Samkeppni um listaverk í almannarými í Vesturvin á Héðinsreit

Reykjavík úr lofti 2023. Ljósmynd Ragnar Th. Sigurðsson
Reykjavík loftmynd 2023. Ljósmynd Ragnar Th. Sigurðsson

Í samningum Reykjavíkurborgar og lóðarhafa um list í almannarými eru sett fram markmið um að ákveðinni fjárhæð verði varið í listsköpun í almannarýmum á uppbyggingarsvæðum til að tryggja gæði og gott umhverfi í borginni. 

Til þess að fylgja þessum markmiðum eftir hefur verið ákveðið að efna til samkeppni um gerð útilistaverks til uppsetningar í Vesturvin á Héðinsreit í Vesturbæ Reykjavíkur.

Kallað er eftir fjölbreyttum hugmyndum og er horft til þess að listaverk geti haft margbreytilega virkni og notagildi, ólíkir aldurshópar geti notið þess og það tengist sögu svæðisins. 

Við val á listaverki skal metið á hvern hátt verkið auðgar mannlíf í Vesturvin, fegrar eða virkjar vannýtt svæði og skapar spennandi umhverfi. 

Myndlistarmönnum er boðið að taka þátt í forvali að lokaðri samkeppni um listaverk í almannarými í Vesturvin á Héðinsreit í Vesturbæ Reykjavíkur. 

Reykjavíkurborg og lóðarhafar sameinast um listsköpun á svæðinu til að auka gæði og gott umhverfi í borginni og er heildarfjárhæð sem um ræðir allt að sextán milljónir króna.

Það er  Listasafn Reykjavíkur sem hefur umsjón með samkeppninni sem fer fram eftir samkeppnisreglum Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM) og er  lokuð samkeppni með opnu forvali.

Forvalsnefnd mun velja þrjá myndlistarmenn úr innsendum umsóknum til þátttöku í seinni hluta samkeppninnar.

Þau sem óska eftir því að taka þátt í forvali vegna samkeppninnar sendi eitt PDF skjal merkt með nafni þess sem sækir um og nafni svæðisins "Vesturvin". 

Skjalið skal innihalda eftirtaldar upplýsingar:

  • Ferilskrá með greinargóðum upplýsingum um listferil, nafn, kennitölu, heimilisfang, símanúmer og netfang
  • 5 ljósmyndir af fyrri verkum
  • Texti: Heimilt er að senda inn stuttan texta þar sem fjallað er um reynslu, hæfni og áhugasvið þess sem sækir um og forsendur til að vinna verk í almannarými (hámark 200 orð).

Hámarksstærð PDF skjals er 10 MB. 

Verkefnastjóri staðfestir móttöku umsókna og að þær séu í samræmi við ofantaldar kröfur. 

Umsóknum um þátttöku í forvali skal aðeins skilað rafrænt og senda á netfangið listaverk.uppbygging@reykjavik.is.

Umsóknarfrestur er til og með 16. október 2024.