Reykjavíkurborg semur um geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónustu fyrir vöggustofubörn

Forsíða skýrslu vöggustofunefndar, mynd af skýrslunni liggjandi á borði

Reykjavíkurborg hefur samið við Kvíðameðferðarstöðina ehf. og Líf og sál sálfræði- og ráðgjafastofu ehf., um þjónustu við einstaklinga sem voru vistaðir á vöggustofunni að Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins. Þessi þjónusta hefst fimmtudaginn 9. nóvember klukkan 10.

Þetta er ein af þeim aðgerðum sem borgarráð samþykkti að fara í eftir útgáfu skýrslu um starfsemi vöggustofa í Reykjavík á árunum 1949-1973. Vöggustofubörn geta óskað eftir þjónustunni í gegnum símanúmerið 411-1400 hjá Reykjavíkurborg með því að láta vita að erindið snerti vöggustofur, eða  í gegnum netfangið voggustofur@reykjavik.is sem starfsmaður Reykjavíkurborgar vaktar.

Þegar vistun á vöggustofu hefur verið staðfest mun starfsmaður Reykjavíkurborgar senda nauðsynlegar tengiliðaupplýsingar um viðkomandi til sálfræðistofu sem samið hefur verið við. Sálfræðistofan sér um öll samskipti eftir það. Í inntökuviðtali leggur stofan sjálf mat á þjónustuþörf hvers einstaklings og vísar í viðeigandi bráðaþjónustu eða aðra heilbrigðisþjónustu ef talin er þörf á slíku. Reykjavíkurborg greiðir fyrir allt að 10 viðtöl fyrir hvern einstakling.

Frekari upplýsingar eru veittar á www.reykjavik.is/voggustofunefnd.