Samþykkt að gera heildstæða athugun á starfsemi vöggustofu frá 1974- 1979

Skýrsla um starfsemi vöggustofu Thorvaldsensfélagsins, stafli af skýrslum liggjandi á borði.

Þriggja manna nefnd óháðra sérfræðinga verður skipuð til að gera heildstæða athugun á starfsemi vöggustofu Thorvaldsensfélagsins á tímabilinu 1974 til 1979, þar á meðal með hliðsjón af breyttum verkefnum vöggustofunnar á þeim tíma en hún starfaði sem upptökuheimili barna allt til 12 ára aldurs. Þetta var samþykkt á fundi borgarráðs í dag og verður skipan nefndarinnar lögð fyrir ráðið til staðfestingar.

Vöggustofunefndin  sem borgarráð skipaði 22. júlí 2022 til að gera heildstæða athugun á starfsemi vöggustofa sem reknar voru í Reykjavík árin 1949 til 1973 kynnti niðurstöður sínar á fundi borgarráðs fimmtudaginn 5. október 2023. Niðurstöður nefndarinnar voru á þá leið að börn hefðu sætt illri meðferð á Vöggustofunni Hlíðarenda á tímabilum yfir árin 1949 til 1963. Þá hafi börn í ýmsum tilvikum einnig sætt illri meðferð á Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins á tímabilum frá 1963 til 1967. 

Geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónusta þegar starfandi

Á meðal verkefna vöggustofunefndarinnar var jafnframt að leggja grundvöll að tillögum til borgarráðs um frekari viðbrögð ef ástæða þætti til og setti hún fram fjórar tillögur. Sú fyrsta lýtur að hugsanlegum skaðabótagreiðslum til einstaklinga sem vistaðir voru á vöggustofunum sem börn. Fyrir liggur að á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er frumvarp forsætisráðherra til laga um almennar sanngirnisbætur sem er ætlað að taka af skarið í þessum efnum og skapa umgjörð og farveg fyrir þær en frumvarpið er um þessar mundir í þinglegri meðferð. 

Önnur tillaga nefndarinnar fjallar um geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónustu til sömu einstaklinga og hefur Reykjavíkurborg þegar komið slíku úrræði af stað.

Þriðja tillagan beinist að gildandi framkvæmd og eftirliti á sviði barnaverndarmála og liggur fyrir umsögn velferðarráðs Reykjavíkurborgar um málið.

Rétt að frekari athugun fari fram

Fjórða og síðasta tillagan snýst um að borgarráð leggi á það mat, meðal annars út frá fyrrnefndum niðurstöðum vöggustofunefndarinnar, hvort tilefni sé til að framhald verði á athugun af þeim toga sem nefndin hafði með höndum, með vísan til þess að Vöggustofa Thorvaldsensfélagsins starfaði allt til ársins 1979 eða sem upptökuheimili barna allt til 12 ára aldurs frá árinu 1973. Borgarráð samþykkti á fundi sínum 12. október 2023 að vísa fjórðu og síðustu tillögu vöggustofunefndar til umsagnar borgarlögmanns, velferðarráðs og mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs en skýrslunni í heild sinni til umsagnar velferðarráðs, umdæmisráðs barnaverndar, mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs og öldungaráðs. 

Umsagnirnar ber allar að sama brunni, það er að rétt sé að Reykjavíkurborg láti fara fram frekari athugun á starfsemi Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins fyrir tímabilið 1974 til 1979, meðal annars með hliðsjón af breyttum verkefnum vöggustofunnar á því tímabili. Því samþykkti borgarráð í dag að skipuð verði sjálfstæð nefnd til að gera heildstæða athugun á starfsemi vöggustofunnar á fyrrnefndu tímabili. Miðað er við að nefndin skili lokaskýrslu sinni til borgarráðs eigi síðar en 30. júní 2024. 

Tillaga borgarstjóra. 

Skýrsla nefndar um vöggustofur í Reykjavík.