Sjávarklasinn stækkar með 100% húsi

Undirritun í Sjávarklasanum

Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir munu greiða götu glæsilegs nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs undir heitinu „100% Húsið“ með áherslu á haftengda nýsköpun þar sem 100% af hverjum veiddum fiski nýtist til verðmætasköpunar. Þetta kemur fram í viljayfirlýsingu sem var undirrituð í dag hjá Sjávarklasanum á Grandagarði.

„Þetta snýst um menninguna okkar. Íslenski sjávarklasinn og frumkvöðlarnir hér eru límið á milli sjávarútvegs og nýsköpunar. Með tilkomu 100% hússins mun haftengd nýsköpun fá meiri pláss í borginni. Svona vilja borgir þróast" sagði Einar Þorsteinson, borgarstjóri.

„Þau tólf ár sem Sjávarklasinn hefur haft aðsetur á Granda hafa vel á annað hundrað nýsköpunarfyrirtæki dafnað í húsakynnum klasans,“ segir Þór Sigfússon, stofnandi Sjávarklasans. „Mörg þessara fyrirtækja  voru óþekktir sprotar þegar þau hófu starfsemina hjá okkur en eru núna öflug fyrirtæki sem hafa skapað fjölbreytt störf og verðmæti. Með stækkuninni er hægt að koma betur til móts við þarfir nýsköpunarfyrirtækjanna.” 

Sjávarklasinn

Skoða á hvort húsakostur í eigu Faxaflóahafna henti fyrir starfsemina eða hvort reist verði nýtt hús við hlið núverandi aðstöðu Sjávarklasans að Grandagarði 16. Gerð verður forsögn að nýju deiliskipulagi fyrir nýsköpunarhúsið með hliðsjón af þeim áherslum sem Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir hafa til metnaðarfullrar atvinnuuppbyggingar.  

Aðstandendur Sjávarklasans

„Sjávarklasinn hefur með aðstoð fjölmargra fyrirtækja og stofnana kynnt víða erlendis hvernig hægt er að nýta betur hliðaraafurðir fisks eins og Íslendingar hafa gert. 100% húsið getur orðið tákn fyrir forystu Íslands í nýsköpun og betri umgengni við auðlindir hafsins,” segir Alexandra Leeper framkvæmdastjóri Sjávarklasans.

Uppbygging í anda nýsköpunarstefnu

Þetta verkefni styður mjög vel við markmið atvinnu- og nýsköpunarstefnu Reykjavíkur, einkum hvað varðar uppbyggingu nýsköpunar- og þekkingarkjarna, en þar segir að borgin muni hafa frumkvæði að þróun slíkra kjarna. Þar verði atvinnutækifæri framtíðarinnar sköpuð í samstarfi atvinnulífs, nýsköpunarsamfélags, menntastofnana og borgarinnar. 100% húsið mun efla haftengda nýsköpun enn frekar í borginni.

Hundrað fyrirtæki í virku samstarfi

Íslenski sjávarklasinn hefur í rúman áratug verið aflvaki nýsköpunar í bláa hagkerfinu, segir í greinargerð til borgarráðs með viljayfirlýsingunni. Hugmyndafræði klasans um betri nýtingu á hliðarafurðum hafi vakið athygli víða um heim og leitt til stofnunar fjölda fyrirtækja og fjölda systurklasa. 

Frá stofnun hefur sjávarklasinn laðað að hundruð hópa í heimsóknir og verið fjallað um hann í fjölda alþjóðlegra fjölmiðla og þannig vakið athygli á Reykjavík sem miðstöð haftengdrar nýsköpunar. Sjávarklasinn hefur frá upphafi verið staðsettur í húsnæði Faxaflóahafna og eru í dag 75 fyrirtæki staðsett þar en alls eru 100 fyrirtæki virk í formlegu klasasamstarfi. 

Sjávarklasinn - Viljayfirlýsing undirrituð

Skrifað undir viljayfirlýsingu um nýsköpunar- og frumkvöðlasetur að viðstöddum frumkvöðlum í Sjávarklasanum. Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, Einar Þorsteinsson, borgarstjóri og Þór Sigfússon, stjórnarformaður Sjávarklasans.  

Tengt efni: