Skipulagslýsing fyrir Veðurstofureit í kynningu

Skipulagsmál

Pétur Thomsen
Veðurstofureitur.

Samþykkt var í umhverfis- og skipulagsráði í vikunni að að kynna lýsingu fyrir nefndan Veðurstofureit. Leita skal umsagna um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun og helstu umsagnar- og samráðsaðilum ásamt almenningi.

Eitt helsta markmiðið við gerð nýs deiliskipulags Veðurstofureits á Veðurstofuhæð er að byggja undir heildstætt nýtt íbúðahverfi á miðsvæði ásamt þjónustu með sterkum vistvænum áherslum í sátt við núverandi umhverfi.

Íbúðabyggð og þjónusta á Veðurstofuhæð

Lögð var fram af því tilefni skipulagslýsing skipulagsfulltrúa vegna nýs deiliskipulags fyrir Veðurstofureit. Í tillögunni sem lögð er til felst að koma fyrir nýrri íbúabyggð ásamt þjónustu á Veðurstofuhæð. Samþykkt er að kynna lýsingu fyrir nýtt deiliskipulags þar sem lagt er til:

  • Að greina núverandi horf Veðurstofuhæðar og næsta nágrennis svo byggja megi undir heildstætt nýtt íbúðahverfi á miðsvæði ásamt þjónustu með sterkum vistvænum áherslum í sátt við núverandi umhverfi.
  • Að leita uppi styrkleika rýmisins á svæðinu og flétta saman við borgarsamhengið næst reitnum í Hlíðum og Kringlu.
  • Að koma fyrir nýrri sjö metra breiðri tengingu sem þjónar öllum virkum ferðamátum undir Bústaðaveg og tengja saman norður–suðurás milli Stigahlíðar og Beykihlíðar/Birkihlíðar (Suðurver og Klettaskóli).
  • Að skoða þróunar- og uppbyggingarmöguleika lóða á reitnum, hæðir húsa, stakstæð eða í klösum ásamt samnýtingu rýma.
  • Að finna hæfilegt nýtingarhlutfall nýbygginga á reitnum.
  • Að skoða bílastæðakröfur og bílastæðahús ásamt fyrirkomulagi á aðgengi ökutækja inn á íbúðareitinn sem gengur í aðalatriðum út á samnýtingu með Veðurstofunni.
  • Að deilihagkerfið eigi að geta þjónað öllum íbúum reitsins. Að staðsetja 5-7 íbúa sambýli fyrir fatlaða.
  • Að skilgreina útivistarsvæði fyrir íbúa reitsins og núverandi nágranna. Nefna má sem dæmi um breytingar á svæðinu að undanfarin ár hefur nýr göngu- og hjólastígur verið lagður meðfram Kringlu­mýrarbraut og Bústaðavegi og áfram í vesturátt gegnum ný undirgöng undir Litluhlíð. Stígur þessi verður næst framlengdur eftir Skógarhlíð. Öllu mjórri göngu- og hjólastígur var nýlega lagður sunnan Stigahlíðar við upprif hitaveitustokks.

Skipulagslýsingin

Tímasetning helstu verkáfanga og kynninga fyrir almenning. Gert er ráð fyrir að lýsing fyrir deiliskipulag verði kynnt til samþykktar í skipulags- og samgönguráði í maí. Ferlið allt þar til deiliskipulag Veðurstofureits verður staðfest gæti staðið fram í ágúst 2024.

Hægt er að kynna sér skipulagslýsinguna hér.

(Hægt er að kynna sér skipulagslýsinguna hér ásamt húsakönnun).