Samkeppni um þróun Keldnalands fer af stað

Skipulagsmál Umhverfi

Samkeppnin, sem er öllum opin, fer fram í tveimur þrepum og er viðhöfð nafnleynd í báðum þrepum.
Yfirlitsmynd yfir Keldnaland

Reykjavíkurborg og Betri samgöngur ohf. efna til alþjóðlegrar samkeppni um þróun Keldnalands sem fer í loftið frá og með deginum í dag. Samkeppnin er sett á laggirnar til að leita eftir vönduðum tillögum og þverfaglegu teymi til að koma að þeirri vinnu sem framundan er við gerð þróunaráætlunar svæðisins. Keldnaland er 116 hektara landssvæði og er markmiðið að þar rísi spennandi nútímahverfi, sem byggir á vistvænum samgöngum og stuðlar að kolefnishlutlausu borgarsamfélagi.

Samkeppnislýsinguna má finna á vef Reykjavíkurborgar en öll samkeppnisgögn eru síðan aðgengileg á útboðsvef Reykjavíkurborgar. Keppendur þurfa að skrá sig inn á vefinn til þátttöku til að tryggja að allar upplýsingar varðandi samkeppnina berist þeim.

Fimm teymi þróa tillögur á öðru þrepi

Samkeppnin sem er öllum opin, fer fram í tveimur þrepum og er viðhöfð nafnleynd í báðum þrepum. Fyrra þrepi lýkur 19. apríl 2023. Gert er ráð fyrir að allt að fimm teymi verði valin til að þróa tillögur á öðru þrepi.  Greidd verður 50.000 evru þóknun fyrir vinnu hvers teymis á öðru þrepi sem lýkur 18. ágúst 2023.  Að auki verða veitt verðlaun að upphæð 50.000 evrur fyrir hlutskörpustu tillöguna.

Í stað þess að kalla eftir hönnunarlausnum, sem sýna ítarlegt heildarskipulag fyrir allt svæðið, þar sem allt er leitt til lykta, eiga keppendur að leitast við að setja fram ramma um megin innviði, svo sem Borgarlínu og græn svæði og raunhæfa áætlun um þróun og uppbyggingu svæðisins og lykil hönnunarviðmið. 

Verkkaupi gerir ráð fyrir að semja um ráðgjöf við teymið á bak við tillöguna sem dómnefnd telur sterkasta að keppni lokinni. Ráðgjöfin snýst um áframhaldandi mótun þróunaráætlunar og skipulagsáætlana, að því marki sem sérþekking teymisins nýtist verkkaupa.

Búið að skipa dómnefnd

Búið er að skipa dómnefnd samkeppninnar. Í henni eru meðal annars Brent Toderian og Maria Vassilakou en þau hafa sett sitt mark á Vancouver og Vínarborg, sem eru iðulega tilnefndar í hópi lífvænlegustu borga í heimi. Samkeppnin er ein sú stærsta sem ráðist hefur verið í hér á landi en með henni er verið að fara nýjar leiðir við að þróa byggð í borginni.