera vettvangur róttækra tilrauna með borgarumhverfið.