Skipulagsvinna í Keldnalandi í fullum gangi

Sýning á vinningstillögu FOJAB arkitekta verður opnuð laugardaginn 21. september klukkan 11, í bókasafninu í Spönginni. Sama dag verður opið hús í Tilraunastöðinni klukkan 13 og boðið til gönguferðar um Keldur með leiðsögn klukkan 14.
Loftmynd af Keldnalandi

Einstakt tækifæri gefst til að efla byggð í austurhluta Reykjavíkur og styrkja sjálfbæra borgarþróun á höfuðborgarsvæðinu öllu með uppbyggingu í landi Keldna og á Keldnaholti. Eitt skref til viðbótar í átt að uppbyggingu á nýju og vel tengdu hverfi í Keldnalandi átti sér stað í borgarráði Reykjavíkur fyrir helgi þegar verklýsing aðalskipulagsbreytingar var afgreidd.

Breytingin fer síðan til umræðu í borgarstjórn og verður tekin fyrir þar á morgun.

Þetta er fyrsta skrefið í kynningar- og samráðsferli um breytt skipulag á þessu svæði en áformað er að því ferli ljúki í byrjun árs 2026. Markmiðið er að á Keldnalandi rísi spennandi nútímahverfi sem byggir á vistvænum samgöngum og stuðlar að kolefnishlutlausu borgarsamfélagi. Keldnaland er byggt upp í samvinnu Reykjavíkurborgar og Betri samgangna og er hluti af samgöngusáttmálanum, allur ábati af þróun landsins og sölu byggingarréttar rennur til samgönguverkefna á höfuðborgarsvæðinu.

Lykilforsenda til eflingar húsnæðismarkaðarins

Keldnaland er vel staðsett landfræðilega með miðlæga legu innan byggðar á höfuðborgarsvæðinu. Uppbygging íbúðahverfa þar á næstu árum er lykilforsenda þess að efla húsnæðismarkaðinn í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu með því að stuðla að stöðugu og auknu framboði íbúða, ekki síst þeirra sem eru á viðráðanlegu verði.

Þarna skiptir höfuðmáli að Borgarlínan fer um svæðið sem þýðir fleiri valkosti fyrir íbúa með auknum lífsgæðum en áhersla verður á þjónustu og atvinnustarfsemi í kringum stöðvar hennar. Það þýðir líka að byggt verður upp á vistvænan og hagkvæman hátt og kolefnisspor uppbyggingarinnar verður lágmarkað.

Uppbygging kallast á við gróin hverfi og náttúru

Uppbygging hefur lengi verið fyrirhuguð á svæðinu og alþjóðleg samkeppni um þróun svæðisins fór fram í fyrra.  Frekara skipulag og hönnun verður unnin á grundvelli vinningstillögu FOJAB arkitekta. FOJAB og samstarfsaðilar eru ráðgjafar Reykjavíkurborgar og Betri samgangna um valda þætti er lúta að undirbúningi skipulagningar og hönnunar Keldnalands. Tillagan verður rýnd og farið í nánari útfærslur á einstaka atriðum í skipulagsferlinu og verður lögð áhersla á að tryggja gott samráð við frekari mótun skipulags á svæðinu.

Staðsetning nýrra borgarhverfa í Keldnalandi felur líka í sér tækifæri til þess að byggðin kallist á við eldri gróin hverfi og hina einstöku náttúru sem er á svæðinu og við Grafarvoginn. Við uppyggingu verður lögð áhersla á að nýta og taka mið af náttúrugæðum svæðisins og flétta inn í borgarumhverfið svo úr verði grænir borgargarðar. 

Enn fremur gefst tækifæri til að styrkja það samfélag sem er fyrir í borgarhlutanum, meðal annars með auknu framboði verslunar og þjónustu, veitingastaða, afþreyingar og vel hannaðra almenningsrýma, auk nýrra atvinnutækifæra.

Samráð og kynningar framundan

Allir borgarbúar eru boðnir velkomnir á sýningu á vinningstillögu FOJAB arkitekta sem opnuð verður næstkomandi laugardag, 21. september klukkan 11, í bókasafninu í Spönginni. Sama dag verður opið hús í Tilraunastöðinni að Keldum klukkan 13 og loks boðið til gönguferðar um Keldur með leiðsögn klukkan 14

Ráðgjafateymið er væntanlegt til landsins og verður boðið til kynningar á vinningstillögunni miðvikudaginn 25. september klukkan 17 á Borgarbókasafninu í Spönginni, sem ætti að vera áhugavert fyrir almenna borgarbúa og fagfólk og áhugafólk um arkitektúr og skipulag.

Sýningin stendur yfir fram að opnum íbúafundi sem haldinn verður haldinn um miðjan október og verður dagskrá fundarins auglýst þegar nær dregur.

Verklýsing aðalskipulagsbreytingar verður nú gerð aðgengileg á skipulagsgatt.is og auglýst og gefst þá tækifæri til að skoða gögnin og koma með ábendingar en athugasemdafrestur verður til 31. október næstkomandi.

Teikning af skipulagsferli.